c

Pistlar:

20. mars 2016 kl. 20:42

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Á Pálmasunnudegi

Í hönd fer stærsta hátíð kristinnar manna. Dymbilvikan hefst í dag á Pálmasunnudegi en þá reið Jesús inn í Jersúalem og var hylltur sem konungur eða frelsari. Jesús var sá leiðtogi að hann virðist ekki hafa miklast af þessu, kannski vitandi hvað framundan var. Skírdagur er nefndur svo því á þeim degi þvoði Jesús fætur lærisveina sinna. Hann fór niður á hné og þvoði fætur þeirra sem fygldu honum. Síðan vitum við hvað gerðist - dauði og upprisa.

Það eru fáir leiðtogar sem hafa fyllt fordæmi Jesú og farið niður á hnén til að þvo fætur fylgjenda sinna, þó að við séum í betri skóm í dag. Hvílík auðmýkt og þjónusta, hvílíkt hugrekki að sýna hvað hann er berskjaldaður, rétt fyrir krossfestinguna og dauðann sjálfan.

Líklega er Jesús að sýna lærisveinum sínum takmarkalausa ást sína, meira að segja þeim sem síðar sveik hann, með þessum gjörningi. Ég er ekki guðfræðingur, en mér finnst að hann viti að dagar hans eru taldir meðal þeirra og vill skilja eftir hjá þeim kærleika og þjónustu. Gildi kristindómsins og flestra trúarbragða endurspeglast í þessari athöfn, með því að þjóna öðrum og innri gildum okkar sýnum við hvers megnug við erum jafnvel þegar við erum berskjölduð. Í bæn heilags Frans frá Assisi segir m.a. "Drottinn veittu að ég megi fremur leitast við að hugga en að vera huggaður, að skilja frekar en að vera skilinn, að elska fremur en að vera elskaður. Því með því að gleyma sjálfum mér auðnast mér að finna.."

Í dymbilviku er gert ráð fyrir að við tileinkum þessari viku kyrrð og íhugun. Annað nafn á þessari viku er kyrravika sem bendir svo á að í þessari viku "skyldu menn vera hljóðari og hæglátari en nokkru sinni endranær og liggja á bæn."

Ég er að hugsa um að íhuga bæn Heilags Frans frá Assisi sem er alltaf á skrifborðinu mínu og vera eins hljóð og hæglát og hægt er áður en að endurfæðingunni kemur. Biðja um aðstoð til að gleyma sjálfri mér til að finna. Áður en við getum upprisið úr hverju sem er verðum við að hægja á okkur um stund. Til þess er kyrrðarvikan.