Hið svokallaða „jólastress“, sem margur kannast við, fyrirfannst einnig hér á árum áður. Þó á annan hátt, því ekki þaut húsmóðirin milli Kringlunnar og Smáralindar til að bæta í búið og kaupa gjafir, heldur þurfti að baka allt frá grunni, fjölskyldur voru gjarnan mun stærri en gengur og gerist í dag og það var að ýmsu að huga. Kolbrún Hulda Sigurjónsdóttir fæddist árið 1936 á Húsavík og rifjar upp jólin og eftirlætisjólagjöfina.
Kolbrún Hulda Sigurjónsdóttir, fyrrverandi húsmóðir og starfsmaður á dvalarheimili aldraðra í Vestmannaeyjum, segir að í minningunni hafi jólahaldið hverfst um baksturinn og tilbreytingu í mat.
„Þá var allt bakað heima fyrir en í dag er hægt að kaupa svo margt tilbúið, eins og smákökurnar.“
Þá, líkt og nú, hafi jólastress fyrirfundist því það var alltaf nóg að gera. Fjölskyldur voru stórar, það þurfti að græja allt heima fyrir en svo þurfti einnig að undirbúa jólaboðin.
Kolbrún fæddist árið 1936. Hún giftist Garðari Tryggvasyni og saman eignuðust þau fimm börn og eru fjögur þeirra á lífi í dag. Kolbrún og Garðar kynntust í Vestmannaeyjum þegar hún var þar á vertíð 18 ára gömul. „Ég dreif mig þangað og ætlaði að vera í þrjá mánuði en það urðu 46 ár!“
Mestan hluta æskunnar dvaldi Kolbrún hjá frændfólki á Þórshöfn, fyrst hjá móðursystur sinni en síðar hjá frænda sínum og fjölskyldu hans. Hún er fædd á Húsavík en þegar hún var aðeins tveggja ára kom upp stórbruni á heimilinu.
„Það kviknaði í húsinu okkar og móðir mín brenndist svo mikið að hún þurfti að vera tvö ár á sjúkrahúsi fyrir sunnan, aðallega á Landakoti. Svo við fórum, sjö systkinin, hvert í sína áttina. Ég fór til móðursystur minnar á Þórshöfn.“
Kolbrún segist ekki muna eftir brunanum en öll fjölskyldan hafi verið heima við þennan morgun. „Mamma var að kveikja upp í kolaeldavélinni snemma að morgni. Hún greip í það sem hún taldi olíu á brúsa en það var bensínbrúsi svo að úr varð mikil sprenging.“
Móðir Kolbrúnar tók við heimilinu aftur eftir sjúkrahúsdvölina og fékk börnin til sín aftur. Lífið var þó ekki auðvelt þótt hún hafi ávallt borið sig vel. Úr varð að Kolbrún fór aftur á Þórshöfn til frænda síns, sonar móðursystur hennar, fimm eða sex ára gömul.
„Í minningunni var alltaf bjart og hlýtt á jólunum.“ Fjölskyldan var stór og mikið að gera hjá húsmóðurinni, fóstru Kolbrúnar. Þrátt fyrir mikla sjónskerðingu hjá Kolbrúnu fólst stundargamanið og aðalánægjan í bókum. „Eftir að ég varð læs voru það bækur og aftur bækur.“ Og hún fékk mikið af þeim í jólagjöf.
Kolbrún var alltaf mjög sjónskert og til að fá læknisaðstoð og fara í aðgerð þurfti hún að dvelja heilt ár í Reykjavík hjá frændfólki sínu þegar hún var ellefu ára.
„Pabbi átti erindi til Reykjavíkur frá Húsavík og hann hefur örugglega spurt mig hvað mig langaði helst í í jólagjöf. Mér finnst það líklegt.“
Á þessum tíma bjó Kolbrún í Kleppsholti „og við vorum alltaf að leika okkur niðri í Vatnagörðum, en þar var lítil tjörn“.
Börnin voru á sleðum og skautum en Kolbrún átti enga skauta á þeim tíma. Þegar faðir hennar kom í bæinn fór hann með hana í búð og ætlaði að kaupa skauta, sem voru reyndar allir uppseldir. Hún þurfti því að bíða fram yfir áramót eftir að fá skautana en þeir voru biðarinnar virði.
„Ég sveif á bleiku skýi af ánægju af að fá skauta og gat notað þá heilmikið. Hins vegar var ég aldrei sérstaklega flink á skautum. Ég hugsa að sjónskerðingin hafi gert mig meira hikandi, svona eftir á að hyggja.“
Þegar hún sneri aftur til Þórshafnar eftir dvölina í Reykjavík notaði hún tímann á Lóni, rétt utan við Þórshöfn. „Þar renndum við krakkarnir okkur á skautum. Lónið var stórt og það var æðislegt að líða um á skautunum í tunglsljósinu sem glampaði á svellinu.“