Hönnunarmars fer fram dagana 2.-6. apríl í sautjánda sinn. Á hátíðinni er hönnun og arkitektúr fagnað og dagskráin hefur sjaldan verið meiri. Hátíðin hefst með Design Talks í Hörpu þann 2. apríl en opnunarpartý Hönnunarmars fer fram 3. apríl. Í kjölfarið opna sýningar um alla miðborg.
Landsbankinn gefur sex ungum fatahönnuðum sviðið á hátíðinni. Þátttakendur eru Andrea Margrétardóttir, Kári Eyvindur, Michel Pajak Pajonk, Sigríður Ágústa Finnbogadóttir, Sóley Jóhannsdóttir og Thelma Gunnarsdóttir.
Sýningarstaður: Landsbankinn, Reykjastræti 6
Sýningarsalur Polestar mun breytast í áhrifamikla hönnunarmiðstöð þar sem framsækin verk Tobia Zambotti mæta stefnu Polestar um sjálfbæra nýsköpun. Zambotti, innanhússhönnuður, er þekktur fyrir djörf, nútímaleg og umhverfisvæn verk. Á sýningunni sýnir hann fjögur verk, Coat-19, The Fan Chair, Reel og Sea Level Rise Chair.
Sýningarstaður: Polestar Space, Brimborg. Bíldshöfði 6.
Í ár fagnar íslenska útivistarmerkið 66°Norður 99 ára afmæli og af því tilefni verður sett upp sérstök sýning sem ber heitið „99 ár - 867,815,464 klukkustundir.“ Á sýningunni verða sígildar og sögulegar flíkur í bland við nýrri. Þar má nefna sjóstakk frá fimmta áratugnum og fatnað frá Ólympíuleikunum.
Sýningarstaður: Listasafn Reykjavíkur, Hafnarhúsið
Þura Stína, grafískur hönnuður og listrænn stjórnandi, setur upp sýningu byggða á hugarheimi hennar. Með sýningunni vill Þura Stína leggja áherslu á eðli drottningarinnar í gegnum grafík, orðatiltæki og upplifun. Í rýminu mun SURA einnig opna pop-up verzlunina SuraShop þar sem verður hægt að kaupa verkin sem eru til sýnis.
Sýningarstaður: Á milli Gallery, Ingólfsstræti 6
Hvíslustell er samstarfsverkefni fimm einstaklinga, vöruhönnuða, fatahönnuðar og myndlistarmanns þar sem unnið er að því að skapa matarstell. Notast er við aðferð byggða á teiknileiknum exquisite corpse þar sem hver og einn byrjar að mynda hlut sem vísar í borðbúnað og svo tekur næsti við og heldur vinnunni áfram á sinn hátt, og koll af kolli. Hvíslustell er unnið í samstarfi við veitingastaðinn Hosiló þar sem verkefnið verður að auki sýnt sem hluti af matarupplifun staðarins. Þátttakendur eru Agnes Ársælsdóttir, Berglind Ósk Hlynsdóttir, Rebekka Ashley Egilsdóttir, Silvía Sif Ólafsdóttir og Sylvía Dröfn Jónsdóttir.
Sýningarstaður: Hosiló, Hverfisgötu 12
Sýning sem er haldin í tilefni af þrjátíu ára afmæli Félags vöru- og iðnhönnuða. Á sýningunni gefst tækifæri til að sjá brot af því besta sem íslenskir hönnuðir hafa skapað í gegnum tíðina. Þetta er ekki tæmandi yfirlit heldur lifandi innsýn í hugmyndaflug, sköpunargleði og fjölbreytileika hönnunar á Íslandi.
Sýningarstaður: Reykjastræti 6
David Taylor er skoskur hönnuður og silfursmiður sem hefur starfað um áratugabil í Svíþjóð. Hann er þekktur fyrir frjálslega meðhöndlun óhefðbundinna efna og iðnaðarúrgangs sem er yfirleitt í andstöðu við fíngerða og nákvæma smíði gripa úr dýrari málmum. Ál er kjarninn í efnisvali Taylors. Í HAKK Gallery verða til sýnis bæði verk sem smíðuð eru sérstaklega fyrir sýninguna, sem og önnur nýleg verk.
Sýningarstaður: Hakk Gallery, Óðinsgötu 1
Bibi & Bella er lúxusmerki fyrir stelpur á aldrinum 4-12 ára. Merkið býður upp á skrautlegar yfirhafnir og fylgihluti úr hágæðaefnum. Markmiðið er að skapa draumkenndar og tímalausar flíkur sem bæði endast og erfast.
Sýningarstaður: Verslunin Eva, Laugavegi 26
Sýning um þjóðhagfræðileg gögn og sögu íslensku þjóðarinnar sem miðlað er með þrívíðum og tvívíðum hætti. Þátttakendur eru Búi Aðalsteinsson, Hanna Dís Whitehead, Brynjar Sigurðarson, Rúna Thors og Gallery Port.
Sýningarstaður: Gallery Port, Hallgerðargötu 19-23
Hidden Goods er töskumerki stofnað af Hrafnhildi G. Thoroddsen fatahönnuði. Í ár kynnir hún nýja línu sem er innblásin af handverki og endurnýtingu efnis á skapandi hátt. Leitast er við að finna falinn spennandi möguleika í hversdagslegum flíkum og umbreyta í einstaka fylgihluti.
Sýningarstaður: Stefánsbúð, Laugavegi
Spennandi samstarf á milli nemenda í textílbraut Myndlistaskólans í Reykjavík og íslenska hönnunarfyrirtækisins As We Grow. Nemendur fengu tækifæri til að vinna með raunverulegt vörumerki, kynna sér starfsemi þess og þróa nýjar hugmyndir að vörum.
Sýningarstaður: As We Grow, Hafnarstræti 19
Listakonurnar Lilý Erla Adamsdóttir og Thora Finnsdóttir opna samstarfssýningu þar sem unnið er með fegurð íslenskrar náttúru. Snævi þaktar fjallshlíðar, mosavaxið land og víðáttumiklar hraunbreiður hafa lengi veitt listafólki og hönnuðum innblástur. Þessi einkenni landslagsins erU sameiginlegur snertiflötur samstarfsins sem er í stöðugri þróun.
Sýningarstaður: Listval Gallerí, Hólmaslóð 6
Creative Business Cup er árlegur viðburður sem haldinn er í Kaupmannahöfn þar sem skapandi sprotafyrirtæki frá yfir 80 löndum keppa um titilinn fyrir bestu hugmyndina. Sigurvegari forkeppninnar verður framlag Íslands í CBC 2025 og fær flug og gistingu í Kaupmannahöfn ásamt því að fá aðstoð við að láta sprotafyrirtækið sitt vaxa og teygja sig á nýja markaði.
Sýningarstaður: Gróska, Bjargargötu 1
Á Hönnunarmars mun ilmgerðin Fischersund frumsýna nýja ilmvatnsflösku hannaða af Ingibjörgu Birgisdóttur samhliða því að kynna til leiks fyrsta ilminn úr Faux Flora seríunni. Til að ramma inn Faux Flora heiminn verður gefin út 7 tommu vínylplata með tónlist sem samin var sérstaklega fyrir ilminn.
Sýningarstaður: Fischersund 3
Þetta er aðeins brot af því sem er að gerast á Hönnunarmars þetta árið. Kynntu þér stútfulla dagskrá á vef Hönnunarmiðstöðvar.