c

Pistlar:

10. nóvember 2013 kl. 16:09

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Hvað gerðir þú í dag sem þér fannst erfitt?

það eru margir sem hafa komið að máli við mig og talað um vanlíðan ungmenna. Ég hitti vin minn sem er skólastjóri í framhaldsskóla um daginn. Hann talaði um að það hefði komið sér í opna skjöldu hvað mörg ungmenni væru kvíðin, þunglynd og ættu við erfiðleika að stíða. Ég hitti vin minn sem er prestur sem sagði að mörg fermingarbörn væru leið. Ég hef verið að hugsa um þetta í vikunni. Ég heyrði líka í fréttum, í dag, að aldraðir væru oft illa haldin af depurð. 

Satt best að segja hef ég hugsað meira um þessar staðreyndir en hagtölurnar. Velsæld sem er eingöngu mæld í hagtölum stendur ekki undir nafni (vel-sæld). Fyrsta sem kom upp í hugan var að við værum að missa nándina. Mörg fermingabörn kvarta undan því að foreldrarnir séu stöðugt í símanum og tölvunni. Vinir talast ekki lengur við í síma heldur senda kveðjur á fésbókinni. Aldraðir tala um að fólk hafi ekki tíma til að kíkja í heimsókn. Ég fékk smá nostalgíukast yfir eldhúsumræðum fortíðarinnar. Þar sem setið var í eldhúskrókum og sötrað kaffi og sagðar sögur og fréttir. En svo hugsaði ég um gildi núttímans. Hið hversdagslega er alveg hætt að vera "inn". Allir eiga að skara fram úr með einhverjum hætti. Minni áhersla er lögð á að þeir sem skara fram úr leggja hart að sér. Mjög hart og þurfa að vinna að árangri með því að leggja sig fram á hverjum degi. Hversdagsleikinn og erfiðið er ekki hafin til skýjanna. Árangur strax er ekki raunhæfur kostur í flestum tilfellum.

Ég fór í íþróttaskólann með drenginn sem er að verða sex ára og horfði á foreldra leiða börnin sín í gegnum æfingarnar og hugsaði mitt. Kannski leggjum við ekki nægilega áherslu á að börn upplifi það sem er erfitt (standa í röð og fylgja leiðbeiningu eða bara að detta og standa upp aftur) ein og óstudd. Mín kynslóð (sem er flest öll komin með fullorðin börn) var alin upp við að fara ein á íþróttaæfingar og kóræfingar eða leika sér út,i ein og óstudd. Það mætti enginn á æfingar, tónleika eða leiki og þótti ekkert skrýtið. Við ákváðum að gera þetta öðruvísi og höfum verið sérstakur stuðningsaðili barnanna okkar frá því að þau fæðast. "Þetta er frábært", segjum við þegar þau sýna okkur listaverkin sín. "Þú ert æði", eða þegar við förum á íþróttaæfingarnar þá höldum við í hendur þeirra og lyftum þeim upp á hestinn því þau komast ekki. Við klöppum fyrir þeim og segjum þeim að þau séu fæddir snillingar (ég ýki aðeins...). Getur það verið að við séum að búa til minna þol fyrir því að takast á við lífið með þessu framferði okkar? Lífið er erfitt. Meira að segja mjög erfitt á köflum. 

Ég hef tekið upp eina reglu á heimilinu, í kjölfarið á þessum hugsunum, sem er að spyrja fjölkskyldumeðlimi við kvöldverðaborðið "hvað gerðir þú í dag sem þér fannst erfitt? Svörin hafa verið margbreytileg: Ferð til tannlæknisins, fara í próf, detta úr rólunni, takast á við átök á vinnustað (stóra fólkið), blóðsýnataka og stríðni. Með þessu vona ég að við lærum þrautseigju. Ég held líka áfram að spyrja: Fyrir hvað ertu þakklát/ur? Fimm atriði (ohhhhhhhhh mamma .... þurfum við endilega ...)

Sameinumst um að hugsa vel um ungmennin okkar  - þau eru framtíðin.  Hugsum líka vel um aldraða, þeim eigum við að þakka tilveru okkar og velsæld.