Björn Jóhannsson landslagsarkitekt segir útieldhúsin vera það allra vinsælasta um þessar mundir. Tískan hafi færst úr því að hafa það huggulegt með rauðvínið í heita pottinum yfir í heita og kalda potta og sánur eftir útivist og hreyfingu, jafnvel mjúk svæði þar sem fólk geti stundað jóga. Eitt það mikilvægasta við hönnunarferlið er að sögn Björns að geta sýnt viðskiptavinum garðinn með sýndarveruleika, einmitt það sem fólkið fékk að upplifa sem á eitt af verkefnum Björns, veröndina á Seltjarnarnesi.
„Þegar ég var að sýna viðskiptavinum mínum fyrstu tillöguna komu þeir til mín og sáu hana í sýndarveruleika, settu á sig lítinn hjálm og gátu ferðast um og skoðað garðinn eins og þeir væru í honum,“ segir Björn Jóhannsson landslagsarkitekt um ferlið við fallega hönnun sína við heimili á Seltjarnarnesi. „Þetta hefur alltaf verið sérstaða mín, að vera með grafíkina eins góða og hægt er í teikningum þannig að fólk geti hreinlega farið í garðinn hjá sér.“
Björn lærði landslagsarkitektúr við Gloucestershire-háskóla í samnefndri sýslu á Suðvestur-Englandi. Hann útskrifaðist þaðan árið 1993 og hefur unnið sleitulaust við fagið í rúm þrjátíu ár, um tíma á teiknistofunni Tema í Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar, og síðan hérlendis þar sem hann hefur verið „sinn eigin herra“ og rekið litla teiknistofu.
„Sérstaða mín hefur verið að vinna í íburðarmiklum görðum, þar sem fólk er að fara í heitan pott, kaldan pott, gufubað, sturtu, eldhús, gróðurhús, skála o.s.frv. Þar sem á virkilega að vanda til verks,“ segir Björn, sem hefur einnig verið að teikna í kringum fjölbýli og fyrirtæki.
Veröndin við húsið á Nesinu, sem Björn hannaði, er alsett flísum sem hann kallar flísahellur til aðgreiningar. „Þetta eru ítalskar flísar frá Vídd sem kallast Atlas Concorde. Þær eru búnar til í verksmiðju í Marinella-dalnum, við hliðina á flottu sportbílaverksmiðjunum, Ferrari o.fl.“ Enginn hiti er undir flísunum en hann lýsir þeim sem grjóthörðum, stömum og fínum og að mun minni líkur séu að fólk renni á þeim en á trépalli.
„Þetta erum við talsvert mikið að vinna með núna.“
Tröppur, umgjörðin um heita pottinn, bekkur og aðrar innréttingar á veröndinni eru smíðaðar úr svokölluðum thermo-við sem búið er að baka við 220 gráður og þannig fjarlægja allt úr sem getur myglað eða komið sveppur í, að sögn Björns. Thermo-viðurinn er rauðbrúnn en gránar í sólarljósinu.
„Í þessu tilfelli erum við með hitameðhöndlað timbur sem fær að veðrast og svo er bara borið á þetta glært þegar það hefur náð þeim lit sem maður vill hafa á því.“
Grindverkið umhverfis veröndina segir Björn hins vegar vera bandsagaða furu sem tengist öðrum girðingum í hverfinu. „Þetta er parhús og þetta er sami litur og var fyrir, þannig að við unnum með hann.“ Sami litur er á útisturtunni og „hobbírýminu“, sem átti upphaflega að vera gufubað, að sögn Björns, og þak hobbírýmisins er torflagt.
Spurður um hæð og hönnun á grindverki segir hann þær ákvarðanir alltaf miða við byggingareglugerð, sem rammi ágætlega inn hvað megi og hverju þurfi að sækja um leyfi fyrir. „Aðalskuggavarpið er frá húsinu og mannvirkjum í kring sem eru hærri en girðingin. Það er alltaf einhver staður þar sem hægt er að vera í sólinni.“
Við „hobbírýmið“ er grillskýli og útieldhús og segir hann flesta sem leita til hans í dag vera að spá í einhvers konar útieldunaraðstöðu, í mismunandi útfærslum.
Við útieldhúsið, út frá girðingunni, var reistur kampavínsveggur einnig gerður úr thermo-við. „Þarna er hægt að leggja frá sér kampavín, snittur og bjór,“ segir Björn og bendir á að upp við grindverkið sé svo lægra borðið, í vinnuhæð, þar sem hægt er að t.d. skera grænmeti á meðan grillað er.
Hvert er viðhaldið?
„Það er ekkert viðhald á flísunum. Það þarf að bera glært á gráa timbrið [thermo-viðinn] á einhverjum tímapunkti, til að verja það. Bera þarf mun sjaldnar á bandsagaða timbrið [í girðingunni],“ svarar hann og segir allt viðhald vera í lágmarki.
„Það fyrsta sem ég geri er að spyrja viðskiptavininn hverjir séu draumar hans og þrár. Ég er að vinna með fólkinu í því að búa til umhverfi framtíðarinnar fyrir það,“ segir Björn þegar hann er spurður um hvað sé það fyrsta sem hann hugsi þegar hann kemur að nýju verkefni.
„Svo vinn ég yfirleitt með sömu verktökunum; Garðaþjónustan þín og þar er Eiríkur Einarsson aðalkarlinn minn.“
Björn segir að síðustu þrjú árin hafi hann vísað eins mörgum verkefnum og hann geti til Eiríks. „Hann fær verkið ef hann er nógu skemmtilegur og með nógu gott verð,“ bætir hann spaugsamur við.
Ekki er þó nóg að áframsetja verkefnið á annan mann og skilja þannig við. Björn segist fylgja verkinu til enda og að meðan á vinnu stendur fari hann vikulega til að líta eftir verkefninu.
„Það er mjög mikilvægt til þess að verkið klárist vel að það sé áframhaldandi ráðgjöf í kringum framkvæmdirnar. Hugmyndin er að hönnun og framkvæmd haldist í hendur alla leið.“
Eru viðskiptavinir þínir alltaf með fastmótaðar hugmyndir um hvað þeir vilja?
„Það er allur gangur á því. Sumir segja: Björn, þú ert sérfræðingurinn, þú átt að gera þetta ógeðslega flott og ég vil sjá hvað þú kemur með,“ svarar Björn og ítrekar að hann vinni í skrefum svo að hvar sem er í ferlinu hafi viðskiptavinir tækifæri til að vinna með honum og koma með hugmyndir.
Hann segir hönnunarvinnuna yfirleitt taka um tvo mánuði en að eftirspurnin sé – eins og gefur að skilja – árstíðabundin. Biðröðin getur verið nokkrir mánuðir og núna er hann t.a.m. með biðröð fyrir haustið, enda hefur verið það aukist gífurlega að fólk leiti sérþekkingar þegar kemur að hönnun garðsins og segir Björn stóru framleiðslufyrirtækin hafa átt þátt í því.
„Eins og Byko, Steypustöðin og Húsasmiðjan, sem öll hafa aukið sýnileika landslagsarkitekta eftir að þau fóru að nýta sérfræðinga meira.“
„Ég mæli með að fólk láti teikna fyrir sig árið áður en það framkvæmir,“ bendir Björn réttilega á vegna þess að það geti tekið tíma að finna góða verktaka, eða eins og hann orðar það: „Þú togar þá ekkert upp úr hatti.“
Ferlið frá a-ö hefur sinn tíma, sem hefst á hugmyndavinnu, umbreytingum og betrumbótum, svo aftur teikningum fyrir verktakann, áður en aftur er breytt og bætt.
„Þá kemur ljósa- og gróðurplan og fleiri verktakateikningar, og ef þú vilt fá flottustu gufuna í hverfinu þarf að teikna hana spýtu fyrir spýtu.“
Er eitthvað sérstakt í tísku núna?
„Þegar ég kom fyrst úr námi vildi fólk fá garð þar sem það gat grillað, farið í heita pottinn og drukkið rauðvín. Það var svolítið stemningin. Núna er fólk að minnka drykkjuna svo að það er allt að verða svolítið heilsutengt. Það er heitur pottur, kaldur pottur og gufubað eftir hlaupin, fjallgönguna eða hjólreiðarnar. Fólk er að gera ráð fyrir mjúkum svæðum þar sem hægt er að gera jóga og teygjur, jafnvel umkringt gróðri svo að hægt sé að komast í smá núvitund í jóganu og jafnvel að fá geymslu fyrir ketilbjöllurnar.“
Björn segir útieldhúsin, sem eru svo vinsæl um þessar mundir, vera hinn hluta heilsutengingarinnar, að fólk vilji getað grillað hollan og góðan mat og dedúað við eldamennskuna úti við.
„Langlífi, heilsa og allt það er að koma sterkara inn núna.“