Það liggur vel á sóknarpresti Dómkirkjunnar, sr. Sveini Valgeirssyni, þegar blaðamaður nær af honun tali. Fram undan er einn annasamasti og skemmtilegasti tími kirkjunnar og ekki annað hægt að segja en að hann sé klár í slaginn.
Sveinn er kvæntur Ásdísi Auðunsdóttur forstöðumanni og saman eiga þau Sigurgeir 28 ára og Ragnar 34 ára, að auki hefur Eydís Hulda Jóhannesdóttir lengi verið þeim nákomin. Ríkidæmið felst í kynslóðum og eiga þau einnig tvö barnabörn.
Sveinn kláraði cand. theol.-próf árið 1995. Eftir áramótin flutti hann ásamt fjölskyldu sinni vestur á Tálknafjörð og vígðist þar til Tálknafjarðarprestakalls. „Mér finnst gott að miða við aldur Sigurgeirs sonar míns því hann var níu daga gamall þegar ég vígðist,“ segir Sveinn þegar hann rifjar upp upphaf ferilsins.
„Við Ásdís fórum þangað með strákana okkar. Ég starfaði sem sóknarprestur og hún fór að kenna.“ Ásdís er menntaður þroskaþjálfi en tók kennsluréttindi fyrir vestan.
Sveinn var sóknarprestur fyrir vestan í þrettán ár. Undir embætti hans féllu Stóra-Laugardalssókn, Brjánslækjar- og Hagasóknir; seinna bættist Bíldudalsprestakall við.
Haustið 2008, á þeim örlagaríka tíma í sögu landsins, flutti fjölskyldan austur á Eyrarbakka og tók Sveinn við embætti þar.
Sveinn hefur verið dómkirkjuprestur frá árinu 2014. Þegar hann er spurður hvaða ráð hann myndi gefa til samfélagsins á aðventunni segir hann beint út: „Bara fyrst og fremst að slaka á og muna eftir þeim sem höllum fæti standa.“
Í efnishyggjunni sem tröllríður landanum leggur Sveinn áherslu á að gott sé að njóta, en að fólk verði að minna sig á út á hvað hátíðin gengur í raun og veru. Jólin eigi ekki að snúast um veraldlega hluti og vísar hann í sögu Þórarins Eldjárns, Hlutaveikina, sem fjallar um dreng sem fær allt of mikið af gjöfum svo hann á endanum missir fótanna.
„Ég var alinn upp við að allt þurfti að vera spegilgljáandi fyrir jólin og hvergi blettur eða hrukka. En ég ólst einnig upp við að það mátti ekki snerta eplin, mandarínurnar og kökurnar fyrr en eftir klukkan sex á aðfangadag. Það er ástæða fyrir því að menn eigi aðeins að láta á móti sér þar til hátíðin gengur í garð, vegna þess að það er ekkert endilega frábært að vera búinn að upplifa allt þegar jólin koma,“ og á Sveinn þar við jólaföstuna.
Fastan snýst ekki einungis um það að láta á móti sér heldur einnig að styðja við þá sem hafa það ekki jafn gott og aðrir, segir Sveinn. „Erindi föstunnar er m.a. að hjálpa og styðja aðra, þá sem búa við skort.“
Að sögn Sveins vegur trúin þungt á jólahátíðinni, sem verður merkingarsnauð án þess trúarlega og heilaga. Alla jafna séu kirkjubekkirnir þéttar setnir um jólin.
Sveinn bætir því við að ekki sé hægt að segja að heimurinn hafi mulið undir Krist, sem gekk inn í það erfiða hlutskipti að vera maður. „Jólin eru áminning um að Guð var maður. Það er leyndardómurinn sem er svo mikilvægur í kristinni trú.“
Þrátt fyrir það hafi jólin hér áður fyrr ekki verið aðalhátíðin hjá kristnum mönnum, heldur páskarnir, og segir Sveinn fyrstu heimildir um jólahaldið vera frá 4. öld. „Á tíma jólanna, þegar sólin fer að hækka á lofti, verða ákveðin skil í lífinu.“ Þannig falli kristni í takt við önnur trúarbrögð.
„Dýrð sé guði í upphafi og friður á jörðu, söngur englanna frá Betlehemsvöllum,“ byrjar Sveinn og útskýrir svo að þýðingin úr grísku yfir á latínu hafi verið snúin og þar með einnig íslenska þýðingin.
Hann segir frá hlaðvarpinu Guð-spjalli, þar sem hann og kollegi hans, dr. Steinunn Arnþrúður prestur í Neskirkju, krufðu rétta meiningu dýrðarsöngsins og vísuðu í rannsóknir þess efnis, en rétt þýðing er: „Dýrð Guðs sem er á himni, er (nú) einnig á jörðu.“
Sveinn segir að þarna liggi punkturinn og skilaboð englanna um að dýrð Guðs hafi verið gefin mönnunum í Kristi.
Á aðventunni og yfir jólin, þegar landinn mætir í kirkju, er ákveðinn möguleiki að ná til fólks, að sögn Sveins. Hjálparstarf kirkjunnar er hvað öflugast á þessum tíma, enda margir sem eiga um sárt að binda yfir hátíðarnar, sem eiga að snúast um gleði og samveru.
Meðfram námi starfaði Sveinn í mörg ár á geðdeild. Þá sem nú var hann yfirleitt að vinna á jólunum. Honum er því vel kunnugt um að hátíðinni geti fylgt sársauki.
„Já, ég fann mikið fyrir því að sumir eiga mjög erfitt á þessum tíma. Jólin verða eins og magnari á tilfinningarnar og vondar minningar verða miklu sárari um jólin. Góðar minningar verða aftur frábærar og auðvitað á það að vera þannig.“
Dýrð Guðs, sem Sveinn nefndi hér að ofan, á að verða til þess að þeir sem hafa það gott geri líf samborgara sinna aðeins betra.
„Kærleikur Guðs til þín á að skila sér í kærleika frá þér til annarra.“
Hann upplifði þetta mjög sterkt í starfi sínu á geðdeildinni.
„Þar sem ég starfaði dvaldi gjarnan fólk sem var búið að vera töluvert lengi á erfiðum stað, þ.e. ekki í bráðainnlögn.“
Hlutskipti Sveins, sem og annarra starfsmanna, var að sinna skjólstæðingum deildarinnar, vera með þeim og eiga með þeim jólastundir. Allt til þess fallið að sýna stuðning. „Þótt aldrei allar sorgir verði teknar frá fólki,“ segir hann.
Sveinn gat vel skynjað einmanaleikann og sársaukann en segir að það standi þá einmitt upp á hina að reyna að létta tilveru skjólstæðinganna, sýna samstöðu, borða með þeim, taka upp pakkana og tala um það sem hvíldi á hjarta þeirra.
„Stundum var það bara létt spjall, kaffi og sígaretta. Það gat verið nóg.“
Þegar Sveinn er spurður honum finnist hafa breyst síðastliðna áratugi segir hann að tilhlökkunin hafi verið tekin frá fólki, því svo svakalega mikið sé í gangi á aðventunni. „Vitaskuld er ég ekkert betri en aðrir. Mér finnst sjálfum gaman að upplifa og njóta, eins og að fá mér síld á Jómfrúnni.“
Hann er einnig í Sálmabandinu, ásamt vinum sem hittast ýmist í kirkjunni eða 12 Tónum og syngja sálma. Í ár er þriðja aðventan sem Sálmabandið kemur saman, 3. desember á 12 Tónum. „Það er líka ágætis undirbúningur fyrir hátíðarnar.“
Blaðamaður og Sveinn eru sammála um þetta gullna meðalhóf og að samveran sé það sem einkenni hátíðina.
„Nú er mikilvægt að gefa börnunum óskipta athygli og það er eflaust það sem þau kalla eftir, símalaus tími og samvera.“ Þeim tíma sé vel hægt að verja heima við t.d. við að spila og skreyta piparkökur.
Þá minnist Sveinn fjölskylduhefðanna en ein þeirra felst í bakstrinum. „Það hefur um nokkurt skeið verið hefð hjá okkur að taka fram á aðventunni uppskriftabók sem Kristín heitin, móðir Eydísar Huldu, átti, baka upp úr henni og borða svo saman.“
„Fyrir vestan var ég með þrjár messur. Fyrst klukkan sex á Bíldudal, svo klukkan tíu á Tálknafirði og þá var miðnæturmessa í Brjánslækjarkirkju.“ Til að komast yfir til Brjánslækjar þurfti Sveinn að fara yfir tvær heiðar í fylgd björgunarsveitarinnar.
„Ég hefði ekki komist þetta á mínum eigin bíl.“
Á Brjánslæk messaði hann við kertaljós og á eftir var skipulagt messukaffi.
„Rósa á Brjánslæk kom með kakó á brúsa og piparkökur. Svo stóðum við úti í kirkjugarði, í brunagaddi og stjörnubjartri nótt, og fengum okkur hressingu.“ Tunglið varpaði duttlungafullri birtu yfir umhverfið og segir Sveinn þessa stund ógleymanlega.
„Ég held að ég hafi verið kominn heim klukkan hálffimm um morguninn.“
Að lokum áréttar Sveinn mikilvægi þess að láta gott af sér leiða og styðja við þá sem eru í erfiðri stöðu. Góð undirbúningsstund fyrir jólin eru aðventuhátíðir kirknanna. Í Dómkirkjunni verður hún 1. desember klukkan 18.00.
Hann segir Hjálparstarf kirkjunnar faglegt og öflugt og kirkjan sé opin öllum sem þangað leita.
„Ég held að þetta net sem kirkjan myndar sé mikil styrkur fyrir þjóðina. Stundum kannski vanmetið, en kirkjan er þarna og vill vera skjól öllum sem til hennar leita.“