Til eru sjúkdómar sem ekki berast í lofti heldur finnast í fullum skálum, glösum, mjúkum hægindastólum og silki rekkjum. Auðkýfingur frá Amsterdam hafði sína sögu að segja af því. Hann sat alla morgna í þægilega hægindastólnum sínum og reykti, ef hann nennti því þá, eða leit út um gluggann. Hádegisverðinn hámaði hann í sig sem mest hann mátti. Nágrannar höfðu að orði, „er rok úti eða eru þetta stunur nágranna okkar?“
Allan eftirmiðdaginn át eða drakk hann ýmist heitt eða kalt án þess að finna fyrir hungri eða þorsta, af einskærum leiðindum, svo varla var hægt að greina í sundur hvenær hádegisverður var á enda eða kvöldverður að byrja. Þegar hann lagðist út af eftirkvöldverð var hann jafn þreyttur eins og eftir hina mestu erfiðisvinnu.
Af þessu öllu myndaðist mikil vömb og vanlíðan. Matur og svefn veittu honum hvorki ánægju né hvíld og hann var, eins og oft vill verða, hvorki alveg frískur né alvarlega veikur. Samkvæmt hans eigin frásögn, var sá góði maður með 365 mismunandi sjúkdóma. Það er að segja einn fyrir hvern dag ársins. Allir læknar Amsterdam urðu að veita honum ráðgjöf. Hann gleypti í sig heilar fötur af mixtúrum og pillur í tonnatali en ekkert dugði. Loksins frétti hann af afar færum lækni sem átti heima í hundrað klukkustunda fjarlægð. Þessum manni treysti Hollendingurinn og lýsti fyrir honum ástandi sínu.
Læknirinn fann fljótlega hvað að var, alls ekki neitt. Ekki var þörf á lyfjum, heldur hófsemi og hreyfingu. Læknirinn skrifaði sjúklingi sínum eftirfarandi bréf:
Kæri vinur, ástand þitt er slæmt, en ef þú fylgir ráðum mínum er samt sem áður mögulegt að hjálpa þér. Þú gengur með ófreskju í maganum. Í fyrsta lagi verður þú að ferðast til mín fótgangandi, því annars mun ófreskjan hristast til og bíta í sundur innyfli þín. Í öðru lagi mátt þú ekki borða nema þrjár máltíðir á dag og aðeins fisk, grænmeti, ávexti og kornmat. Ef þú borðar annað, stækkar ófreskjan, svo að eftir það þarf ekki klæðskera til að taka mál af yður heldur líkkistusmið. Þetta eru mín ráð. Ef þú fylgir þeim ekki munt þú ekki heyra í Lóunni næsta vor. Þegar sjúklingurinn las þessi orð lagði hann land undir fót þá leið sem læknirinn fyrirskipaði. Á fyrsta degi sóttist ferðin svo hægt að snigill hefði verið fljótari. Hann tók ekki undir kveðju þeirra sem hann mætti. Á öðrum og þriðja degi þótti honum fuglasöngurinn verða fegurri. Þeir sem hann mætti urðu æ vingjarnlegri og hann sjálfur líka. Hvern morgun þegar hann yfirgaf gististað sinn magnaðist fegurðin og hann hélt áfram léttur í spori. Á þrítugasta degi kom hann að heimaborg læknisins og fór á hans fund næsta dag. Honum leið það vel að hann sagði við sjálfan sig, „ég hefði ekki geta orðið heilbrigður á óheppilegri tíma en nú þegar ég er að fara til læknisins. Ég vildi að ég væri að minnsta kosti með smá suð fyrir eyrunum eða óþægindi í maga“.
Læknirinn sagði „nú segðu mér hvað amar að þér?". Þá svaraði maðurinn „til allrar hamingju er ekkert að mér og ef þú ert eins heilsu góður og ég eru það gleðitíðindi“. Læknirinn svaraði,„ Ófreskjan er nú dáin en hún hefur skilið eftir egg sín í líkama þínum. Sökum þess verður þú að fara aftur fótgangandi heim og vera duglegur að stunda líkamlega vinnu og borða ekki meira en lystin segir til um, því annars þroskast eggin og klekjast út. Þú getur orðið gamall maður“ lauk hann ræðu sinni brosandi.
-------
Þessi glettnislega smásaga heitir upprunalega Der geheilte Patient, skrifuð af Johann Peter Hebel árið 1811. Brynhildur Georgía Björnsson, móðursystir mín þýddi hana fyrir mig úr þýsku árið 2002.
Undirrituð las söguna í þýskutíma í Versló fyrir margt löngu og hef haldið mikið upp á hana æ síðan. Birti hana áður í Morgunblaðinu árið 2002. Boðskapur sögunnar þykir mér sígildur og góður enn 214 árum síðar.
Svo einföld getur hún oft verið, leiðin að heilbrigðu lífi. Alltaf í megindráttum sú sama, dagleg hreyfing og hófsemi í neyslu. En þó svo flókið...eða hvað?