Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, hyggst flytja úr blokkaríbúðinni sem hún býr í ásamt eiginmanni sínum, Kristjáni Frey Kristjánssyni og börnum þeirra. Smartland hefur heimildir fyrir því að Halla Hrund og Kristján séu búin að festa kaup á sérblýli í Árbænum.
Halla Hrund minntist á það oftar en einu sinni í tengslum við forsetakosningarnar, sem fram fóru í fyrra, að hún byggi í blokk og átti slíkt tal að höfða til fólksins í landinu. Blokkartalið laut þó í lægra haldi fyrir hálsklútum úr silki þegar Halla Tómasdóttir var kosin forseti Íslands.
Nú er draumurinn um búsetu í blokk á enda því íbúð Höllu Hrundar og Kristjáns hefur verið á sölu. Íbúðin er á annarri hæð og er 90 fm að stærð. Blokkin sjálf var teiknuð af Kjartani Sveinssyni og var reist 1973, eða áður en byggingartæknifræðingurinn datt í súlurnar og bogadregnu línurnar sem einkenna einbýlishús sem hann teiknaði í kringum 1980.