c

Pistlar:

8. janúar 2014 kl. 17:05

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Svona verður þú öflugri

lift_weights_1225662.jpgEf við æfum einu sinni gerist lítið.  Ef við æfum hundrað sinnum gerist eitthvað magnað sem skilar okkur svo miklu meiru en bara sterkari vöðvum og auknu þoli. Regluleg þjálfun gefur okkur betra líf, aukin lífsgæði og það sem skiptir ekki síður máli, við styrkjum okkar innri mann með því að drífa okkur í ræktina þó að okkur langi stundum ekkert ógurlega til þess.

Virkjaðu eldmóðinn þinn
Með því að taka frá tíma daglega til að rækta þig og þína heilsu stuðlar þú að geysilega jákvæðum þáttum sem hafa áhrif á allt þitt líf á svo margvíslegan hátt til hins betra. Við erum sjaldan upp á okkar besta þegar okkur líður ekki vel og óhætt er að segja að við erum ólíkleg til að ná langt í lífinu ef yfir okkur er sífelld deyfð sem aftrar okkur frá því að leggja okkur fram eftir bestu getu.  Líkamleg áreynsla er einföld og góð leið til að bæta líðan þína og lífsgæði.

Er hugarfarið rétt stillt?
Hve mikinn viljastyrk þarftu til að koma 3-4 klst. af þjálfun inn í líf þitt á viku?  Ef þú berð virðingu fyrir líkama þínum og heilsu reynist þér í raun auðvelt að fara út fyrir þægindarammann þinn og koma reglulegri þjálfun inn í líf þitt ásamt heilbrigðu mataræði.  Þegar öllu er á botninn hvolft snýst þetta fyrst og fremst um hugarfar.  Hve mikið langar þig til að vera sterkari, stæltari, hraustari og hressari?

Er andlegi ,,vöðvinn" slappur?
Í hvert sinn sem þú drífur þig í ræktina þrátt fyrir að þú nennir því í raun ekki, styrkirðu andlega ,,vöðvann".  Í hvert sinn sem þú fleygir af þér hlýrri ábreiðunni stígur upp úr sófanum og arkar út í göngutúr, eflir þú þinn innri mann.  Þegar þú puðar og svitnar og tekur svakalega á í erfiðum æfingum verður þú einnig hæfari til að takast á við ýmiskonar aðrar áskoranir og erfiðleika í lífi þínu.

Með reglulegri alhliða líkamsþjálfun eykur þú ekki aðeins lífsgæði þín og styrkir þig sem persónu, þú verður einnig betra foreldri, maki, elskhugi og öflugri starfskraftur. Þú eflir þig á allan hátt.

Þjálfun gefur svo margt annað og meira en bara stælta kviðvöðva og lipran kropp.  Þú verður glaðari, orkumeiri, þolbetri, í betra andlegu jafnvægi og skýrari í kollinum.

Það eru 168 klukkustundir í vikunni.  Við hljótum öll, hversu störfum hlaðin sem við erum, að geta fundið 3-4 klst. til að rækta líkamann, ef okkur er annt um hann finnum við tíma.

healthy-people.jpgVertu besta útgáfan af þér
Æfingin sem þú slepptir er meira en bara glötuð æfing.  Ef þú missir úr æfingu, stendur þú ekki aðeins í stað heldur tekur í raun nokkur skref aftur á bak, því þú ert að efla kæruleysið.  Ef þú hefur lofað sjálfri/um þér að stunda æfingar 3x í viku skiptir máli að standa við það.  Ef þú brýtur það loforð gagnvart þér skaparðu vantraust í huga þér og þú ferð að efast um hvort þú í raun getir staðið við loforðið og þjálfar þannig upp neikvætt atferli.  Skilaboðin frá undirmeðvitundinni eru að þú þurfir ekki að framfylgja því sem þú áður einsettir þér. 
Næst þegar þú ætlar að slökkva á vekjaraklukkunni og snúa þér á hina hliðina í stað þess að fara á fætur og fara í ræktina eins og þú hafðir ætlað þér, skaltu ekki láta það eftir þér.  Efldu viljastyrkinn og minntu þig á að þú ætlar að vera besta útgáfan af þér.  Þér mun líða stórkostlega vel eftir æfinguna bæði andlega og líkamlega og enginn möguleiki á að þú munir sjá eftir því að mæta.  Hver sagði nokkurn tímann "Mikið sé ég eftir að hafa drifið mig í ræktina í dag"?  

Stærsta áskorunin fyrir flesta er ekki sjálf æfingin heldur að komast yfir neikvæðu hugsanirnar og afsakanirnar sem hindra góðu áformin um að byrja.   Árangurinn fæst aldrei á silfurfati, þú þarft að vinna þér hann inn og þú færð það margfalt til baka og þú hugsar ,,hversvegna byrjaði ég ekki fyrr?"

agusta@hreyfing.is  www.hreyfing.is