Arkitektinn Sigríður Arngrímsdóttir hefur búið sér og fjölskyldu sinni afar fallegt heimili við Nýbýlaveg í Kópavogi. Heimilið er undir dönskum áhrifum en þar lærði húsmóðirin fagið og hefur starfað sem arkitekt allar götur síðan. Íbúðin var upprunaleg þegar þau festu kaup á henni og þurfti að gera hitt og þetta til þess að aðlaga íbúðina að fjölskyldunni. Hún segist fyrst og fremst hafa skoðað grunnmyndina þegar þau festu kaup á íbúðinni.
„Mig langaði í garð en manninum mínum í bílskúr,“ segir Sigríður þegar hún er spurð að því hvað hafi heillað þau við íbúðina.
Eldhúsið á heimilinu er sérlega vel heppnað. Sigríður segir að hún hafi verið búin að teikna það upp 15 sinnum áður en hún náði að mastera það. Frontarnir á eldhúsinnréttingunni eru sérstakir en þeir eru með svörtum köntum og fræstum höldum sem setja svip sinn á það. Eldhúsið heppnaðist svo vel að nú eru frontarnir komnir í framleiðslu og verður afraksturinn sýndur á HönnunarMars sem fram fer í Reykjavík um miðjan maí.