Silja Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur, rithöfundur, ritstjóri og þýðandi er gestur Heimilislífs þessa vikuna. Hún hefur búið í sama húsinu í Laugarneshverfinu í 40 ár. Fyrir þremur árum missti hún eiginmann sinn, Gunnar Karlsson prófessor í sagnfræði.
„Við fluttum fyrst í kjallarann öll fjögur. Það var yndislegur tími en svo fluttum við upp um haustið 1982,“ segir Silja og á þá við um þau hjónin og dætur þeirra tvær sem nú eru fullorðnar konur.
Í vor varð Silja fyrir því óláni að detta og fótbrjóta sig. Í framhaldinu komast hún að því að húsið hentaði ekki lengur. Hún segir að það hafi verið mikið áfall að vera bundin við hjólastól og göngugrind og geta ekki verið heima hjá sér. Á meðan sárin voru að gróa bjó hún heima hjá dóttur sinni og eiginmanni hennar. Uppfrá því ákvað hún að flytja. Það er þó hægra sagt en gert því á þessum 40 árum hefur safnast mikið af bókum, húsmunum og listaverkum. Silja segir að þau Gunnar hafi oft rætt að þau þyrftu að flytja en Gunnar hafi alltaf sagt að meðan þau kæmust stigana þá yrðu þau í húsinu.
Heimilið er hlýlegt og notalegt. Gamall rauður antik sófi er konungur stofunnar en hann býr yfir merkilegri sögu. Siglt var með hann frá Danmörku til Íslands með Eimskip en svo eignuðust Silja og Gunnar heitinn sófann sem hefur alltaf sett tóninn fyrir heimilið allar götur síðan.
Þótt Silja sé 79 ára gömul er hún ekki hætt að vinna. Nýjasta verkefni hennar er þýðing á bók Jane Austen Aðgát og örlyndi sem heitir á frummálinu Sense and Sensibility. Silja kynntist Austen fyrst þegar hún var í þriðja bekk í MR. Hún varð svo hugfangin af bókinni að hún brunaði niður í bæ og keypti bókina og drakk hana í sig.
„Þetta var fyrsta alvöru bókin sem ég las á ensku. Svo hélt ég áfram að lesa hana einu sinni á ári til ársins 1988. Þá þýddi ég hana,“ segir Silja.