Allt frá árinu 1989 hef ég sett mér skrifleg markmið. Sum hafa auðveldlega ræst, önnur ekki. Það eru helst þessi óraunhæfu sem ekki hafa ræst, en ég hef líka lært af því. Ég hvet þig til að setja þér markmið fyrir árið 2020.
Sumir setja sér bara markmið fyrir vinnuna eða persónuleg markmið varðandi heilsuna. Markmið eins og að „Lifa lífinu lifandi“ telst ekki skýrt markmið og hver hefur heyrt um einhvern sem „Lifir lífinu dauður“?
Við erum sem betur fer lifandi og til að bæta lífsgæði okkar er gott að setja sér markmið fyrir eftirfarandi sex þætti í lífinu.
1-STARFSFRAMI
Hvaða árangri viltu ná í starfi? Hvaða metnaðarfulla markmiði viltu ná þar? Ertu með eigin rekstur sem þú vilt að gangi betur eða ertu að leita eftir stöðuhækkun í starfi hjá öðrum?
Þegar markmiðin liggja fyrir er gott að setja sér plan um hvernig er best að ná þeim. Það kallast framkvæmdaáætlun og á ekki bara við um þennan þátt markmiðanna, heldur hina líka.
2-SAMSKIPTI
Mikilvægt er að skoða reglulega samskipti okkar við aðra og meta á hvaða hátt við getum bætt þau. Skoðaðu samskipti þín við foreldra, systkini, börn, vini, samstarfsfólk og nágranna. Þarf að bæta þau á einhvern hátt, fyrirgefa gömul áföll eða hittast oftar.-
Mikilvægustu samskiptin eru yfirleitt við maka. Þarftu að sinna sambandinu betur, tala út um mál sem ekki hafa verið rædd, skipuleggja fleiri stefnumótakvöld eða gera oftar eitthvað skemmtilegt saman?
Ef þú átt ekki maka og vilt ekki vera ein/einn lengur, settu þér þá það markmið að eignast maka á næsta ári. Skrifaðu niður þá eiginleika sem þú vilt sjá hjá nýjum maka, svo og hvað þú ert tilbúin/-n til að leggja á móti í sambandið.
3-HEILSAN
Þetta er sennilega mikilvægasti þátturinn í markmiðasetningunni, því án góðrar heilsu verður erfitt að ná öðrum markmiðum. Flestir vita hverju þarf að breyta til að bæta heilsuna, en gera lítið í því. Viðhald líkamans þarf að vera stöðugt til að hann haldist heilbrigður og sterkur sem lengst.
Settu þér skýr markmið um breytingar á lífsstíl, til að auka eigin lífsgæði. Fáðu utanaðkomandi aðstoð ef þú þarft á að halda. HREINT MATARÆÐI námskeiðin mín hafa hjálpað mörgum.
4-FJÁRMÁLIN
Settu þér skýr markmið um að bæta fjárhagslegt öryggi þitt. Undir þennan lið falla þættir eins og sparnaður, niðurgreiðsla lána, eftirlaunamálin, viðhald eigna ef þú átt íbúð eða hús, fjárfestingar og svo framvegis.
Búðu til ákveðna framtíðarsýn um fjármálin eins og annað.
5-SJÁLFSRÆKT
Undir þennan lið fellur allt það sem hjálpar þér til frekari þroska og lífsfyllingar. Hefur þig lengi langað til að læra nýtt tungumál, ræðumennsku, læra að spila á hljóðfæri eða bæta við þig þekkingu á eigin starfssviði?
Kannski viltu styrkja líkamann með einhverri líkamsrækt eins og jóga eða lyftingum? Ef þú ert útivistarmanneskja verða gönguferðir og hlaup hugsanlega frekar fyrir valinu.
Sjálfsrækt felst líka í því að vinna úr gömlum áföllum, fyrirgefa sjálfum sér og öðrum, auka gleðina í eigin lífi, hugsa vel um líkamann og elska sjálfan sig.
6-FÉLAGSLÍFIÐ
Margir eru svo uppteknir í starfi og heimilisrekstri að þeir sinna lítið félagslega þættinum. Ef þú vilt eignast nýja vini, fara oftar í leikhús eða ferðast til áhugaverðra staða hér heima eða erlendis, er mikilvægt að skipuleggja það og setja fyrirætlanir þínar á markmiðalistann.
Ef það á bara að gera þetta einhvern tímann er hætta á það gerist aldrei.
MARKMIÐ FYRIR 2020
Taktu þér tíma eins fljótt og þú getur eftir að hafa lesið þessa grein, til að setjast niður og skrifa niður markmiðin þín fyrir árið 2020. Í fyrstu tilraun verður það kannski ekki skipulagður listi, en farðu þá yfir markmiðin aftur á morgun.
Þegar ég skrifa greinar og bækur, breytist textinn yfirleitt við yfirlestur. Það sama getur átt við um markmiðin þín, eftir því sem stefna þín verður skýrari.
Um leið og ég þakka þér lesandi góður fyrir samfylgdina á árinu 2019 óska ég þér gæfu og gengis á árinu 2020.
Megirðu þú ná öllum markmiðum þínum á þessu ári!