Þegar ég var átján ára fékk ég síma og símanúmer þegar ég flutti til Reykjavíkur, síðan hef ég haldið þessu númeri. Í sumar var það, fyrir mistök símafyrirtækisins aftengt. Ég reyndi að láta tengja það aftur en allt kom fyrir ekki. Svo gafst ég upp á að reyna og núna er ég með nýtt heimanúmer, flutt á nýjan stað, skilin og komin með nýjan síma og nýjan bíl. Stundum er sagt að það sem maður skrifi um komi heim og saman við líf manns. Orð og orðræða séu öflug.
Ég hef verið að skrifa bók um áskoranir á miðjum aldri síðstu tvö ár, óvissuna sem við göngum út í og hvernig við erum knúin til að horfast í augu við okkur sjálf, taka upp úr bakpokanum og taka til í lífinu og tilverunni. Hvernig við verðum að hafa hugrekki til að gagnast við nýju upphafi og spyrja okkur krefjandi spurninga og gera svo eitthvað í því þegar svörin að innan berast upp til eyrna okkar. Þegar ég byrjaði að skrifa bókina, var ég á allt öðrum stað með sama símanúmer og ég hafði verið með í yfir þrjátíu ár. Núna þegar ég reyni að muna nýja heimasímanúmerið mitt get ég ekki annað en brosað yfir örlaganornunum.
Þegar maður gengur í gegnum innri náttúruhamfarir eða krísu þá hjálpar reynslan óneitanlega. Ég veit að allt sem skiptir ekki máli lengur fellur niður eins og snjókorn sem bráðna um leið og þau lenda á jörðu. Það sem skiptir máli í lífi manns situr eftir. Vináttan, sem ég er svo rík af, fjölskyldan, verkefnin, náttúran, ástríðan og vissan um að maður muni koma til með að lifa þetta af líka. Það þarf ekki að vera slæmt að vera með nýtt heimanúmer - núna getur maður hvort sem er bara stimplað það inn í hinn símann. Þess fyrir utan þá hef ég í mörg ár skrifað um mikilvægi þess að fara út úr sínum þægindahring. Hið nýja og óvænta þarf ekki að vera ógnvekjandi, þegar maður hefur hvort sem er lifað ýmislegt af.
Ég ætla samt að drífa mig að ljúka við bókina um breytingar, hindranir og hugrekki til að breyta á miðjum aldri til að takast á við framtíðarvinnumarkað. Næsta bók verður um haimingju, stöðugleika og blóm í haga.