Rut Káradóttir innanhússarkitekt segir að það hafi verið áskorun að endurhanna einbýlishús í Kópavogi vegna sögu þess. Um er að ræða eina af perlum Manfreðs Vilhjálmssonar arkitekts sem hannaði húsið fyrir Styrmi Gunnarsson heitinn, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins. Eftir andlát hans var húsið selt en í desember 2021 fékk Rut það í hendur.
„Eigendurnir, sem eiga húsið í dag, höfðu beðið mig um að finna fallegt hús fyrir sig. Þegar ég fann þetta þá gjörsamlega missti ég mig. Ef þetta væri ekki húsið þá vissi ég ekki hvað,“ segir Rut um Manfreðs-húsið.
„Þetta er ekkert smá mikill gullmoli, eftir flinkasta arkitekt okkar tíma, þá óð ég ekki í þetta verkefni. Ég þurfti að gefa mér smá tíma til þess að hugsa hvernig ég ætlaði að tækla þetta. Hvernig ég ætlaði að virða það sem fyrir er og fara mjúkum höndum um það. Ég gaf mér góðan tíma og svo var ég svo heppin að eigendurnir treystu mér 100%. Maður verður ennþá metnaðarfylltri. Ef eitthvað hefur misheppnast þá er það algerlega mér að kenna.“
Rut gætti þess að halda í þá hluti sem gera húsið sjarmerandi eins og bitana í loftinu sem bera húsið uppi.
„Mér fannst lykilatriði að strúktúrinn í húsinu sjálfu fengju að halda sér. Þessir bitar halda uppi efri hæðinni.“
„Þessir bitar mynda hús í húsi. Þeir eru mikilvægir burðarlega séð og líka fagurfræðilega séð,“ segir Rut.
Stíllinn á húsinu er svolítið japanskur og líka svolítið norrænn. Sem sagt blanda tveggja menningarheima og útkoman fögur eins og sést í þættinum.