Bergur Þorri Benjamínsson viðskiptafræðingur býr ásamt eiginkonu sinni, Helgu Magnúsdóttur, í nýrri íbúð í Kópavogi. Þau voru í mörg ár að leita að hentugu húsnæði fyrir sig og börnin sín því hann lamaðist í slysi 1999 og hefur síðan þá verið í hjólstól. Helga glímir einnig við fötlun og þarf stundum að nota hjólastól.
Það má segja að hjónin hafi dottið í lukkupottinn þegar þau fundu íbúð sína í Kópavogi því með íbúðinni fylgdu tvö stæði í bílakjallara sem er ekki sjálfgefið. Íbúðin er þannig hönnuð að hún passar þeim og þeirra þörfum vel.
„Við byrjuðum að horfa á Kópavog mjög snemma en við bjuggum áður í Hafnarfirði. Við áttum fínan tíma þar, en þessi tími í umferðinni var að ganga frá okkur. Þegar ég er búinn að skila fullum vinnudegi hafði ég ekki orku í að hanga í bíl í 30 til 40 mínútur,“ segir Bergur Þorri.
Það þurfti að gera nokkrar breytingar á íbúðinni svo hún myndi passa fyrir fjölskylduna. Eldhúsið var breikkað og skápar teknir undan helluborðinu svo aðgengi væri betra.
Bergur Þorri segist ekki vera neitt fagurkeri því hans sýn á lífið sé að finna praktískar leiðir til að láta lífið ganga upp.
Bergur Þorri hefur verið formaður Sjálfsbjargar síðustu ár en í vikunni tók hann við starfi á Alþingi þar sem hann þjónustar Sjálfstæðisflokkinn. Auk þess býður hann sig fram í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi.