Vala Garðarsdóttir fornleifafræðingur býr ásamt eiginmanni sínum, Ásgeiri Ragnarssyni lögmanni, og börnum þeirra í bjálkahúsi í Mosfellsdal. Hún er gestur Heimilislífs að þessu sinni.
Hjónin festu kaup á húsinu í janúar 2021 og þá var húsið tilbúið undir tréverk. Húsið er úr gegnheilum við, flutt inn frá Eistlandi, og bauð því upp á mikla möguleika.
„Ég held að það hafi verið dass af rómantík og löngun til að vera úti í sveit. Það er gott að vera við túnfótinn í Reykjavík, ekki inni í Reykjavík,“ segir Vala þegar hún er spurð að því hvers vegna hún og maðurinn hennar keyptu húsið. Þau bjuggu áður á Álftanesi í húsi sem hannað var af Hildigunni Haraldsdóttur arkitekt og eru stílarnir á húsunum tveimur ólíkir.
Hjónin eru með ólíkan smekk. Hann kann að meta nútímalega hönnun og hún er meira fyrir sveitarómantík. Þau náðu þó að sameina þetta tvennt í bjálkahúsinu og kallar hún stílinn „Bohemian Country“.
„Ég hef alltaf verið lúmskt ástfangin af öllum í dalnum. Alveg frá því ég las Innansveitarkronikuna hér um árið,“ segir Vala.
Hvers vegna fluttir þú frá Álftanesi yfir í Mosfellsdal?
„Ég tók upp á því að eiga svo mörg börn. Þegar við flytum á Álftanes, þá var ekki ákveðið að eiga tvö börn í viðbót, þau komu engu að síður sem betur fer. Þá var orðið of þröngt. Við fórum í alls konar pælingar varðandi það að byggja við húsið. En það blundaði í mér og manninum mínum, að koma hingað,“ segir Vala. Þegar bjálkahúsið var auglýst til sölu sá hún æskudraum sinn lifna við.
Björgvin Snæbjörnsson arkitekt hannaði innréttingar í húsið og aðstoðaði við flísaval og það sem til féll vegna hönnunar á húsinu.
„Við erum með ólíkan smekk, ég og maðurinn minn. Við náðum að sameina þetta,“ segir Vala og játar að það hafi stundum tekið á taugarnar.
„Það blés oft köldu á milli en við vorum ekki alltaf sammála,“ segir hún og bætir því við að það séu mikil lífsgæði fólgin í því að búa í bjálkahúsi.
„Það er eins og að búa í sumarbústað.“