Aldrei hægt að fylla skarð hans

Sara Lind Þórðardóttir.
Sara Lind Þórðardóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sara Lind Þórðardóttir missti manninn sinn, Regin Mogensen, í október 2013 eftir tíu mánaða baráttu við heilaæxli. Hann var mikið jólabarn og eftir andlát hans hefur hún haldið jólasiðum þeirra áfram. Hún bakar uppáhaldssmákökur hans og gefur dóttur þeirra Joe Boxer-náttföt eins og hann var vanur að gera. Í viðtali við Jólablað Morgunblaðsins ræðir Sara Lind um jólahald eftir makamissi. 

Ég man ekkert eftir fyrstu jólunum. Sorgin var svo mikill, ég var vafinn inn í hana og allt gleymdist. Samt ekki misskilja mig, í þokuskýi gerði ég allt til að gleðja dóttur mína og son með jólaföndri, jólakortagerð, bakstri og öllu því. Ég gerði mitt besta. En ég bara man ekkert eftir þessum tíma. Ég er heppin að eiga góða fjölskyldu sem hjálpaði mér að gleðja börnin mín þessi jól og jólin sem á eftir komu,“ segir Sara Lind.

Þegar jólin 2014 nálguðust ákvað Sara Lind að finna eitthvað að gera fyrir þær mæðgurnar til þess að dreifa huganum og gleðjast yfir.

„Í lok nóvember 2014 fór ég og keypti perlur og við byrjuðum að perla jólaskraut. Þetta gerðum við nánast öll kvöld, hlustuðum á skemmtilega tónlist, sungum, perluðum og nutum samverustundanna. Við vorum svo öflugar í að perla að á endanum bjuggum til jólatré úr perlum. Þarna náðum við að gleyma okkur og áttum yndislegar stundir,“ segir hún.

Fyrir jólin 2015 notuðu þær allar perlugersemarnar í jólakortagerð og í ár er þetta ferli hafið og er markið þeirra mæðgnanna að gera nýtt jólatré í ár.

Sara Lind Þórðardóttir og Þórunn Helga Mogensen.
Sara Lind Þórðardóttir og Þórunn Helga Mogensen. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vill helst spóla yfir desember

Þegar Sara Lind er spurð að því hvernig jólin hafi verið eftir að hún missti manninn sinn segir hún að þau hafi verið erfið.

„Jólin eru tíminn þar sem maður umvefur sig þeim sem maður elskar og hjá okkur er stórt skarð. Það er erfitt að gleðjast þegar söknuðurinn og þráin að fá manninn sinn aftur yfirtekur allt. Það að horfa á dóttur sína fylgjast með hinum pöbbunum á jólaböllum og jólaföndrinu rífur hjarta mitt í tvennt. Helst vil ég alltaf spóla yfir desember og fara bara beint í janúar. Áramótin eru líka alveg svakalega erfið,“ segir hún.

Að takast á við sorgina sem fylgir því að missa manninn sinn framkallar flóknar tilfinningar. Þegar ég spyr hana út í jólin í ár segist hún bæði finna fyrir spennu og hlakka örlítið til.

„Það er dásamleg tilfinning. Ég ætla að gera allt milli himins og jarðar í jólaundirbúningnum með dóttur minni. Allt snýst þetta um að gleðja börnin okkar. Ég er nú þegar búin að panta miða í leikhús í desember, á tónleika og ýmislegt annað. Desember í ár verður góður hjá okkur í ár, ég bara finn það á mér.“

Hvað hefur þú gert til þess að fylla skarð hans?

„Regin gaf dóttur okkar alltaf Joe Boxer-náttföt í jólagjöf. Hann ákvað það strax fyrstu jólin hennar árið 2007 og gerði það alltaf eftir það. Eftir að hann dó ákvað ég að halda í þessa hefð. Þannig að dóttir okkar fær Joe Boxer-náttföt frá pabba sínum. Ég baka alltaf uppáhaldskökurnar hans fyrir jólin og ég mun líklegast alltaf gera það, þar sem þær eru líka í miklu uppáhaldi hjá dóttur okkar.

Annars get ég ekki fyllt skarð hans, það er bara ekki hægt.“

Regin kom með jólin

Sara Lind segist alltaf hafa haft gaman af jólunum og eftir að hún kynntist manninum sínum hafi jólin orðið svo miklu skemmtilegri.

„Við fléttuðum saman hefðir okkar og það var yndislegt. Hann var mikið jólabarn og smitaði mig. Hann smitaði mig líka af nægjusemi, þolinmæði og þakklæti. Hann var til dæmis svo þakklátur fyrir allt sem ég gerði fyrir hann, til dæmis fyrir jólin þegar ég bakaði fyrir hann og krakkana þá lét hann mér líða eins og ég væri heimsins besti bakari, þakklæti var svo mikið. Alltaf er hann var spurður hvað hann vildi í jólagjöf var svarið alltaf það sama – ást og umhyggju. Og það meinti hann frá sínum dýpstu hjartarótum. Hann vildi skreyta mikið og kom með mun meira af jólaskrauti í búið en ég. Hann myndi pottþétt mótmæla þessum ummælum um jólaskrautið,“ segir hún og hlær.

Regin var mikill veiðimaður og skaut alltaf rjúpur í jólamatinn. Þessum sið var Sara Lind ekki vön en var fljót að læra að meta rjúpurnar.

„Ég náði að plata hann í jólakortagerð, honum fannst það kannski ekkert spes en hann tók þátt þessi elska. Hann fór og keypti jólatré með krökkunum og við áttum yndislegar stundir,“ segir hún.

Þegar ég spyr hana hvernig jólin hafi breyst eftir fráfall Regins játar hún að allt sé breytt.

„Þetta hafa verið frekar verið erfiðir tímar en á sama tíma líka gleðilegir. Ég reyni samt að setja ekki mikla pressu á okkur. Við gerum bara það sem okkur langar. Það má borða allar jólasmákökurnar löngu fyrir jól. Það má skreyta mikið og það má lika sleppa því að skeyta. Það má bara hafa þetta allt eins og það hentar okkur. Við höfum ekki keypt jólatré síðan Regin dó. Ég vil það ekki. Við höfum í staðinn safnað fallegum jólakúlum úr jólahúsinu á Hrafnagili og búum til okkar eigið jólatré,“ segir Sara Lind.

Síðustu jólin 2012

Regin greindist í janúar 2013. Þegar ég spyr Söru Lind hvort hún hefði haldið öðruvísi jól 2012 ef hún hefði vitað að þau yrðu þeirra síðustu saman segir hún erfitt að svara þeirri spurningu.

„Ég hefði aldrei viljað vita að þetta yrðu síðustu jólin okkar. En, jú jú, auðvitað er margt sem mér dettur í hug, en ég geymi þær hugleiðingar í hjartanu mínu.“

Það að missa ástina sína hefur kennt Söru Lind ótalmargt. Eins og að lífið er stutt og best sé að njóta þess vel og fallega.

„Gerðu allt sem þig langar, ekki gera það sem þig langar ekki að gera. Ástin er yndisleg og ég óska öllum þess að finna ást eins og við áttum. Og ef við finnum ástina, þá rækta hana af alúð, ekki rífast yfir smámunum. Sokkarnir mega alveg liggja á gólfinu og þvottinn má brjóta illa saman. Fólk á frekar að fara í göngutúra, leiðast og kyssast og nota falleg orð. Fólk á að eiga fallegar samverustundir og búa til dásamlegar minningar með þeim sem það elskar. Við eigum að vera þakklát fyrir að fá að vera hér. Ég er heppin að fá að sjá börnin mín stækka. Ég er þakklát fyrir heilsuna og fólkið mitt elska ég meira,“ segir Sara Lind og játar að sjálf hafi hún breyst við þessa lífsreynslu.

„Þetta breytir manni. Ég missi mig ekki yfir smáhlutum og eyði ekki tíma í vitleysu. Ég nenni ekki stressi og leiðindum. Ég vil bara einbeita mér að því að vera góð manneskja, gera hlutina eins vel og ég get. Ég vil vera góð manneskja eins og Regin var. Hann er mín fyrirmynd enda var hann til fyrirmyndar sem manneskja,“ segir hún.

Ekki skrýtin, bara sorgmædd

Síðan Sara Lind missti Regin hefur hún verið virk í starfi Ljónshjarta sem eru Samtök fyrir ekkjur og ekkla og börn þeirra sem hafa misst foreldri. Samtökin voru stofnuð í nóvember 2013.

„Ég setti mig fljótlega í samband við formann samtakanna og byrjaði bara að taka þátt. Í dag er ég varamaður í stjórn samtakanna. Margt hefur verið í boði innan þessara samtaka, vefsíða hefur verið sett á laggirnar þar sem má finna alls konar fróðleik. Fyrirlestar ýmiskonar hafa verið í boði, jólaföndur fyrir börnin, kaffihúsahittingar og grillveisla í Viðey svo eitthvað sem nefnt. Ég stofnaði gönguhóp innan samtakanna og við förum í göngu einu sinni í mánuði. Nú á að fara að stofna hjólahóp, það finnst mér frábært. Síðustu ár hafa líka margir hlaupið í Reykjavíkurmaraþoninu og safnað áheitum fyrir samtökin, þar hef ég reynt að vera dugleg og er afar þakklát öllum þeim sem hafa heitið á mig og þannig hef ég getað safnað peningum fyrir samtökin.

Oft hefur mér liðið eins og ég sé að missa vitið, en þegar ég hitti annað Ljónshjarta, spjalla og við deilum líðan og reynslu þá fæ ég staðfestingu á því að það er ekkert að mér. Ég er bara sorgmædd og sorgin á sér margar hliðar. Ég eignaðist vinkonu á líknardeildinni í Kópavogi, þar sem mennirnir okkar lágu þar báðir með sama sjúkdóminn. Báðir létust þeir seint á árinu 2013. Böndin milli mín og þessarar vinkonu eru mér dýrmæt. Við getum talað saman og eiginlega stundum eins og á öðru tungumáli. Þeir sem hafa upplifað makamissi skilja hver annan og þess vegna finnst mér þessi samtök dásamleg hugmynd og dýrmæt.“

Bara klukkutími í einu

Hvað gerir þú til að sigla í gegnum sorgina sem fylgir því að missa hinn helminginn af sér?

„Ég reyni að hafa alltaf eitthvað fyrir stafni. Fyrst byrjaði ég hérna heima við, málaði allt, losaði mig við allskonar dót, reif niður vegg, breytti öllu og bætti. Þetta gerði ég allt ein og var stolt af mér og þetta efldi mig í þeirri vissu að ég gæti ýmislegt ein. Seinna fór ég að færa mig út og fór að stunda fjallgöngur, skokka, hjóla, fara í ræktina, hitta vini og eiga góðar stundir. Útivera, helst uppi á fjöllum gefur mér andlegan styrk og gríðarlega mikla gleði. Ég segi oft að hjartað mitt stækki eftir hverja göngu,“ segir hún. Þess á milli nýtur hún þess að vera með börnunum sínum og þreytist ekki á því að knúsa þau og gleðja. Hún er líka þakklát fyrir vinnuna sína hjá Íslandshóteli og hefur lagt mikla áherslu á að ferðast.

„Ég hef ferðast mikið eftir að maðurinn minn kvaddi, keyrt út um allt, farið út um allt því ferðalög gefa mér mikið. Þetta er mín leið til að komast burt frá öllu, borða súkkulaði og bara anda.“

Þegar Sara Lind er spurð að því hvað hún geti ráðlagt öðrum í sömu stöðu segir hún að það hafi reynst henni best að taka bara einn dag í einu.

„Fólki er bara ýtt um borð í þennan agalega rússíbana, án þess að vera spurt og ferlið hefst. Ég gerði fullt af mistökum en ég er bara svo langt frá því að vera fullkomin. Maður er undir gríðarlegu álagi og vanlíðanin er mikil. En við höldum áfram og gerum þá bara betur næst, eða þarnæst,“ segir hún og bætir við:

„Ég tek einn dag í einu. Fyrst tók ég bara einn klukkutíma í einu eða bara tíu mínútur. Ég leyfði mér að gráta, öskra, draga sængina yfir haus, vera leið, vera reið, vera glöð og döpur. Smám saman grét ég minna og lá minna í rúminu. Þetta tekur bara tíma. Manni má líða alls konar. Hvað sem aðrir segja og hvað sem öðrum finnst, annað fólk er bara ekki í þínum sporum, þetta er þín sorg og þín spor.

Mér finnst rosalega mikilvægt að fólk fái svigrúm til að syrgja á sinn hátt og að fólk sé meðvitað um að þetta tekur tíma. Mér persónulega finnst rangt að tala um að vera fastur í sorginni, þú ert með þessa sorg í hjartanu. En þú verður að halda áfram. Bara eitt skref í einu. Það er engin leiðarvísir sem fylgir um hvernig þetta ferli á að vera. Þetta er bara ógeðslega erfitt.

Ein kona sagði við mig rétt eftir andlát mannsins míns að líðan mín ætti eftir að verða betri, þetta yrði ekki alltaf svona sárt. Ég hugsaði bara góða besta þegiðu – þú lýgur! Núna eru þrjú ár liðin síðan maðurinn minn kvaddi þennan heim. Mér líður betur. Þessi kona hafði þá rétt fyrir sér.“

Sara Lind segir að það skipti mestu máli að fólk geri það sem hentar því sjálfu best, ekki gera hlutina á annarra manna forsendum.

„Ef fólk er í vafa með jólahald eftir makamissi þá ráðlegg ég fólki að hlusta á hvað hjartað segir. Ef löngun er til að halda jól, þá gera það. Ef löngun er ekki til staðar þá bara skoða aðra möguleika. Fara til dæmis til útlanda. Fara og vera hjá fjölskyldu og láta aðra halda jólin fyrir þig. Tala við börnin sín, leyfa þeim að taka þátt í ákvörðun hvað gera skal þessi jól. Margir halda í einhverjar gamlar hefðir og blanda þeim síðan saman með einhverjum nýjum hefðum – mér finnst það sniðugt. Ég ætla að halda jólin í ár með gleði í hjarta og þökk fyrir allt það góða í lífi mínu. Ástin mín verður með mér í hjartanu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda