c

Pistlar:

17. desember 2015 kl. 1:50

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Allt á hvolfi

Sólin hitar kroppinn á ströndinni og við horfum á alla bronslituðu kroppana þar sem við liggjum með íslenska beinhvíta útlimi og ég með bleika bumbu. Fátt minnir á jólin - en þó það stendur skreytt jólatré við strandlengjuna, svona eins og þetta á Austurvelli. Krakkarnir byrja á að hlaupa út í sjó þar sem enginn er en ég átta mig fljótlega á að það hlyti að vera einhver ástæða fyrir því að allir væru þar sem fánar blakta. Við færum okkur. 

Við höfum smá hækkað hitastigið í ferðinni, fórum frá London til Abu Dhabi og svo hingað til Ástralíu. Pjakkurinn var eins og stígvélaði kötturinn í London því hann hafði farið út í snjóinn heima í stígvélum og það gleymdist að horfa á fæturnar á honum fyrr en í flugstöðinni - það voru keyptir sandalar í London. Stígvélin eru þó með í för ef ske kynni að þyrfti að nýta þau. 

Í ljósi þess að nauðsynlegt sé að fara út úr sínum þægindahring þá var ákveðið að leggjast upp á góða vini og leggja í ferðalag þessi jólin.  Engar sortir að baka, engir jólatónleikar, ekkert jólaöl. Hér koma ekki einu sinni jólasveinar að gefa í skó! Pjakkur heldur að þegar við komum heim þá muni bíða þrettán skógjafir í glugga. Hver veit, kannski finnum við myglaðar mandarínur þegar heim er komið.

Ég tekst á við allra handa kvíðahrolli með ferðum í vatnsrennibrautum, sandrallý í eyðimörk, flugferðum og vinstri akstri í fjallshlíðum. Ég er ekki þessi hugrakka týpa sem hendir sé glöð fram af rennibrautum og brúnum. Ég er meira fyrir rólegheitin. Allir litir grænir eru hér allsráðandi í náttúrunni og blessuð sólin skín. Ég ákvað að finna mína innri konu og fór í jóga með vinkonu minni. Kennarinn talaði um sumarsólstöður þar sem eðlilegt er að ganga til móts við sjálfa sig. Ég hugsaði með mér að hún hefði ruglast því nú væri vetrarsólstöður. En svo fattaði ég að hér í Ástralíu er allt á hvolfi. Ég er alveg hissa á að við höldumst á jörðinni, svona á haus. Hér eru réttilega sumarsólstöður 21. desember.

Það er gott að fara út úr sínum þægindahring og uppgötva sjálfa sig upp á nýtt og horfa á heiminn á hvolfi án þess að detta niður. Hvort sem eru vetrar- eða sumarsólstöður þá er rétti tíminn til innra uppgjörs rétt áður en árið er á enda.

Það er aldrei að vita að það hristi upp í miðaldra sellunum að standa á hvolfi á þessari dásemdar jörð í einhvern tíma og vita að jólin koma hvar sem maður er því jólin eru innri friður og samhljómur. 

Ég óska þér og þínum gleðilegrar jólaaðventu.

areliaeydis.is