Sænska húsgagnafyrirtækið Ikea leitar nýrra leiða til þess að gera vörulínur sínar umhverfisvænni án þess að það komi niður á útliti. Splununý lína lítur dagsins ljós á morgun, 1 júlí, sem kallast MÄVINN. Í línunni má sjá samspil handverks og náttúrulegra efna sem skapa jákvæðar samfélagsbreytingar.
Vörurnar eru búnar til úr nýstárlegu efni með skemmtilegum smáatriðum. Bananabörkur er meðal annars notaður í vörurnar og þannig skapar línan verðmæti úr úrgangi.
Fyrirtækið hefur unnið með félagslegum frumkvöðlum frá viðkvæmum heimshornum til að skapa meðbyr fyrir þau sem þurfa á honum að halda. Línan færir því handverki þeirra virðingu og vægi. Félagslegir frumkvöðlar eru einstaklingar sem helga sig að því að breyta heiminum til hins betra.
Í nýju MÄVINN línunni má finna 18 fallegar og handunnar vörur sem endurspegla hæfni og sköpunargleði handverksfólks í Bangladess, Indlandi, Indónesíu og Jórdaníu og Taílandi.
Í línunni er að finna ofin loftljós sem gefa hlýlega birtu en eru líka falleg ef fólk vill létta stemninguna á heimilinu. Þar eru líka ofnar diskamottur, röndóttir dúkar í fallegu munstri, púðar, teppi og allt það helsta sem til þarf til þess að fegra heimili fólks.