Hvað áttu að borða til að léttast eða til að stuðla að betri heilsu og koma í veg fyrir sjúkdóma? Er það lágkolvetnamataræði, grænmetisfæði, Paelo eða eitthvað annað? Margir eru verulega ruglaðir í ríminu yfir öllum mismunandi skilaboðunum sem dynja á okkur og vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga þegar kemur að því finna rétta mataræðið fyrir sig.
Miðað við nýjustu rannsóknir þá gæti þó þetta allt verið það rétta. En það fer eftir því hver á í hlut.
Erfðir segja sitt
Nýjustu rannsóknir sýna fram á að besta mataræðið fyrir þig kann að vera byggt á þínum erfðarvísum. Við fáum öll okkar DNA frá foreldrum okkar og má segja að því fylgi ákveðinn "kóði" sem hefur áhrif á líkamsstarfsemina. En það er ekki þar með sagt við höfum sjálf engin áhrif. Hollt mataræði og heilbrigður lífsstill hafa áhrif á hvernig genasamsetningin hagar sér, upp að vissu marki, en vitaskuld breyta ekki genunum.
Lífsstíllinn telur
Það leikur enginn vafi á því að insúlín næmi, hormónar og aðrir heilsuþættir hafa áhrif á hvernig líkami þinn bregst við ákveðnum fæðutengundum. Sumir þessara þátta stjórnast að hluta af erfðum en lífsvenjur skipta einnig miklu máli.
Þeir sem hafa lítið insúlín næmi fitna frekar eða eru líklegri til að þróa með sér sykursýki 2 en á hinn bóginn virðast þeir sem hafa mikið insúlín næmi geta borðað mikið af allskonar án þess að bæta á sig eða veikjast.
Regluleg þjálfun hefur mikil og góð áhrif á insulin næmi og einnig getur það aukist við þyngdartap. Þú getur því verið vss um að lífstíllinn þinn hefur veruleg áhrif á hvernig líkami þinn bregst við mismunandi mataræði.
Mataræði Miðjarðarhafsins
Ljóst er að heimsins besta mataræði sem hentar öllum fullkomlega er vandfundið en það sem við getum treyst er að okkur er flestum hollt að borða mat sem er óunninn og gott að neyta ríkulega fæðu úr jurtaríkinu til að viðhalda heilbrigðri kjörþyngd og stuðla að forvörn gegn sjúkdómum. Margar rannsóknir sýna að fæðuvenjur fólks við Miðjarðarhafið séu til fyrirmyndar. Grunnurinn er í raun ávextir, grænmeti, hnetur og fræ ásamt hóflegu magni af fiski, kjúkling, mjólkurvörum, eggjum og ólífuolíu, og lítið magn af rauðu kjöti og unnum matvælum. Neysluvenjur sem þessar eru taldar stuðla að lægri áhættu á hjartasjúkdómum, offitu, sykursýki 2, þunglyndi og ótímabærum dauðsföllum.
Þar til erfðarfræðin opnar okkur nýjan heim með prófi sem gefur öll svörin sem vantar og leysir málin með einstaklingsmiðuðu mataræði þá er Miðjarðarhafsmataræðið mögulega okkar besti kostur.
Afar ólíklegt verður að teljast að til séu þeir einstaklingar sem hentar best að hafa uppistöðuna í fæðunni næringarsnauðan unninn verksmiðjumat og sætindi. Sumir komast upp með það í einhvern tíma án teljandi vandræða en slíkt mataræði er auðvitað óhollt og ekki æskilegt fyrir nokkurn mann til lengdar. Þá sem sáu heimildamyndina Supersize me þarf ekki að sannfæra frekar um það.
Að lokum
Við erum öll einstök sem þýðir að við bregðumst ólíkt við á svo margan hátt og það á einnig við um áhrif mismunandi fæðu á heilsu okkar og holdafar. Hið fullkomna mataræði er ekki til. Þar til við fáum genetíska prófið sem gefur okkur svörin, sem verður vonandi að veruleika fyrr eða síðar, þá er skynsamlegast að borða fjölbreytta ferska fæðu, sem næst uppruna sínum og forðast sætindi og næringarsnauðar hitaeiningar. Þú vilt vita hvaðan fæðan þín kemur og borða sem minnst af því sem hefur fleiri en þrjú innihaldsefni.
agusta@hreyfing.is www.hreyfing.is