„Það er stanslaust fjör á þessum árstíma og það er svo skemmtilegt að sjá krakkana koma með foreldrum sínum að velja sér búninga,“ segir Kamilla Birta Guðjónsdóttir hjá Partyland í Holtagörðum.
„Við erum með mátunarklefa og það er því hægt að máta búningana hér. Aðdragandinn að öskudeginum er mjög skemmtilegur og svo vitanlega dagurinn sjálfur því krakkarnir koma hingað í hrönnum að syngja.
Við erum ekki bara með búninga fyrir allan aldur, allt frá sex mánaða og upp í fullorðinsstærðir, heldur líka alls konar fylgihluti fyrir búningana, svo sem hárkollur, hatta, andlitsmálningu og fleira í þeim dúr. Það hefur líka verið mjög vinsælt að panta búningana bara beint af vefsíðunni okkar, partyland.is, sem hentar sérstaklega vel fyrir fólk úti á landi.“
Aðspurð hvaða búningar séu vinsælastir hjá börnunum segir Kamilla að Frozen sé alltaf jafn vinsælt sem og ofurhetjurnar. „Wednesday hefur líka verið mjög vinsæl undanfarið og við erum líka með uppblásna búninga sem hafa slegið í gegn. Það er mjög mikið úrval af búningum hjá okkur og því allir sem geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Við erum líka með „pinjötur“ til að slá köttinn úr tunninni og það er alltaf að verða vinsælla. Pinjöturnar eru þá tómar en við erum með alls kyns lítið dót til að setja inn í þær, til dæmis skopparabolta, sápukúlur, litlar fígurur og fleira. Það er líka hægt að setja nammi inn í þær en margir blanda saman nammi og smá dóti. Pinjöturnar eru alls konar; dýr, slökkviliðsbílar, Mína Mús og fleira,“ segir Kamilla og bætir við að fullorðnir kaupi sér frekar búninga fyrir hrekkjavöku en öskudaginn.
„Það er eins og öskudagurinn sé meira fyrir börnin en hrekkjavakan meira fyrir fullorðna fólkið. Reyndar eru fullorðnir að koma og kaupa búninga hjá okkur allt árið um kring. Það er mikið af alls kyns þemapartíum, matarboðum og þess háttar og undanfarið virðist kúrekaþemað og 80's-þema sérstaklega vera vinsælt.“
Partyland er sannarlega verslun þar sem hægt er að finna allt mögulegt fyrir öll tilefni og Kamilla talar um að núna sé líka mikið annríki vegna ferminganna. „Almennt virðist fólk leggja mikinn metnað í skreytingar fyrir fermingarveislur enda eru þetta oft stórar veislur, alveg um og yfir 100 manna veislur. Það hefur verið mjög vinsælt hjá okkur að láta áletra blöðrur en þá setur fólk gjarnan nafn á fermingarbarninu og jafnvel fermingardaginn líka. Og blöðrurnar eru þá yfirleitt í sama lit og þemað er en merkingin gerir þetta persónulegra,“ segir Kamilla sem er mjög spennt fyrir komandi tímabili.
„Það er alltaf gaman að sjá hvaða litir verða vinsælastir en í fyrra voru það fjólublár, ljósblár og svo var rósagull svakalega vinsæll. Það er líka klassískt að vera með hvítt og silfur og ég gæti trúað að hvítt yrði mjög vinsælt í ár.“
Partyland var opnað í nóvember 2023 og Kamilla talar um að það hafi gengið mjög vel frá upphafi. „Og við finnum alveg fyrir því að það eru alltaf fleiri og fleira sem leita til okkar. Við erum líka svo heppin með aðstöðu. Verslunin er stór eða um 500 fermetrar og það er ótrúlega þægilegt að koma hér að í Holtagörðum. Alltaf hægt að fá stæði, sem er sérstaklega gott þegar viðskiptavinir eru að fara út í bíl með fangið fullt af blöðrum,“ segir Kamilla og hlær.
„Viðskiptavinir okkar kunna líka að meta að það er hægt að fá allt í veisluna hér, hvort sem það er borðbúnaður, gestabók, blöðrur, kökutoppar eða kerti og allt þar á milli. Og svo er ekki verra að Bónus er á neðri hæðinni ef fólk vantar eitthvað í veitingarnar og það er meira að segja hægt að græja fermingarfötin líka í outlet-inu.“