Við Dýjagötu 12 í Garðabæ er að finna einstakt skrauthýsi sem reist var 2020. Húsið er 505,4 fm að stærð og sérlega eftirminnilegt. Helgi Steinar hjá Skala arkitektum hannaði húsið sjálft og sá Guðbjörg Magnúsdóttir innanhússarkitekt um innanhússhönnun. Öll lýsing er hönnuð af Inga Má Helgasyni í Lumex og raf- og hitakerfi hússins er stjórnað með Free@home-stýrikerfinu. Húsið var fyrst auglýst til sölu í nóvember 2023.
Seljendur hússins eru Tómas R. Jónasson lögmaður og Þorsteinn Máni Bessason. Nú hefur húsið verið selt og er það félagið KS 24 ehf. sem festi kaup á því. Forráðamaður félagsins er Karen Rut Sigurðardóttir, eiginkona Sverris Þórs Gunnarssonar rafrettukóngs, sem er þekktur fyrir að reka söluturninn Drekann. Hann fékk dóm í haust eftir að upp komst um vangoldin tóbaksgjöld á árunum 2015-2018.
Þegar húsið við Dýjagötu var fyrst auglýst til sölu var ásett verð 485.000.000 kr. Húsið var þó ekki selt á því verði heldur á 360.000.000 kr. eða 125 milljónum undir ásettu verði. Félag Karenar Rutar greiddi 180.000.000 kr. i peningum og setti tvær fasteignir upp í húsið. Önnur er við Nýbýlaveg í Kópavogi og hin er við Laugaveg.