Hafrún Hafliðadóttir, kærasta Sigmars Vilhjálmssonar athafnamanns, hefur sett raðhús sitt í Mosfellsbæ á sölu. Um er að ræða 164 fm hús á tveimur hæðum. Húsið var reist 1992 og keypti Hafrún það 2019 ásamt fyrri eiginmanni. Þau eiga hvort um sig 50% hlut í húsinu.
Húsið er snoturt með hallandi þaki. Í húsinu eru fjögur svefnherbergi og því er húsið hentugt fyrir stóra fjölskyldu. Fallegt fiskibeinaparket er á stofunni sem er á neðri hæð hússins og eru stórir gluggar þar í forgrunni. Fyrir framan stofugluggann er stór og skjólgóður garður með vönduðum skjólveggjum.
Á neðri hæðinni er eldhúsið og er opið út í garð úr eldhúsinu. Á efri hæðinni, sem er að hluta til undir súð, er að finna herbergi, baðherbergi og stórar svalir.