Auður Gunnarsdóttir býr í Mosfellsbæ ásamt eiginmanni sínum. Heimili hennar er ekki bara heimili heldur líka vinnustaður hennar því að á neðri hæð hússins töfrar hún fram fallega listmuni.
Hún fann sína hillu fyrir um 27 árum þegar hún fór á keramiknámskeið í Danmörku, þar sem hún var búsett í um tíu ár. Í dag býr hún á fallegu heimili í Mosfellsbæ þar sem hún tók á móti ljósmyndara Morgunblaðsins. Hún hefur búið þar í 20 ár ásamt Gunnari eiginmanni sínum, en þau eiga samtals átta börn og 13 barnabörn. Á neðri hæð heimilis þeirra er Auður með vinnustofu þar sem megnið af vörum hennar verður til.
„Ég byrjaði að læra að búa til keramik árið 1998, en ég sá auglýsingu á keramiknámskeiði sem var kennt á daginn, fimm daga vikunnar, í eina önn. Ég hafði aldrei snert leir áður en ég fór á námskeiðið en ég fékk strax brennandi áhuga, svo að ég er enn að. Í dag er ég aðallega að búa til nytjahluti sem ég renni eða steypi í mót úr postulíni og steinleir. Ég rakúbrenni eða holubrenni annað slagið „unika“ hluti þar sem það veitir mér mikla andlega næringu. Á meðan ég bjó í Danmörku rak ég gallerí þar sem ég var nær eingöngu að gera unika hluti sem ég rakúbrenndi. Unika er orð sem ég lærði örugglega í Danmörku en það stendur fyrir þá hluti sem eru einstakir, það eru til fá eintök, eða jafnvel bara eitt eintak af hlutnum. Rakúbrennsla er gerð utandyra í gasofni þar sem hluturinn er hitaður upp í um þúsund gráður og er svo tekinn úr ofninum með sérstökum töngum og settur í tunnu með sagi í nokkrar mínútur, en það kviknar í saginu vegna hitans, þannig að sót sest á þann hluta sem ekki er glerjaður. Hluturinn er síðan tekinn úr saginu og snöggkældur í vatni. Þetta er ótrúlega spennandi ferli með eldi og reyk. Holubrennslan fer þannig fram að ég gref holu í jörðina og set spæni og timbur í botninn. Síðan raða ég hlutunum á og fylli holuna af brennanlegum lífrænum efnum eins og þara, hrossaskít og trjábútum, og er það ferli líka mjög áhugavert. Ég hef frá því árið 2019 eingöngu unnið við að búa til keramik en áður hafði ég verið að gera það með hléum þar sem ég stundaði aðra vinnu með.“
„Ég fæ innblástur aðallega úr náttúrunni og er þá mest að horfa til forms og litar. Svo bæti ég oft jarðefnum við vörurnar mínar, eins og ösku, hrauni og grjóti, en þá er ég búin að brjóta efnin niður, bæði í leir og glerungi. En annars getur hvað sem er veitt mér innblástur. Sköpun er mér mikilvæg orkulosun og sérstaklega það að vinna með höndunum. Ef ég er ekki að renna eða handmóta hlutinn sem ég er að búa til þá er ég í fíngerðari vinnu eins og að skera út með sérstöku járni eða hníf. Í nokkur ár hafði ég ekki aðstöðu til að búa til keramik og þá sótti ég námskeið í olíumálun í staðinn, þar sem ég verð að geta skapað.“
Auður segist selja vasa, bolla og skálar nokkuð jafnt og þykir henni það frábært því að þá getur hún haldið ákveðinni fjölbreytni í sköpun sinni og sleppur við að þurfa sífellt að búa til sömu vöruna.
„Ég er að selja vörurnar mínar í Bjarni Sigurdsson Gallery á Skólavörðustíg 41. Ég er þar ásamt sjö öðrum frábærum listamönnum og yndislegu fólki en þegar þú ert að skapa skiptir miklu máli að vera í góðu umhverfi. Mér finnst mjög gott að ræða við aðra listamenn og deila pælingum okkar, við getum veitt hvert öðru innblástur og hvatningu. Svo er líka mikilvægt að hitta viðskiptavininn sinn af og til og fá tilfinningu fyrir því hvað hann vill og fyrir hverju hann er spenntur hverju sinni. Einnig finnst mér yfir höfuð gaman að hitta ólíka einstaklinga. Ég vinn í galleríinu einn dag í viku en annars vinn ég langmest heima. Ég er mest skapandi á morgnana þegar ég er úthvíld en það kemur fyrir að ég fái góðar hugmyndir á kvöldin, kannski þegar ég er komin upp í rúm, og þá er nú gott að hafa vinnustofuna heima. Ég á það alveg til að fara niður að vinna í náttsloppnum.“