c

Pistlar:

30. desember 2018 kl. 14:23

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

365 tækifæri

Önnur tengdadóttir mín sendi mér í gær teiknimyndina sem fylgir greininni. Skilaboðin á henni urðu kveikjan að þessari grein. Ég veit að hvert ár felur í sér ótal tækifæri en oft hef ég horft á stærri myndina og hugsað um þau markmið sem ég ætla að vinna að í hverjum ársfjórðungi eða árinu í heild. Því var svo gott að fá áminningu um að tækifærin sem við öll eigum eru 365, því hver dagur felur í sér ný tækifæri til að vinna að markmiðum okkar og bæta líf okkar á einhvern hátt. Með þetta í huga stefni ég á að halda dagbók yfir þau tækifæri sem hver dagur árið 2019 færir mér.

49085529_2871185579562002_6867245629303685120_n

MARKMIÐASETNING Á NÝÁRSDAG

Venjulega byrja ég að skissa upp hvert væntanlegt ár í huganum í október eða nóvember. Þegar kemur fram í desember fer myndin af komandi ári að verða nokkuð skýr og ég fer að setja punkta niður á blað. Nýársdegi ver ég svo í að setja markmiðin mín niður á blað, tímasetja þau og kortleggja nokkuð nákvæmlega hvernig ég geri ráð fyrir að ná þeim.

Meðan ég bjó á Hellnum settumst við einn nýársdag niður og skrifðum á blað 24 atriði tengd rekstri Hótel Hellna, sem við vildum ná að gera það árið. Við vissum á þeim tímapunkti ekki hvernig við ættum að framkvæma þá, né hvernig þeir yrðu fjármagnaðir. Þegar farið var yfir listann í lok árs, höfðum við náð að ljúka 23 atriðum af honum.

Þetta dæmi sýnir að mínu mati að markmiðalistar hafa mikið gildi, enda hef ég gert mér slíka lista frá árinu 1990.

ALLT ER BREYTINGUM HÁÐ

Þar sem lífið er hins vegar allaf einhverjum breytingum háð er ég jafnan tilbúin til að vera sveigjanleg og breyta með stuttum fyrirvara áætlunum mínum. Þess vegna er svo gott að fara reglulega yfir plönin sín og endurskipuleggja þau. 

Stundum þarf að gera slíkt með mánaðar millibili, stundum dugar að skipta árinu í sína fjóra ársfjórðunga og yfirfara plönin á þriggja mánaða fresti.

365 DAGAR TÆKIFÆRA

Hver dagur felur í sér tækifæri til að gera eitthvað nýtt, eitthvað sem styður okkur í að verða betri og hæfari í lífi og starfi. Við höfum tækifæri til að vakna fyrr á morgnana og nýta daginn þar með betur. Þeir sem vakna snemma geta byrjað daginn á einhvers konar líkamsrækt og haft þá meira úthald fyrir daginn framundan.

Við getum lagt okkur meira fram í vinnunni til að þjóna öðrum enn betur. Við getum varið meiri tíma með fjölskyldunni og til dæmis sett upp ákveðið kvöld í viku sem eru sjónvarps- og tækjalaus, til að tala saman, spila saman eða leika saman. Svo má líka velja að eiga gæðastund með hverju barni fyrir sig (ef þau eru fleiri en eitt) einn eða fleiri daga í mánuði.

Kvöldin bjóða upp á tækifæri til að fara fyrr að sofa, svo líkaminn fái svefn í þær mikilvægu klukkustundir sem svefn fyrir miðnætti er heilsu okkar. Við getum verið betri við hvort annað, hrósað þeim sem standa sig vel, stutt við bakið á þeim sem þurfa á stuðningi að halda og svo mætti lengi telja.

Mikilvægast er að hafa alltaf í huga að hver dagur felur í sér tækifæri til svo margra uppbyggilegra hluta bæði fyrir okkur sjálf, svo og aðra í kringum okkur.

Ég sendi þér sem þetta lest mínar bestu óskir um gleði- og gæfuríkt komandi ár 365 tækifæra :)

Teiknimynd: Af Facebook síðunni Raising Wildflower Kids

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún ruddi brautina þegar hún hóf að halda sjálfsræktarnámskeið árið 1990. Síðan þá hefur hún haldið fjölda námskeiða tengt heilsu og sjálfseflingu, aðallega kvenna, þótt karlmenn hafi líka slæðst með. Að auki hefur hún haldið fyrirlestra, bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur einnig skrifað tuttugu bækur og fjölda greina, bæði á eigin vefsíðu - gudrunbergmann.is - og í blöð og tímarit. Nokkrar bóka hennar hafa verið gefnar út erlendis, bæði í Bandaríkjunum, Noregi, Austurríki og Þýskalandi. Þú finnur hana líka á YouTube og á Instagram.

Meira