Margt og mikið höfum við vafalaust lært á kórónuveirutímabilinu undanfarnar vikur og mánuði og upplifað veruleika sem fáir ef nokkur átti von á að gæti orðið raunin. Að nánast heimurinn allur gæti svo til farið í biðstöðu mætti ætla að væri efni í bíómynd en ekki kaldur raunveruleiki árið 2020.
Svört skýrsla
Eitt af því sem hefur orðið skýrara í hugum margra um heim allan er hve mikilvægt er að hugsa vel um "hylkið" okkar, líkamann sem við búum í alla ævina. Það er skrítin staðreynd og rannsóknarefni út af fyrir sig, að við erum á heildina litið því miður ekki sérlega passasöm í því efni. Það má færa rök fyrir því að við köllum sjálfviljug yfir okkur ýmsa lífsstílssjúkdóma, sem við annars gætum komið í veg fyrir, en vegna þess m.a. að við nærum okkur ekki nægilega skynsamlega og sinnum ekki þeirri heilsurækt sem skrokkurinn okkar þarfnast daglega eru allt of margir sem glíma við alvarlega lífsstílssjúkdóma og tíðni sumra þeirra fer vaxandi hér á landi. Sem betur fer á þetta alls ekki við um alla landsmenn, en tölurnar tala sínu máli.
Í skýrslu velferðarráðuneytisins frá apríl 2018 kemur eftirfarandi fram:
"Í október 2017 birtist grein í Læknablaðinu um faraldsfræði kransæðasjúkdóma. Þar má finna gögn um sykursýki sem virðist aukast árlega um 3% hjá körlum og 2% hjá konum. Þar kemur og fram að algengið á Íslandi sé nú a.m.k. það sama og á öðrum Norðurlöndum og mögulega meira en einnig bent á heimildir sem segja að Íslendingar séu nú langþyngstir Norðurlandaþjóða. Rétt er að rifja upp að yfir 90% sykursýkitilfella eru sykursýki 2 þar sem helsti breytanlegi áhættuþátturinn er ofþyngd eða offita. Íslendingar eru feitasta þjóð vestur Evrópu ef marka má meðal annars gögn frá Institute for Health Metrics and Evaluation sem birt voru 2013 en þá voru yfir 70% fullorðinna íslenskra karla of þungir eða of feitir. Þessi niðurstaða er nokkuð samhljóða öðrum úttektum þótt Ísland tróni ekki alltaf á toppnum."
Þetta eru síður en svo ásættanlegar tölur og ekki má heldur gleyma þeim geysilega kostnaðarauka fyrir heilbrigðiskerfið sem óhjákvæmilega fylgir vaxandi tíðni lífsstílssjúkdóma.
Heimsmeistarar í heilbrigði?
Komið hefur á daginn að þegar illviðráðanlegur veirufaraldur skellur á okkur þá stöndum við klárlega talsvert betur að vígi ef við erum hreystin uppmáluð, í góðu líkamsástandi, með öflugt ónæmiskerfi og í kjörþyngd. Komið hefur fram að þeir sem hafa farið verst út úr Covid-19 á heimsvísu skv. niðurstöðum rannsókna eru þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma, m.a. lífsstílstengda s.s. háþrýsting, sykursýki 2 og þeir sem eru í ofþyngd.
Málið er sjálfu sér ekki flókið. Við höfum alla burði til að vera heilbrigðasta þjóð heims með okkar hreina loft, besta vatn í heimi, gott aðgengi að hollri fæðu, úrvals grænmeti ræktuðu við bestu aðstæður hérlendis ásamt annari matvöru af ýmsu tagi sem er t.d. laus við skordýraeitur og sýklalyf.
Aðgengi að göngu- og hjólreiðastígum er nægt, stutt í náttúruna víðast hvar og framboð heilsuræktarstöðva af ýmsu tagi framúrskarandi gott í þéttbýli. Auk þess eru leiðir til líkamsræktariðkunar í gegnum netið óteljandi. Sem sagt, allt sem við þurfum til að rækta heilsuna okkar sem best verður á kosið er til staðar. Það er síðan undir okkur sjálfum komið að taka af skarið. Eða eins og Nike segir það umbúðalaust, "JUST DO IT".
Regluleg líkamsþjálfun er besta lyfið.
Tökum málin föstum tökum. Setjum heilsuna meðvitað í fyrsta sæti, tökum frá 30 mínútur á dag til að stunda markvissa líkamsþjálfun. Stöndum upp úr stólnum á 30 mín. fresti alla daga, þó ekki væri nema til þess að teygja úr okkur og sækja vatnsglas.
Vöndum valið á því sem við látum ofan í okkur alla daga. Reynum að temja okkur hina ágætu 80/20 reglu. Í 80% tilfella borðum við heilnæma, næringarríka lítið unna fæðu sem inniheldur lítinn sem engan sykur og er laus við herta fitu. Hin 20 prósentin má nota til að sleppa aðeins fram af sér beislinu, svona við hátíðleg tækifæri.
Gleymum svo ekki öðrum lykilþáttum sem stuðla að góðri heilsu, 7-8 tíma svefni, daglegri 15-20 mín. slökun, tóbakslausu líferni og hóflegri áfengisneyslu.
Kórónuveiran er hörmungar fyrirbæri sem við hefðum svo gjarnan viljað vera laus við. En fyrst ósköpin dundu yfir okkur, því ekki að nýta það til góðs á einhvern hátt og láta t.d. verða okkur vitundarvakning um að bæta okkar eigin lífsstíl?
Reglubundin heilsurækt er hluti af lausninni. Öll hreyfing skiptir máli og er undir okkur sjálfum komin. Ef heilsurækt væri til í töfluformi væri það mest ávísaða lyf í heimi.
Ágústa Johnson
agusta@hreyfing.is