c

Pistlar:

9. desember 2019 kl. 10:24

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Arfurinn frá formæðrum okkar

Ég hef nýlokið lestri á mjög merkilegri bók eftir Bjarna Harðarson bókaútgefanda og eiganda Bókakaffisins á Selfossi. Þetta er fyrsta skáldsaga hans og heitir SVO SKAL DANSA. Hann byggir bókina að hluta á æviskeiði formæðra sinna, en þar sem litlar heimildir eru til um fátækar konur á árunum 1856-1952, notar hann það litla sem til er sem grunn að skáldsögu sinni.

Þetta er bók sem ég hvet allar konur til að lesa, því í henni má lesa sögu formæðra okkar, þótt forfeðurnir komi auðvitað líka við sögu. Sögusviðið bókarinnar er að miklu leyti á Austfjörðum, en þaðan var móðuramma mín ættuð. Lestur bókarinnar hefur hjálpað mér að skilja enn betur þá miklu fátækt sem fólk bjó við hér á landi á þessum tíma og hversu hörð lífsbaráttan var.

Bjarni fjallar listilega vel um þá vanvirðingu og það harðræði sem fátækt fólk var beitt á þessum tíma og þá miklu skömm sem fátæktinni fylgdi.

Amma_Afi_börn

HÖRÐ LÍFSBARÁTTA OG MIKIL ÁFÖLL

Bók Bjarna hefur enn á ný vakið mig til umhugsunar um langömmu mína, hana Sveinhildi Hildibrandsdóttur. Hún eignaðist stúlkubarn með Brandi Jónssyni langafa mínum árið 1897, þótt þau hafi ekki gift sig fyrr en í júní árið 1898. Þetta fyrsta barn þeirra, Ármannía Valgerður, deyr svo á eins árs afmælisdegi sínum, þann 21. september árið 1898.

Rúmum mánuði síðar eða þann 22. október árið 1898 fæðist Guðrún Sigríður amma mín. Væntanlega hjálpaði enginn Sveinhildi í gegnum það áfall sem fylgdi dótturmissinum, né heldur það áfall sem hún varð fyrir þegar Brandur eiginmaður hennar drukknaði 2. desember þetta sama ár skammt fyrir utan Barðsnes við Norðfjörð. Sveinhildur varð ekkja og rétt tæplega sex vikna gömul var amma mín orðin föðurlaus.

TIL NESKAUPSSTAÐAR

Sveinhildur flutti eftir þessi áföll með ömmu mína inn á Norðfjörð og tæpum tveimur árum síðar giftist hún aftur, þá Vilhjálmi Stefánssyni í Hátúni, en þau voru þremenningar. Með honum eignaðist hún sex börn á sjö árum. Eitt þeirra dó rúmlega sjö mánaða gamalt og sjálf deyr Sveinhildur af barnsförum árið 1907, svo og drengurinn sem hún var að fæða í heiminn.

Amma mín Guðrún var því orðin munaðarlaus þegar hún var tæplega tíu ára. Henni til happs hafði Vilhjálmur alltaf litið á hana sem dóttur sína, svo hún var hluti af barnahópnum hans. Annars hefði hugsanlega farið fyrir henni eins og sumum sögupersónunum í bók Bjarna.

Enginn fékk áfallahjálp á þessum árum. Menn báru sorg sína í hljóði og sögur segja að Vilhjálmur langafi hafi horfið til fjalla í viku eftir að Sveinhildur dó. Þannig tókst hann á við sína sorg. Svo tók lífsbaráttan við, því sjá þurfti áfram fyrir börnunum, þótt eiginkonan væri látin.

VIÐ ERFUM MINNINGARNAR

Ég lít svo á að við erfum minningarnar um áföll forfeðra okkar. Ég veit ekki af hverju, en ég hef alltaf verið sérlega vatnshrædd og oft horft út á hafið og hugsað til Brands langafa míns og þess augnabliks, þegar hafið sogaði hann í sína votu gröf á köldum vetrardegi, einungis tuttugu og tveggja ára gamlan. Uppi á landi á Barðsnesi stóðu eiginkona hans og eiginkonur hinna sem með honum voru á bátnum og horfðu hjálparvana á menn sína drukkna.

Stutt ævi og áföll Sveinhildar langömmu minnar hafa líka verið mér hugleikin. Hún náði einungis þrjátíu og eins árs aldri, missti fyrri eiginmanninn, tvö ung börn og dó svo með því áttunda sem hún var að koma í heiminn. Þetta er saga svo margra formæðra okkar hér á landi og svo mikil óunnin sorg sem henni fylgir og hvílir yfir kynslóðum nútímans, þótt ekki sé nema í DNA-i okkar.

ÖLL SKYLD EÐA TENGD

Ég leitaði í Íslendingabók til að finna nákvæmar upplýsingar um dánardag Brands langafa míns og Sveinhildar langömmu minnar, svo og um börn þeirra og síðar börn Sveinhildar og Vilhjálms. Smellti þar á takkann „lesa meira“ undir nafni Sveinhildar.

Þar kemur fram að Sveinhildur hafi verið af Víkingslækjarætt, en höfundur þeirrar ættfræðibókar var Pétur Zophoníasson ættfræðingur og langafi minn í föðurætt. Á þessu litla landi erum við öll skyld eða tengd á einhvern hátt, hvort sem er í gegnum blóðbönd eða annað.

BÖRN FÁTÆKRA Í FÓSTUR

Ég þekkti ekki Pétur langafa minn, enda féll hann frá áður en ég fæddist. Móðir mín sagði mér hins vegar að hann hefði verið bindindismaður á áfengi, en ekki kvenfólk. Hann átti tvö börn fyrir hjónaband og með eiginkonu sinni átti hann tólf börn. Fyrsta barn þeirra hjóna dó fljótlega eftir fæðingu, en á hæla næstu tveggja barna þeirra, fæddist amma mín. Pétur hafði verið með stúkufund í Vestmannaeyjum, þegar hann barnaði langömmu mína hana Margréti Gísladóttur, dóttur Gísla lóðs á Eyrarbakka.

Þótt ég hafi ekki neinar heimildir um samskipti þeirra Péturs og Margrétar, kemur mér í hug það sem nokkrum sinnum kemur fram í bók Bjarna, að fyrirmenn þóttust eiga allskostar við fátækar verkakonur. En hugsanlega heillaðist langamma mín bara af þessum glæsilega, vel klædda manni með manséttur, sem var ódrukkinn, kunni að dansa og sýndi henni áhuga.

Hvort heldur sem var, þá var Margrét langamma mín á þessum tíma fátæk fiskverkakona í Eyjum, ein átta systkina og hafði í fá hús að venda. Þegar amma mín Svanlaug Thorlacius Pétursdóttir fæddist, þurfti hún sökum fátæktar að koma henni í fóstur.

FÓSTURFORELDRAR

Svo skal dansa FRAMAN

Við fósturhlutverkinu tóku hjónin Herdís Símonardóttir og Guðjón Þórðarson, sem bjuggu á Vegamótastíg 7 í Reykjavík. Herdís var mikil kvenskörungur, heit Alþýðuflokksmanneskja og sat lengi í stjórn Verkakvennafélagsins Framsóknar. Þótt Margrét langamma mín giftist nokkrum árum síðar hélt Svanlaug amma mín áfram að vera hjá Herdísi.

Ég hef aldrei heyrt Herdísi annað kallaða í minni ætt en Herdísi ömmu. Samt var hún ekki skyld okkur, en  faðir minn, sem skírður var Guðjón Hermann í höfuðið á þeim hjónum, var líka settur í fóstur til þeirra þegar hann var tæplega ársgamall og hann kallaði hana allt tíð ömmu sína.

Hann var ekki settur í fóstur vegna þess að foreldrar hans væru ekki saman, heldur vegna þess að í atvinnuleysinu árið 1933 bauðst bara kaupavinna í sveit. Þar sem afi og amma fengu vinnu, mátti ekki hafa með sér barn. Þau komu aftur til Reykjavíkur, en pabbi hélt áfram að vera hjá Dísu ömmu þar til hann komst á unglingsár.

FÁTÆKT OG HARÐRÆÐI

Bókin hans Bjarna Harðarsonar, þótt skáldsaga sé, veitir djúpa innsýn í umkomuleysi þeirra sem fátækir voru, hina miklu almennu fátækt fólks, misnotkun kvenna, harðræði gagnvart börnum sem lentu á sveit eða send voru í fóstur, aðskilnað foreldra og barna, afskiptaleysi feðra sem ýmist hvorki viðurkenndu né sinntu börnum sínum og konur sem ekki gátu sinnt þeim vegna fátæktar.

SVO SKAL DANSA ætti að mínu mati að vera skyldulesning svo að við konur skiljum betur hvert rætur okkar liggja og úr hverju við þurfum að vinna. Ég held nefnilega að djúpt inni liggi yfir okkur skuggi höfnunar, fátæktar, skammar, sorgar, ástleysis, skorts á sjálfsvirðingu og svo margra annarra tilfinninga frá formæðrum okkar.

 

Myndir:

Móðuramma mín og afi með börn sín.
Aftari röð f.v. Sveinhildur, Karl, Ásdís, þrjú elstu systkinin.
Fremri röð f.v. Guðrún amma mín, Sigrún, Laufey móðir mín, Torfi afi minn. Fremst fyrir miðju er Kristín, yngsta systirin.

Kápumynd af bók Bjarna Harðarsonar.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún ruddi brautina þegar hún hóf að halda sjálfsræktarnámskeið árið 1990. Síðan þá hefur hún haldið fjölda námskeiða tengt heilsu og sjálfseflingu, aðallega kvenna, þótt karlmenn hafi líka slæðst með. Að auki hefur hún haldið fyrirlestra, bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur einnig skrifað tuttugu bækur og fjölda greina, bæði á eigin vefsíðu - gudrunbergmann.is - og í blöð og tímarit. Nokkrar bóka hennar hafa verið gefnar út erlendis, bæði í Bandaríkjunum, Noregi, Austurríki og Þýskalandi. Þú finnur hana líka á YouTube og á Instagram.

Meira