Jón Trausti Ólafsson, forstjóri bílaumboðsins Öskju, og Edda Björk Kristjánsdóttir, mannauðstjóri Húsasmiðjunnar, hafa fest kaup á einbýlishúsi við Stórakur. Húsið keyptu þau af hjónunum Hannesi Hilmarssyni og Guðrúnu Þráinsdóttur, sem oft eru kennd við flugfélagið Atlanta. Hannes og Guðrún voru töluvert í fréttum á síðasta ári þegar fréttir bárust að því að þau hefðu keypt dýrasta húsið í Garðabæ við Mávanes en húsið keyptu þau af Ingu Lind Karlsdóttur sjónvarpsstjörnu og eiganda framleiðslufyrirtækisins Skot Productions.
Húsið við Stórakur var teiknað af Ívari Erni Guðmundssyni arkitekt. Hann hannaði húsið bæði að utan og innan. Mikið er lagt í allar innréttingar og er garðurinn eins og listaverk.
Jón Trausti og Edda hafa sett einbýlishús sitt við Dalprýði í Garðabæ á sölu og var fjallað um það á dögunum. Um er að ræða 341 fm einbýlishús sem teiknað var af Pálmari Kristmundssyni arkitekt. Sæbjörg Guðjónsdóttir innanhússhönnuður hannaði húsið að innan og Guðrún Atladóttir hannaði eldhúsinnréttinguna. Húsið er afar eigulegt og flott.
Smartland óskar Eddu og Jóni Trausta til hamingju með húsið!