Tinna Bryde fasteignasali á Pálsson fasteignasölu svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá manneskju sem veltir því fyrir sér hvort hún eigi að kaupa íbúð núna eða bíða með það.
Sæl.
Nú á ég sparnað inni á bók en velti fyrir mér hvernig er fasteignamarkaðurinn. Mun fasteignaverð hækka? Á ég að bíða eða er gott að kaupa núna?
Kveðja,
HG
Sæl og takk kærlega fyrir spurninguna.
Þetta er eitthvað sem margir eru að velta fyrir sér þessa dagana.
Nú ríkir ákveðið jafnvægi á fasteignamarkaði, sem þýðir að fasteignir eru að seljast, en ekki á methraða. Það gefur þér svigrúm til að skoða þína stöðu án þess að vera undir miklum þrýstingi.
Vextir hafa verið að lækka undanfarið og spár gera ráð fyrir áframhaldandi lækkunum. Lægri vextir geta leitt til aukinnar eftirspurnar og þar af leiðandi hækkunar á fasteignaverði.
Hvað þýðir þetta fyrir þig?
Fyrsta eignin getur verið frábær fjárfesting sem hjálpar þér að komast í stærri eign síðar. Þess vegna er sniðugt að horfa ekki bara á ástand eignarinnar í dag, heldur líka á möguleikana sem hún hefur. Það er ótrúlegt hvað hægt er að gera með litlum kostnaði – og þannig auka verðmætið.
Þegar þú skoðar eignir er gott að hafa fermetraverð í huga og bera saman við sambærilegar eignir sem hafa selst nýlega. Þannig færðu betri mynd af því hvað þú ert að fá fyrir peninginn.
Kær kveðja,
Tinna Bryde fasteignasali.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Tinnu spurningu HÉR.