c

Pistlar:

7. ágúst 2014 kl. 9:13

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Vandamál frumkvöðlanna

Eitt stærsta vandamál frumkvöðla er að þeir eru hugsjónafólk, sem hefur tilhneigingu til að henda sér út í fyrirtækjarekstur með lítilli fyrirhyggju og án þess að hafa mikla reynslu af því sem verið er að fara út í. Þeir stofna fyrirtæki til að láta drauma sína rætast eða vinna við það sem þeim þykir skemmtilegast að gera. Konan sem elskar að baka gæti til dæmis stofnað kaffihús en í öllu annríkinu sem rekstri á því fylgir, endar hún á að þurfa að fá einhvern annan til að baka fyrir sig.

Flestir sem fara út í eigin rekstur leggja á sig mun meiri vinnu en þeir fá greitt fyrir og sumir vinna launalaust í langan tíma meðan fyrirtækið er að ná sé á strik. Margir ná ekki að halda út svo lengi að fyrirtækið fari að skila almennilegum tekjum. Fyrirtækin fara í þrot eða þeim er lokað og hugsjónafólkið leitar eftir föstu starfi einhvers staðar og gefur um leið upp á bátinn drauma sína.

Í bókinni The E-Myth Revisited eftir Micahel E. Gerber fjallar hann um tilgang þess að fara út í fyrirtækjarekstur. Hann segir að ef fyrirtækið er algerlega háð því að þú sért á staðnum, sértu ekki að reka fyrirtæki, heldur hafirðu skapað þér starf. Gerber segir jafnframt að tilgangurinn með fyrirtækjarekstri ætti að vera sá að útvega markaðnum eitthvað sem hann er að leita eftir eða hefur þörf fyrir og að skapa störf fyrir annað fólk.

Frumkvöðullinn eða sá vinnusami hefur hins vegar tilhneigingu til að vinna öll störf í fyrirtækinu og í lok dags er hann of þreyttur til að hugsa um hvað þarf að gera til að fyrirtæki geti vaxið og dafnað, til að sinna markaðsmálunum, vöruþróun eða öðru því sem þarf að gera til að hinn upprunalegi draumur hans verði að veruleika.

Í byrjun næsta mánaðar verður haldið námskeiðið Small Business Branding Day, þar sem innlendir og erlendir leiðbeinendur hjálpa frumkvöðlum að auðkenna eða marka rekstur sinn, öðlast yfirsýn yfir fjármálin, gera einfaldar viðskiptaáætlanir, öðlast heildarsýn í markaðsmálum og ýmislegt fleira. Kjörið tækifæri fyrir alla sem eru með lítil fyrirtæki að læra hvernig taka á næsta skrefið í að láta það vaxa.

Nánari upplýsingar er að finna HÉR.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún ruddi brautina þegar hún hóf að halda sjálfsræktarnámskeið árið 1990. Síðan þá hefur hún haldið fjölda námskeiða tengt heilsu og sjálfseflingu, aðallega kvenna, þótt karlmenn hafi líka slæðst með. Að auki hefur hún haldið fyrirlestra, bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur einnig skrifað tuttugu bækur og fjölda greina, bæði á eigin vefsíðu - gudrunbergmann.is - og í blöð og tímarit. Nokkrar bóka hennar hafa verið gefnar út erlendis, bæði í Bandaríkjunum, Noregi, Austurríki og Þýskalandi. Þú finnur hana líka á YouTube og á Instagram.

Meira