„Fyrst fannst fólki þetta dálítið framúrstefnuleg og klikkuð hugmynd,“ segir Arnhildur Pálmadóttir arkitekt um hugmyndina að Lavaforming eða Hraunmyndunum sem byggir á því að rennandi hraun sé nýtt sem byggingarefni framtíðarborga. Síðan hugmyndin kom fyrst fram hafa liðið nokkur ár og í vikunni tekur Ísland í fyrsta skipti þátt með eigin skála á Tvíæringnum í arkitektúr í Feneyjum. Sýningin Lavaforming er vissulega dálítið kreisí og kynnir róttækar en nauðsynlegar breytingar á framtíðarsamfélögum. Arnhildur og teymið fengu til liðs við sig Andra Snæ Magnason rithöfund til að þróa með sér heim sýningarinnar, karakterana og sögur fólks í þessari framtíðarborg, Eldborg.
„Í gegnum tíðina hef ég alltaf lesið bækurnar hans Andra Snæs og tengi mjög við hans lífssýn og hugmyndafræði. Í fyrsta skipti sem ég sá hann var skáldsagan Draumalandið nýkomin út og hann var að kynna hugmyndir bókarinnar á Húsavík fyrir fullum sal af vægast sagt skeptískum íbúum. En ég og maðurinn minn vorum líka í salnum og vorum sammála því sem hann sagði,“ segir Arnhildur aðspurð um fyrstu kynni hennar og Andra Snæs.
Andri Snær segist hafa fylgst með Lavaforming síðan hugmyndin kom fyrst fram.
„Arnhildur er einn af okkar róttækustu arkitektum, hún er ekki bara með sýn heldur hefur hún sýnt í verki að hægt er að byggja betur. Það var því mjög freistandi að taka þátt í verkefninu en ég hef unnið mikið með arkitektum í gegnum tíðina. Ég held ég þekki svei mér þá fleiri arkitekta en rithöfunda. Gott ef ég ætlaði ekki í arkitektúr en ákvað svo að betra væri að fá mér öruggara starf... sem ljóðskáld,“ segir hann og hlær. Þau eru sammála um að vísindaskáldskapur og umhverfismál séu lykilþemu í sýningunni.
Hugmyndin að Lavaforming kviknaði í samtali Arnhildar og sonar hennar Arnars Skarphéðinssonar, meðhöfundar verksins. Eftir gosið í Holuhrauni 2014-2015 ræddu þau mæðgin um gríðarlegt magn hrauns sem spýttist upp úr jörðinni og spáðu í það hvort hægt væri að nýta það beint sem byggingarefni, í stað þess að mylja það niður, blanda það sementi og flytja langar vegalengdir með tilheyrandi losun kolefna, kostnaði og skaðlegum áhrifum á umhverfið.
„Við þurfum að sjá fyrir öðruvísi framtíð, stinga uppá henni og sýna fólki hana,“ segir Arnhildur. Andri Snær bættist í teymið til að sjá fyrir sér borgina og umhverfið í heiminum sem hún verður til úr. „Árið er 2150 í Eldborg, þannig að Stofnun Andra Magnasonar, tók viðtöl við 12 íbúa á tíræðisaldri, fólk sem segir hvernig borgin þróaðist og byggðist.“ útskýrir Andri Snær.
Sögurnar eru djúsí og borgin nokkuð raunveruleg þó hugrenningartengsl úr StarWars og öðrum vísindaskáldskap séu ekki fjarri lagi.
„Arkitektúr á þessa fantasíuhlið, sem verður oft að veruleika. Mér finnst til dæmis ákveðinn vísindaskáldskapur í Feneyjum! Skella drumbum ofan í hafið og byggja hallir ofan á þeim,“ segir Andri Snær og Arnhildur tekur við. „Það er allt annar veruleiki að vera í Feneyjum. Engir bílar, hjól eða rafmagnshlaupahjól, ekki einu sinni vespur, ekkert... nema ferðatöskurúllið á sumum stöðum,“ segir hún. Andri Snær er ekki alveg búinn með vísindaskáldskapinn. „Það mega samt ekki vera fljúgandi hvalir, fantasían þarf alltaf að hafa einhverjar rætur í okkar veruleika. Vísindaskáldskapur, ef hann er góður, fjallar alltaf um samtímann.“
Það verður ekki hjá því komist að ávarpa hversu róttæk og byltingarkennd hugmyndin er, framtíðarborg og mannvirki úr hrauni, sem kemur beint upp úr jörðinni!
„Arkitektar eru í ákveðinni klemmu. Bygginar, byggingariðnaður, hráefni og rekstur bygginga eru allavega 40% af kolefnislosun í dag og því drjúgur hluti af loftslagsvandanum. Margir arkitektar hafa sagt að við ættum að hætta að byggja, allavega hætta að rífa,“ segir Andri Snær. Arnhildur heldur áfram. „Við erum auðvitað að ávarpa loftslagsbreytingar, notkun á byggingarefni og ofgnótt en með hegðun okkar erum við að ganga hratt á auðlindir jarðar og á sama tíma takmarka tíma okkar mannkyns á jörðinni. Við erum að eyðileggja fyrir okkur sjálfum,“ segir hún og bætir við að miðað við fólksfjölgun og lífsgæðastandard á ákveðnum stöðum í heiminum þurfum við að byggja eins og eina New York borg á mánuði.
Hvað um Ísland í samhengi við sjálfbærni?
„Allt sem við erum að gera í dag er í rauninni yfirborðsklór, við þurfum miklu róttækari nálgun, við sjáum hugsunarvillur kynntar sem lausnir. Kaup á grænum bréfum til þess að geta mengað meira, er ekki eitthvað sem virkar. Við þurfum að hugsa miklu stærra sem er í raun markmið sýningarinnar, að vekja fólk til umhugsunar,“ segir hún og Andri bætir við að fyrir rúmri öld hafi verið álíka byltingarkennd hugmynd að hita hús með jarðhita, leggja rafmagnssnúrur yfir landið og byggja sundlaugar í hverjum bæ.
„Ísland er að miklu leyti búið til úr basalti og við höfum alltaf lært að Ísland sé snautt af auðlindum. En basalt er allsherjarefni. Það er hægt að búa til einangrun úr því, og basalttrefjar eru sterkari en koltrefjar, það má nýta þær til að búa til bíla og flugvélar. Það er meira að segja hægt að búa til föt úr hrauni,“ segir hann og bætir við hversu áhugavert sé að hugsa hlutina alveg upp á nýtt, ekki bara tvíka smá hér og þar.
„Þessi hugmynd storkar hefðbundinni fagurfræði. Við leyfum náttúrunni að hanna útfrá fúnksjón en ekki fegurð. Enda er fegurð skilgreiningaratriði, fegurð er alltaf smekksatriði,“ segir hún.
„Það er nú alveg fallegt að búa í Dimmuborgum eða Hljóðuklettum,“ skýtur Andri Snær inn í.
„Já, hver er ekki til í það?,“ spyr Arnhildur.
Auk Arnhildar og Andra Snæs eru þau Arnar Skarphéðinsson arkitekt og meðhöfundur, Björg Skarphéðinsson hönnuður, Sukanya Mukherjee arkitekt og Jack Armitage tónlistarmaður og hönnuður teymið á bakvið Lavaforming. Skálinn opnar fyrir almenning 10. maí og er opinn til 23. nóvember.
Hægt er að fylgjast með sýningunni og skyggnast bakvið tjöldin á Instagram síðu íslenska skálans: