Västra Trädgårdsgatan 9 í miðbæ Stokkhólms skartaði sínu fegursta þegar splunkuný Stockholm-lína Ikea var kynnt fyrir litlum hópi á dögunum. Til þess að sýna línuna í réttu ljósi og til að auka hughrif viðstaddra var búið að innrétta íbúð á tveimur hæðum við fyrrnefnda götu. Slegið var upp teiti í íbúðinni þar sem hönnuðir línunnar voru samankomnir ásamt stjórnendum Ikea og gestum víða af úr heiminum.
Árið 1985, eða fyrir 40 árum, frumsýndi Ikea sína fyrstu Stockholm-línu. Síðan þá hefur ný lína litið dagsins ljós nokkrum sinnum og hafa vörurnar þótt eftirsóttar. Biðin eftir nýrri Stocholm-línu hefur tekið á en sjö ár eru síðan síðasta lína kom á markað. Hún innihélt hluti sem þykja móðins á Íslandi og líka víða um heim.
Meira er lagt í Stockholm-línuna en gengur og gerist hjá Ikea og eru hlutir í henni örlítið dýrari. Verðið er þó alls ekki óyfirstíganlegt á þessum 90 hönnunarvörum sem frumsýndar verða hérlendis á fimmtudaginn. Ber þar að nefna kubba-sófa sem hægt er að raða saman að vild og koma þeir í nokkrum litum og efnum. Þar eru líka bókahillur í ljósum við og úr dökkum við, lítil sófaborð sem fallegt er að raða saman, glerskápar sem smellpassa bæði undir sparistell en líka fyrir skó og fylgihluti séu þeir hafðir í svefnherbergi. Einn af flottutu hlutum línunnar er stofuskápur með rattan-rennihurðum sem líklegt er að slegist verði um.
Stór hópur af hönnuðum kom saman til að búa til Stocholm-línuna og fékk hönnuðurinn Karin Gustavsson það verkefni að stýra hönnunarteyminu.
„Skandínavísk hönnun snýst um sígildan einfaldleika eins og fallega litasamsetningu, náttúrleg hráefni og form. Mér finnst ótrúlega gaman að vinna með mótvægi þar sem eitthvað mjúkt eins og ull er notað sem einhverju glansandi og eins og gleri. Saman skapa hráefnin einstakt og áhugavert útlit,“ segir Karin sem hefur unnið fyrir Ikea í 20 ár en hún er hönnuður að mennt.
„Framleiðslan var einnig lykilatriði í að finna réttu gæðin en þar sem við höfum lengi verið í góðum samskiptum við framleiðendur gátum við blásið lífi í línu sem ljómar af fallegri hönnun og handverki á verði sem ég er afar stolt af,“ segir hún.
Í línunni er hangandi glerljós sem vakti mikla athygli þegar línan var kynnt í Stokkhólmi. Ljósið er hannað af Nike Karlsson. Hann segir að hönnunarferlið hafi tekið örlítið á.
„Karin var með ákveðnar hugmyndir fyrir loftljósið sem mér fannst skemmtilegar en ég átti þó erfitt með að sjá það fyrir mér svona í upphafi. Ég ætlaði að nota við eða textíl en að lokum var það gler sem átti vinninginn og smellpassaði við hönnunina,“ segir Nike Karlsson en ljósið er ekki bara hönnunarlegt og smart heldur er það líka nokkuð praktískt því það má tína það af grindinni og setja það í uppþvottavél þegar það er orðið skítugt.
„Það mætti ætla að vörulína sem kallastStockholm sé með stórborgarbrag yfir sér. Fyrir þessa línu sóttum við innblástur út fyrir borgarmörkin, í náttúruna og eyjarnar í kring. Við unnum með sænskum birgja til að fá furu í hæsta gæðaflokki. Fólk hugsar oft um furu sem ódýrt hráefni en fegurð gæðafuru er óviðjafnanleg og það má sjá á bæði sófanum og bekknum. Sófinn er sá fyrsti í úrvali okkar án svamps. Hann er úr 100% bómullarblöndu og fylltur með kókóstrefjum og pokagormum. Þegar þú sest í hann heyrir þú í gæðunum,“ segirNike Karlsson.
Í línunni eru ekki bara húsgögn heldur skrautmunir, borðbúnaður og textíll. Þar er til dæmis að finna handunnar gólfmottur sem setja svip á hvert heimili.
„Hver einasta vara í línunni er sígild og fallegt. Þar er eitthvað sem þú getur átt og elskað um ókomin ár,“ segir Paulin Machado hönnuður og bætir við:
„Uppáhaldsvörurnar mínar eru motturnar með birkimynstrinu. Það er magnað að vinna með handofið efni og verða vitni að ótrúlegri færni sem hefur gengið á milli kynslóða. Það tekur mörg ár að verða fær vefari en hver motta er gerð af tveimur handverkslistamönnum á nokkrum dögum. Þeir sitja hlið við hlið og vinna með eina hlið mottunnar þar sem þeir vefa í takt. Fólk heldur kannski að það sé einfalt að vefa en sannleikurinn er sá að það krefst mikillar færni. Val á litum, áferð, hversu þétt er togað í hvern þráð, hver ákvörðun hefur áhrif á lokaútkomuna,“ segir Machado.