Líf Magneudóttir borgarfulltrúi Vinstri grænna er umhverfisvæn og nýtin. Hún kaupir helst ekki nýja hluti og á heimili hennar og fjölskyldunnar er að finna hluti með sögu. Líf er heilluð af fallegum listaverkum og á heimilinu spila ljósmyndir og listaverk stórt hlutverk. Í vor stefnir Líf á að leiða lista Vinstri grænna í komandi borgarstjórnarkosningum og segir að lífið í borgarstjórn sé líflegt og skemmtilegt.
Þegar Líf var lítil flutti hún oft og segir að það hafi mótað hana. Í dag vill hún hvergi annarsstaðar vera en í Vesturbænum og kann að meta það sem hverfið hefur upp á að bjóða.
Áður en Líf og maður hennar, Snorri Stefánsson, fundu þessa björtu og fallegu íbúð bjuggu þau með þrjú börn í kjallara og þurftu meira pláss. Þau voru búin að leita að hentugra húsnæði í eitt og hálft ár þegar þessi skoðuðu þessa íbúð.
Í íbúðinni voru tvær stórar stofur en með því að fórna annarri þeirra undir eldhús var hægt að breyta herbergjaskipan og fá þannig rýmið til að passa vel utan um fjölskylduna. Stuttu eftir að þau fluttu inn varð Líf ólétt að fjórða barninu og segist nú vera á höttunum eftir stærra húsnæði því börnin séu að stækka og dætur hennar þrái að eiga sérherbergi.
Íbúðin er 119 fm og þegar Líf er spurð að því hvernig þau fari að því að halda öllu í horfinu segir hún að þetta snúist allt um skipulag.
„Mér finnst ég alltaf vera að taka til,“ segir Líf og upplýsir að þau þrífi alltaf á sunnudögum. Þá setja þau hlaðvarp eða hljóðbók í eyrun og hefjast handa.
Hún er kraftmikil og dugleg og þegar hún er spurð að því hvað drífi hana áfram segist hún vera meira með þá að hreinu hvað drífi hana ekki áfram. Og hvað skyldi það vera?
„Peningar og völd drífa mig ekki áfram,“ segir hún.