Tónlistarmaðurinn Þórunn Antonía Magnúsdóttir býr í einni bleikustu íbúð landsins í Vesturbænum. Hún flutti í íbúðina síðasta sumar eftir að hafa búið í tvö ár í Hveragerði. Þórunn segist hafa fest kaup á húsi í Hveragerði þegar hún var ólétt að sínu öðru barni. Eftir tvö ár í Hveragerði var hún komin með mikla Vesturbæjarþrá. Hún ákvað því að leigja út húsið sitt og flutti í þessa íbúð í 101 Reykjavík.
„Ég var blúsuð yfir því að vera einhleyp og ólétt og ákvað að flytja í Hveragerði,“ segir Þórunn og hlær.
Þórunn hefur sterkar skoðanir á því hvernig heimilið á að líta út. Frá því hún var lítil stelpa hefur hún verið tíður gestur á nytjamörkuðum og séð tækifæri í dóti sem aðrir vilja ekki eiga. Þess á milli fer hún í búðir eins og Húsgagnahöllina og nýlega keypti hún til dæmis vínrauða sófa þar sem passa vel við bleiku veggina. Þórunn hefur einstaka hæfni til að blanda öllu saman þannig að úr verði mikill ævintýraheimur.