Einar Kárason rithöfundur býr ásamt eiginkonu sinni, Hildi Baldursdóttur, í notalegri íbúð í Hlíðunum. Þau fluttu í íbúðina fyrir tæplega 26 árum ásamt dætrum sínum sem eru fjórar talsins.
„Við bjuggum miklu fleiri hérna fyrst. Við vorum með pláss í kjallaranum. Þar sem dætur okkar voru. Nú erum við bara þrjú eftir, við hjónin og kisa. Hún er númer eitt í íbúðinni,“ segir Einar og það leynir sér ekki að honum er hlýtt til kattarins.
Heimili Einars og Hildar er ekki bara heimili heldur líka vinnustaður. Vinna Einars fer fram á heimilinu á leyndardómsfullum stað sem hann vill alls ekki sýna í þættinum.
„Ég get ekki sýnt ruslakompur á heimilinu,“ segir hann og hlær.
Opið haf var einmitt skrifuð í ruslakompunni sem ekki er til sýnis hér. Þar skrifar Einar um mannraun mikla þegar fiskibátur hvolfir við Vestmannaeyjar. Sá sem kemst lífs af nær að synda í land í vetrarmyrkri og kulda.
Þegar Einar er spurður að því hvort þau Hildur séu mikið að breyta segir hann svo ekki vera. Hér sé hver hlutur á sínum stað.
„Við breytum aldrei neinu,“ segir hann.