c

Pistlar:

5. mars 2015 kl. 10:07

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Ekki gaman að vera rík og ein

Það eru oft áhugaverðar umræður sem eiga sér stað í gamla Volvonum mínum sérstaklega þegar yngstu meðlimir fjölskyldunnar eru með. Eftir að hafa næstum rignt niður í götuna, bara við það að fara á milli húsa í gær, ákváðum við að fara á bókakaffi.

"Heyrðu mamma, allar konurnar sem eru frægar eru mjóar.." Þar kom að því að mér væri bent pent á að ég yrði ekki fræg með þessu áframhaldi. Ég hugsaði mig um og svaraði um hæl "Ekki Oprah, hún er ekki mjó og hún er mjög fræg og mjög rík" bætti ég við. Þau hugsuðu sig um í smá stund og svo kom stóri dómur "Hún er ekki beint feit en ekki heldur mjó en er hún rík? Varð hún rík af því bara að tala við fólk." Það fannst þeim merkilegt.

Ég tjáði þeim að hún væri ein af ríkustu konum heims. "Nautssss, á hún börn?" Þar sem ég barðist við að snúa bílnum á Hverfisgötunni sagði ég þeim að hún ætti ekki börn. "Ég vona að hún eigi mann, sagði þá annað þeirra hugsandi". Ég gat létt á spennunni og sagði þeim að hún ætti þennan fína mann hann Stedman. "Það er eins gott." Heyrðist þá í þeim. Ég kváði, "Já, það er ekkert gaman að vera ríkur og vera einn."

Síðan lékum við okkur í leiknum, ef þú værir ríkur hvað myndir þú þá gera. Næstum ellefu ára skvísan sagðist ætla að setja upp gæludýrahús þar sem öll dýrin eru vinir (ég ælta ekki í heimsókn) en sjö ára snáðinn sagðist ætla að kaupa hús fyrir mig.

Börn eru bæði vitur og með skýr gildi. Það er ekkert gaman að vera ríkur og vera einn um það. Rannsóknir sýna að til að öðlast hamingju er maður betur settur með að fjárfesta í nánum samskipturm.  Það er líka algjörlega nauðsynlegt að hugsa vel um mömmu sína - ef maður skyldi komast í álnir og hús (til dæmis í Flórída, Balí eða Ástralíu miðaða við veðurfar hér) kemur sér oft vel. Já og flestar frægar konur eru mjóar ... enda er ásókn í frægð - well, bara efni á annan pistil.

Lifið heil - það er hægt að rækta fjölskyldu og vinskap í vondu veðri enda ekkert betra að gera við tímann þangað til drengurinn vex upp og kaupir hús á suðlægum slóðum.