c

Pistlar:

8. september 2020 kl. 12:31

Gunna Stella (einfaldaralif.blog.is)

Sykurlaus september eða?

Haustið er oft tími til að gera breytingar, fara aftur í rútínu og huga að heilsunni. Við íslendingar erum rosa góð í að fara í “átak” og reyna þannig að gera róttækar breytingar. Kona sem ég þekki sem kemur upphaflega frá Noregi hló af því hvernig Íslendingar eru. Fyrir jólin koma smákökur og konfekt. Eftir jólin er lögð áhersla á heilsueflandi vörur, í febrúar kemur þorramaturinn og um leið og þorranum líkur koma páskaeggin. Við vitum eflaust öll hvernig við högum okkur í samræmi við árstíðir. Það er gott að mörgu leiti því þá sækjumst við í ákveðin vana en auðvitað er best að halda jafnvægi. Það er best að huga vel að heilsunni allan ársins hring og halda rútínu. Ég veit það af eigin reynslu að rútína er frábær. Ég þrífst rosalega vel í rútínu en þegar fer að vora og skólarnir fara í sumarfrí þá hlakka ég til að detta úr hluta af rútínunni. Ég hlakka til að vaka lengur, því ég elska íslensk sumarkvöld. Ég reyni samt að halda þeim hluta af rútínunni inni sem hefur mikilvæg jákvæð og góð áhrif á mig. Ég reyni að hreyfa mig og passa upp á heilsuna og halda henni í góðu jafnvægi. Jafnvægi er gott að lýsa sem því að hjóla. Þegar við hjólum þá reynir á jafnvægi þegar við beygjum. Stundum þurfum við að beygja skarpt til vinstri og stundum til hægri og þá er eins gott að detta ekki. Þegar tekur að hausta og fröken rútína vinkona mín kemur aftur þá hlakka ég til að fara fyrr að sofa og vakna helst áður en aðrir heimilismenn vakna. Mér finnst rútína góð og mér finnst gott að setja mér markmið en best finnst mér þegar ég nýt vegferðarinnar að markmiðum mínum. 

 

Í dag eru margir að taka þátt í sykurlausum september. Það er gott og gilt að taka sykur út úr mataræði sínu. Sykur er bólgumyndandi og getur haft slæm áhrif á líkamann. Það er gott að hafa sykur aðeins í litlu magni í mataræði sínu, hvort sem það er september eða október. Ekki bara til að taka þátt í einhverju átaki heldur af því að þú vilt fara vel með líkama þinn. Ég tek september og janúar mánuð til að afeitra líkama minn. Mér finnst gott að gefa líkama mínum tækifæri til að losa sig við aukaefni og fá tækifæri til að vinna rétt og vel. Svipað gerist þegar við sofum nóg. Þá fær heilinn tækifæri til að hreinsa sig. Það sama gerist líka þegar við föstum. Ef við föstum í 12 tíma á sólahring þá fær líkaminn tækifæri til að melta, hreinsa og losa sig við eiturefni. Það er margt sem hægt er að gera til að hugsa vel um líkama sinn. Það er gott að halda jafnvægi, njóta lífsins, fara vel með líkama okkar því við eigum bara einn. Ég hvet þig til að nota þennan mánuð til að velja það að huga vel að heilsunni. Ef þú smellir hér getur þú nálgast verkfæri sem ég nota til að hjálpa einstaklingum að vega og meta hvernig gengur á hinum ýmsu sviðum lífsins.  Þetta verkfæri kallast lífshjólið. Í raun og veru snýst þetta um að gefa sér einkunn á bilinu 0-10 varðandi það hvernig gengur á ýmsum sviðum lífsins. 0 er miðjan á hringnum og 10 er ysti hluti hringsins. Ég hvet einstaklinga sem eru á námskeiðum hjá mér til að gera punkt á blaðið og teikna línu á milli punktanna. Þá kemur svo skýrt í ljós hvað skorar hátt og hvað skorar lágt. Það er t.d mjög algengt að heilsan og heimilisumhverfi skori lágt í lok sumars. Það er líka algengt að gleði og hreyfing skori hærra í lok sumars en um miðjan vetur. 

 

Ég hvet þig til að nýta þér þetta verkfæri, það getur hjálpað þér að ná jafnvægi. 

Gangi þér vel,

Gunna Stella



Gunna Stella

Gunna Stella

Gunna Stella starfar sem Heilsumarkþjálfi, kennari og fyrirlesari. Hún er fjögurra barna móðir og eiginkona sem er búsett á Selfossi.  Gunna Stella sérhæfir sig í því að hjálpa einstaklingum  að minnka hraðann, njóta lífsins og finna leiðir til þess að einfalda lífið, heilsuna og heimilið. Hennar helstu áhugamál eru ferðalög, lestur, gæðastundir með vinum og fjölskyldu og góður nærandi matur. Nánari upplýsingar má finna á www.einfaldaralif.is og á Instagram:gunnastella

 

Meira