c

Pistlar:

31. október 2023 kl. 6:08

Ásdís Ósk Valsdóttir (asdisosk.blog.is)

Skellti sér í hlaupaferð til Ljubljana

Ég skellti mér með Laugaskokki í hlaupaferð til Ljubljana. Hilda vinkona er búin að vera meðlimur í Laugaskokki í mörg ár og elskar félagið. Ég er ekki meðlimur í neinu hlaupafélagi þar sem það er ekkert félag sem æfir á mínum æfingatíma, þ.e. 5 á morgnana eða eins og margir vinir mínir segja. Ásdís, það er ekki hollt að hlaupa á nóttunni.

Við Hilda skráðum okkur í hálfmaraþon og þetta átti að vera mitt fyrsta hálfmaragötuþon. Hins vegar fann ég eftir Reykjavíkurmaraþonið þar sem ég hljóp 10 km á 65 mínútum og mínum næstverstatíma frá upphafi að ég var ekki í nógu góðu standi til að hlaupa 21 km.

Ég hef verið að glíma við álagspúls síðan ég fékk Covid í lok janúar 2022. Það eru ansi margir sem hafa enga trú á því að ég hafi rétt fyrir mér. Þetta sé líklega bara í hausnum á mér. Ég þurfi bara að virkja keppnisskapið og ég þurfi hreinlega að forgangsraða rétt. Uppáhaldið mitt er hrútskýringin: “Kannski er þetta ekkert Long Covid heldur bara eitthvað allt annað. Ég er sko búin að fá Covid 2var og það er ekkert að mér”. Annað hvað? Það hefur enginn getað gefið mér skýringu á því. Stundum spyr kona sig, hvað kemur fólki við hvort að ég haldi að þetta sé Long Covid eða ekki. Hvers vegna má ég ekki bara halda það?

Ég verð aldrei aftur góð.

Eftir Reykjavíkurmaraþonið tók ég þá ákvörðun að ég yrði aldrei aftur góð. Almannarómur fékk áfall. Ásdís þú getur nú ekki sagt ALDREI, aldrei er rosalega stórt orð. Þetta tekur bara tíma. Já, þú meinar. Værir þú til í að senda mér tímarammann?. Þá verður yfirleitt fátt um svör. Vandinn við Long Covid er að það eru engin svör. Það er bara fullt af fólki útum allt sem fékk Covid og varð aldrei aftur eins og það var fyrir Covid. Ég fann hvað hausinn á mér lagaðist við þessa ákvörðun. Í tæp 2 ár hef ég verið að berjast við að verða jafngóð og ég var fyrir Covid. Ná sömu tímum, ná sama úthaldi, sömu orku. Í hvert skipti sem ég held að núna sé þetta komið, þá hleyp ég aðeins of hratt og ég þarf að hvíla mig í viku til að safna orku. Eftir Reykjavíkurmaraþonið þá lá ég upp í rúmi allan daginn og þurfti að taka siesta fyrri part vikunnar til að halda uppi orku í vinnuni. Ég verð aldrei aftur góð varð þvílíkur léttir. Núna ætlaði ég að vinna með núið, hætta að horfa í baksýnisspegilinn og hvað ég gat fyrir 2 árum. Fortíðin skiptir engu máli. Núið er að það sem ég get unnið með.

Í hvaða flokk er ég skráð?

Það var því frekar auðveld ákvörðun að breyta skráningunni úr 21 km í 10 km. SkynsemisÁsdís tók völdin. Það hjálpaði líka helling að Hilda var nýbúin að breyta sinni skráningu og við gátum því hlaupið saman. Það eru forréttindi að eiga hlaupavinkonu sem hleypur á nákvæmlega sama hraða og þú. Það er miklu skemmtilegra að æfa saman og keppa saman þegar þið eruð á pari. Ég sendi póst á maraþonið og bað þá að breyta skráningunni. Fékk svar um hæl, Dear Sir og svo að það væri búið að breyta skráningunni. Ég horfði á þetta, Dear Sir og hugsaði þetta verður eins og óvissuferð. Er ég að fara að keppa í karla eða kvennaflokknum. Það skipti svo sum engu máli þar sem við vorum að fara að hlaupa saman. Hilda var samt Dear Madam.

Hverju á ég að pakka?

Þegar við skráðum okkur í ferðina leit út fyrir dásemdarveður, 20 gráður og sól. Laugaskokk pantaði keppnisbúninga og við Hilda ákváðum að taka hlýraboli, hvítir hlýrabolir með íslenska fánanum og nafninu okkar framá. Ég hef aldrei átt keppnisföt með íslenska fánanum. Ég var orðin sjúklega peppuð. Daginn eftir að ég pantaði keppnisbolinn þá breyttist veðrið. Það var núna spáð 3 gráðum og massífri rigningu og roki. Ertu ekki að fokka í mér? 3 gráður og rok. Það er sko hlýrra á Íslandi á þessum tíma. Ég datt úr öllu stuði. Hverju á ég að pakka niður? Á ég að taka með mér vetrarhlaupafötin mín. Ég stúderaði veðurspána næstu daga, skoðaði allar veðursíðurnar, alltaf sama skítaveðrið. Ég ákvað því að það væri best að fara í hlýrri merinoullarrúllukragapeysu, þykkum flauelsbuxum, rauðu KronKron skónum mínum sem er fullkomnir í rigningu og rauðu Ilse regnkápunni minni sem ég keypti fyrir Costa Rica og notaði aldrei þar sem það rigndi alltaf á nóttunni og var heitt og heiðskýrt á daginn.  Síðustu dagana fyrir hlaupið var brjálað að gera í vinnuni. Það er velþekkt markaðstæki að bóka sig reglulega í frí. Síðustu dagana fyrir frí hringja allir sem vilja selja og kaupa og þú mannst varla hvað þú heitir. Ég kíkti á veðurspána kvöldið fyrir brottför. Þá var nú spáð skítsæmilegu veðri á sunnudaginn. Hilda sagðist ætla að hlaupa í hlýrabol og stuttbuxum og ég ákvað að fylgja því plani. Ég hélt mig samt við upphaflega fataplanið og pakkaði niður hlýjum fötum svo ég myndi ekki frjósa í hel. Ég hafði reyndar ekki stúderað veðurspána síðustu daga vegna anna og þegar við lentum í Ljublana voru líklega 20 gráður og heiðskýrt og þetta dresscode var fullmikið. Reyndar hafði ég tekið svona lastminute ákvörðun að henda niður svörtum sandölum, léttum buxum og peysu og það bjargaði mér frá því að deyja úr hitakófi. Reyndar er ég miðaldra á breytingarskeiðinu en 7-9-13 ég hef alveg sloppið við hitakófin.

Expo í Ljubljana

Eitt af því sem mér finnst skemmilegast við keppnir er að fara á Expo og sækja keppnisgögnin sem eru alltaf afhent á sama stað og Expo. Expo er eins og lítil búð, stútfull af allskonar nauðsynjavöru sem íþróttafólk þarf. Hlaupaföt, sokkar, skór og næring. Restin af deginum fór síðan í slökun og ég ákvað að henda mér í Emporium gallerýið sem var þarna rétt við hótelið til að kaupa eitthvað léttara en íslensku vetrarfötin sem ég var með.

Alþjóðadeild Laugaskokks

Eftir Expoið fórum við nokkur saman út að borða. Þá kom í ljós að þau voru flest skráð í Hálfmaraþon í Lissabon í mars. Ég ákvað að skoða málið og kíkti á það símanum mínum. Þetta virkaði mjög skemmtilegt hlaup og er hluti af Superhalfs hlaupunum sem eru 6 hálfamaraþon í Evrópu sem þú hefur 5 ár til að klára. Hin eru Berlin, Prag, Kaupmannahöfn, Cardiff og Valensía. Allt spennandi borgir og 3 eru á vorin og 3 á haustin. Svo færðu svakalega stóra medalíu þegar þessu er lokið. Hljómar eins og gott plan ekki satt. Þau töluðu um að það væri ekki hægt að skrá sig í maraþonið á símanum þar sem það hefðu alltaf komið upp einhver villa og svo væri síðan meira og minna á portugölsku. Ég taldi að það gæti ekki verið svona flókið. Ég er kerfisfræðingur, tala reiprennandi spænsku og kann á svona tæknisíma. 25 tilraunum síðar þá kom staðfesting á því að ég væri skráð í hálfmaraþon í Lissabon. Þetta gat nú tæknitröllið Ásdís. Ég er meðlimur alþjóðadeildar Laugaskokks. Hvað er það, jú hún er fyrir fólk sem æfir á öðrum tíma en þau en fer með í erlendar keppnisferðir. Hversu margir meðlimir eru í henni? ÉG. Hins vegar ef þú æfir eins og flestir, þ.e. seinni partinn mæli ég eindregið með því að kíkja á æfingar hjá Laugaskokki. Það er gífurlega góð stemming í hópnum og ég skemmti mér konunglega allan tímann.

Hlaupið

Við vorum ræstar út kl. 09:20 eða 20 mínútum á eftir hálfmaraþoninu. Við fundum okkar stað, ákváðum að taka þetta rólega og byrja aftast. Mér fannst samt ferlega skrýtið hvað voru fáir í þessu hlaupi, við vorum bara örfá. Svo fórum við að líta í kringum okkur og þá kom í ljós að þetta var alls ekki startið fyrir 10 km það var á öðrum stað þannig að við tókum upphitunarhlaup í startið svo að við myndum ekki misssa af upphafinu og vorum klárar á ráslínu þegar hlaupið byrjaði. Það voru 5.134 aðilar skráðir í hlaupið og þar af 2.551 í kvennaflokkinn. Aðstæður voru fullkomnar fyrir hlaupið. Heiðskýrt og heitt og ég var mjög passlega klædd. Við náðum ekki að vera aftast þar sem við þurftum bara að henda okkur í hópinn en ég var gífurlega vel stemmd og á fyrstu 3 km fórum við framúr 150 aðilum. Það var ekki samkvæmt plani en ég hreinlega gleymdi mér í stemmingunni. Eftir 4.5 km var búið á tankinum, púlsinn var í rugli og við ákváðum að ganga næstu 500 metra á drykkjarstöðina, m.a. til að ná púlsinum niður. Hilda er hinn fullkomni hlaupafélagi og hleypur miðað við mínar þarfir. Við stoppuðum aðeins á drykkjarstöðinni en það hafði ekkert að segja. Ég náði ekki púlsinum niður. Okkar markmið var að hlaupa á rólega á 75 mínútum. Þar sem púlsinn var í rugli síðustu kílómetrana ákváðum við að hætta að pæla í því og stefna að undir 70 mín. Garmin úrið mitt sagði að 10 km hefði verið 1:07:53 en opinberi flögutíminn var 01:12:43 hjá okkur báðum sem skilaði okkur í 1.627-1630 sæti eða eins og ég myndi segja 1.627 sæti hjá okkur báðum. Meðaltíminn hjá keppendum var 1.09.40 og meðalaldur 39 þannig að ég var helsátt við að vera undir meðaltali á tíma þegar meðalaldurinn var 15 árum yngri en ég. Garminúrið sagði líka að ég hefði verið “Overreaching” og ætti að hvíla mig í 4 daga. Úrið skipti ekki um skoðun allan tímann þannig 2 dögum eftir hlaupið fórum við í létta borgargöngu og þá kom “Overreaching” og hvíld í 2 daga.

Þegar við komum í mark fengum við þá fallegustu medalíu sem ég hef séð, drekamedalíu. Mögulega þarf ég að koma mér upp svona verðlaunaplatta þar sem hún verðskuldar ekki að vera ofan í skúffu.

Því hún er svo sæt

Þegar ég kom heim þá fékk ég link á allar myndirnar sem voru teknar af mér í hlaupinu. Ég var mjög spennt að sjá þessar myndir. Það voru 43 myndir sem voru teknar af mér í heildina. Hilda hefur oft verið með tips hvernig á að koma í mark þar sem þar eru oft teknar myndir en hún gleymdi að fara yfir hlaupabrautina 43 myndir og ég leit út eins og kvalin eldri borgari á þeim öllum. Ég hreinlega vissi ekki að ég gæti myndast svona illa. Svona er bara lífið og ég ákvað að smella einni mynd á instagrammið þar sem lífið er allskonar ekki bara súkkulaði og rauður varalitur.

Hausinn verður að vera í lagi

Síðustu 2 ár hef ég einblýnt á hvað ég gat fyrir Covid. Fólk hefur allskonar skýringar eins og það hægist á fólki með aldrinum. Þú segir nokkuð, samt varð ég einu ári eldri í hvert skipti sem ég átti afmæli og hljóp aðeins hraðar? Ég hef þessa einlægu trú að það að bæta við sig afmælisdegi þýði ekki að þú verðir endilega hægari og verri. Það hefur hins vegar verið mjög erfitt að hafa átt sín allra bestu hlaup rétt fyrir Covid og komast aldrei í námunda við þau aftur sama hvað ég reyni. Garmin úrið mitt er tengt Strava og þess vegna á ég svo auðvelt með að sjá þessa tölfræði. Í október 2021 hljóp ég 10 km í Poweraid á 57.48 mín, 31. desember hljóp ég 10 km á 56,51 mín. Það átti að vera Gamlárshlaup en vegna Covid hljóp ég ein þannig að líklega hefði ég náð betri tíma þar sem þú hámarkar þig yfirleitt í keppni. Ég hef aldrei komist undir 60 mín eftir Covid. Ég sá að hlaup.is setti inn tímana frá Ljubljana þá vorum við Hilda á 1.09.42. Það skilaði okkur í 6-7. sæti af 24 hlaupurum af öllum kynjum en í 4.-5 sæti af konum og engin kona var eldri en við fyrir ofan okkur.

Hvíld eftir hlaupið

Ég lagði mig 2var eftir hlaupið á laugardeginum og var í raun alveg drenuð. Það er samt allt í lagi, þetta er nýja ég. Ég ætla ekki að hætta að hlaupa. Ég ætla að njóta þess að geta það sem ég get miðað við daginn í dag. Ljubljana hlaupið er nýja viðmiðið mitt. Ef ég næ að hlaupa á betri tíma en þarna þá eru það framfarir (ekki afturför miðað við það sem ég gat fyrir Covid),ef ég næ því ekki þá er það líka allt í lagi. Ég veit núna að svona hlaup drenar mig í nokkra daga en það er allt í lagi. Ef ég hætti að hreyfa mig þá mun ég smátt og smátt breytast í gömu sófakartöfluna sem ég var. Þá var það fjarlægur draumur að geta gengið upp Esjuna og mér fannst afrek að komast upp að skilti 2 á Esjunni. Þegar ég breytti um lífstíl 2017 þá setti ég mér það sem markmið að geta hlaupið 5 km þar sem mér fannst það óraunverulegt afrek að ná því. Næsta mál á dagskrá er því að fara að æfa fyrir Lissabon hálfmaraþonið en fyrst þarf ég að skjótast í smá súrefnismettunarpróf á Reykjalundi þar sem ég er svo heppin að hjartalæknirinn sem ég hitti trúir því að ég sé ekki að ímynda mér Long Covid og svo geri ég plan í kringum það.

En fyrst og fremst. Takk Laugaskokk fyrir frábæra ferð til Ljubljana og ég get ekki beðið eftir að fara með ykkur til Lissabon.

Hægt er að fylgjast með Ásdísi Ósk á instagram  

 

Ásdís Ósk Valsdóttir

Ásdís Ósk Valsdóttir

Fasteignasali, 3ja barna móðir og áhugamanneskja um heilbrigðan lífstíl og njóta lífsins til fullnustu

Meira