Í byrjun ársins var glæsilegt einbýlishús við Fagraberg í Hafnarfirði auglýst til sölu. Ásett verð var 248.000.000 kr. Nú hefur húsið verið selt.
Jón Erling Ragnarsson, einn af eigendum Mekka Wines & Spirits, og Þórunn Dögg Johansen, einn af eigendum Athygli ráðstefna, festu kaup á einbýlishúsi við Fagraberg í Hafnarfirði á dögunum.
Þau keyptu húsið af Evu Björgu Sigurðardóttur kaupsýslukonu. Um er að ræða 340 fm einbýli sem reist var 1984. Húsið er á tveimur hæðum og hefur verið mikið endurnýjað. Eldhúsið var tekið í gegn árið 2016 og eldhústæki endurnýjuð. Svört granítplata er á dökkbrúnni innréttingu og eru flísar á milli efri og neðri skápa. Stofur, baðherbergi og svefnherbergi eru máluð í dökkgráum lit sem gerir eignina hlýlega. Stíllinn heldur sér um allt húsið og eru svartir, gráir og ljósbrúnir munir notaðir á móti gráu veggjunum. Gegnheilt parket er í eldhúsi, stofum og herbergjum og flísar á baðherbergjum, forstofu og þvottahúsi.
Það er því ekki skrýtið að Jón Erling og Þórunn hafi fallið fyrir húsinu en nú er einbýlishús þeirra við Suðurgötu 27 komið á sölu.