Árni Matthíasson hefur í gegnum tíðina verið einn helsti menningarblaðamaður landsins og starfað á Morgunblaðinu alla sína tíð. Hann er líka maðurinn á bak við mbl.is sem er elsti íslenski fréttavefurinn. Áður en Árni hóf störf á Morgunblaðinu var hann bátsmaður á togara en þar kynntist hann eiginkonu sinni, Björgu Jónu Sveinsdóttur.
Fyrir 40 árum festu Árni og Björg kaup á eldra einbýlishúsi í Hafnarfirði og síðan þá hafa þau varið miklum tíma og peningum í að gera húsið upp. Þau dýpkuðu kjallarann, byggðu við húsið, panilklæddu það að innan og fleira sem fylgir því að gera upp húsnæði. Hann segir að þau hefðu líklega aldrei fest kaup á húsinu ef þau hefðu vitað hvað það þetta væri stórt verkefni.
„Við kynntumst á sjónum þegar við vorum á togara og okkur dreymdi bæði um hús sem væri fullt af fólki,“ segir Árni en hjónin áttu eitt barn saman þegar þau hnutu um húsið sem staðsett er á einum besta staðnum í Hafnarfirði. Hann hætti svo á sjónum svo hann gæti verið meira með fjölskyldunni en þá voru þau búin að eignast fleiri börn. Árni er fjölskyldumaður fram í fingurgóma og leggur mikið upp úr því að heimilislíf hann sé kærleiksríkt. Líklega er það vegna þess að hann er alinn upp við mikinn alkahólisma þar sem fólk drakk, reifst og slóst. Þegar hann var lítill hélt hann að það væri allt fullkomið heima hjá öðru fólki og hans eigin heimili væri undantekning.
Fyrir um 18 mánuðum nefndi ég það fyrst við Árna að koma í þennan litla en arfavinsæla sjónvarpsþátt sem Heimilislíf er. Hann sagðist geta gert það en þyrfti fyrst að taka til. Á þessum tíma hef ég hnippt reglulega í hann og spurt hvernig tiltektin gengi en henni var einhvern veginn aldrei lokið. Það kom því á óvart þegar Árni tjáði mér að hann væri nú tilbúinn og ég mætti heimsækja hann. Sú heimsókn var ferð til fjár eins og sést á viðtalinu hér fyrir ofan!