Áslaug Magnúsdóttir er lærður lögfræðingur og viðskiptafræðingur. Hún er búsett í Bandaríkjunum ásamt eiginmanni sínum Sacha Tueni og syninum Ocean Thor. Áslaug hefur verið áberandi allt frá því hún stofnaði tískuvefsíðuna Moda Operandi árið 2010. Fyrir fáeinum árum stofnaði hún svo fatalínuna Kötlu sem leggur áherslu á sjálfbærni í tísku. Í öllu amstrinu sem fylgir viðskiptalífinu metur Áslaug fjölskylduna mest af öllu. Jólin eru henni afar mikilvæg og sá tími sem hún finnur hvað mesta þörf fyrir samveruna með fólkinu sínu.
„Ég er alveg jafn mikið jólabarn og ég var sem lítil stelpa,“ segir Áslaug. Þegar hún var barn þóttu henni allar jólahefðir á heimilinu notalegar og skemmtilegar. „Til dæmis baksturinn og að skreyta piparkökur, kaupa og skreyta jólatréð, setja skó í gluggann, hlusta á tónlist, spila borðspil og opna pakkana.“
Áslaug er gift Sacha Tueni og saman eiga þau soninn Ocean Thor, sem er tveggja og hálfs árs. Sonur Áslaugar úr fyrra hjónabandi er Gunnar Ágúst Thoroddsen, 31 árs. Hann og konan hans Marlena eiga tæplega þriggja ára dreng, barnabarnið hennar Áslaugar, Óliver Gunnar.
Áslaug og Sacha hittust fyrst á Íslandi sumarið 2018. Þá var hún stödd hérlendis að skipuleggja tækniráðstefnu í Hörpu. Þau áttu sameiginlega vini sem stóðu að ráðstefnunni og Sacha var einn af ráðstefnugestunum. Á þeim tíma bjó Áslaug í New York en hann í San Francisco svo þau hittust ekki aftur fyrr en nokkrum mánuðum seinna, eða í nóvember sama ár, í siglingu í Karíbahafinu með þessum sömu vinum.
Amor knúði á dyr hjá þeim Áslaugu og Sacha og segir hún þau varla hafa verið í sundur nema nokkra daga í einu.
Sacha ólst upp í Vínarborg og á enn fjölskyldu þar, en Áslaug er íslensk og ólst að hluta upp erlendis. Aðspurð um hefðir innan fjölskyldunnar segir hún að þeim sé blandað saman á skemmtilegan máta.
Áslaug heldur fast í jólahefðir sinnar fjölskyldu, t.d. hvað varðar hátíðarmatinn. Hins vegar hefur aðalrétturinn breyst þar sem hún og móðir hennar hættu að borða kjöt fyrir nokkrum árum. „Við erum alltaf með möndlugraut í forrétt á aðfangadag og möndluverðlaun,en möndluverðlaunin eru alla jafna skemmtilegt borðspil sem fjölskyldan nýtur að spila saman um jólin. Eftirrétturinn er alltaf heimatilbúna súkkulaðimúsin hennar mömmu með rjóma eða vanilluís.“
Eftir matinn eru pakkarnir opnaðir og yngsta læsa barnið sér um að lesa á pakkana og útdeila þeim. „Svo er alltaf passað upp á að hundarnir fái líka pakka.“
Hún segir eina skemmtilegustu jólahefðina úr fjölskyldu Sacha vera þá að fara á jólamarkað í Vínarborg fyrir hátíðarnar en að því miður hafi þau ekki náð að gera það mjög oft. Þau vonist þó til að fara oftar til Vínar þegar sonurinn Ocean Thor verði aðeins eldri.
„Svo eru Austurríkismenn auðvitað frægir fyrir sætindin og eru bæði Sacher-kaka og Mozart-kúlur ómissandi hluti af jólahátíðinni okkar.“
Jólahefðirnar eru ríkar en þó er ein sem stendur upp úr og það er samveran, einn af hápunktum jólahátíðarinnar í huga Áslaugar.
Áslaug hefur lengst af starfað í tískuheiminum, en hún stofnaði árið 2010 tískuvefsíðuna Moda Operandi sem selur merkjavöru á borð við Valentino og Prada. Fyrir nokkrum árum stofnaði hún svo fatalínuna Kötlu sem einblínir á sjálfbærni í tísku.
Í svo stórum verkefnum, sem eigin fyrirtækjarekstur er, verður þeim mun mikilvægara að finna jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Hún segist því ávallt reyna að taka frí nokkrum dögum fyrir jól og fram yfir áramót.
„Tíminn með fjölskyldunni er mikilvægari fyrir mig núna en nokkru sinni fyrr. Í ár hlakka ég sérstaklega til að fá að upplifa jólin í gegnum litlu drengina Ocean Thor, Óliver og frænda þeirra Óðin, sem er sonur bróður míns.“
Þrátt fyrir að vera frumkvöðull á sviði viðskipta og tísku er eftirminnilegasta jólagjöf Áslaugar ekki merkjavara heldur allt annað.
„Ég verð eiginlega að fá að nefna tvær eftirminnilegar jólagjafir. Sú fyrri var Kolur litli sem var svartur labradorhundur. Foreldrar mínir gáfu mér hann í jólagjöf þegar ég var sirka átta ára og við bjuggum í Bandaríkjunum. Hann varð að sjálfsögðu besti vinur minn.“
Þá nefnir Áslaug seinni gjöfina sem er henni svo eftirminnileg. Þau Sacha gáfu hvort öðru Taílandsferð jólin 2018. Eftir áramótin fóru þau saman í þessa ævintýralegu ferð.
„Í lok ferðarinnar skelltum við okkur í nudd sem boðið var upp á í flugstöðvarbyggingunni. Þegar við vorum að kveðja sagði nuddkonan við okkur að við ættum að eiga barn saman, það yrði fallegt barn.“
Áslaug var þarna orðin 51 árs og segist hafa verið búin að gefa upp vonina um að eignast annað barn.
„En nuddkonan í Taílandi kom þessari hugmynd í kollinn á okkur báðum. Ég fór að rannsaka og leita leiða og bar það loks þann árangur að Ocean Thor fæddist þremur árum seinna eða í maí 2022.“
Áslaug er búsett í Bandaríkjunum, ásamt fjölskyldu sinni. Í aðdraganda jóla hafa þau sérstaklega gaman af að skreyta og setja upp mikið af ljósum. Hún segir jólastemninguna einnig felast í smákökubakstrinum og að bera fram skálar af konfekti eða mandarínum.
„Jóladagatöl verða örugglega fljótlega aftur vinsæl þegar Ocean Thor verður aðeins eldri.“
Áslaug lætur fjarlægðina ekki stöðva sig og hefur fjölskyldan nánast undantekningarlaust komið heim til Íslands yfir jól og áramót. Henni hefur alltaf þótt mikilvægt að geta tekið þátt í árlegu boðunum og vera heima á þessum tíma þegar hún veit að flestir fjölskyldumeðlimir og vinir eru á staðnum.
„Á Íslandi er það orðin hefð að hitta nokkra af bestu vinunum á Þorláksmessukvöld eftir að við erum búin að skreyta og pakka. Við hittumst þá yfirleitt á huggulegum stað niðri í bæ og fáum okkur kampavín til að halda upp á hátíðirnar.“ Samverustundir sem minna hana óneitanlega á þegar hún bjó í New York og fór ásamt vinum niður í Rockefeller Center fyrir jólin að ná myndum fyrir framan stóra jólatréð.
„Best er ef ég get verið í fríi allan tímann sem ég er á Íslandi yfir hátíðarnar. Það gengur ekki alltaf hundrað prósent, stundum þarf ég að taka einhverja símafundi inn á milli. En það tekst yfirleitt að mestu,“ segir hún að lokum.