c

Pistlar:

20. janúar 2020 kl. 14:18

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Skortur á D-vítamíni algengur

Umfjöllun um skort á D-vítamíni kemur reglulega upp eftir áramót, þegar dimmustu dagar ársins ganga yfir. Að vetri til er það skortur á sólarljósi, sem veldur því að líkaminn framleiðir ekki nægilega mikið af D-vítamín.

Að sumri til er það hins vegar sú staðreynd að fólk notar mikið sólarvörn. Sólarvörn gerir það að verkum að húðin getur ekki framleitt þetta nauðsynlega bætiefni.

SKORTUR MEÐAL BARNA OG FULLORÐINNA

Rannsóknir bandaríkjamannsins Dr. Michael Holick sýna að skortur á D-vítamíni er mun algengari en menn hafa áður haldið, bæði meðal barna og fullorðinna.

Einkenni um D-vítamínskort tengjast m.a. þunglyndi, þar sem serótónín-framleiðsla (gleðihormón) eykst í sólarljósi og birtu.

Beinverkir geta líka verið merki um D-vítamínskort, svo og höfuðsviti, jafnvel hjá nýfæddum börnum.

Þar sem D-vítamín er fituuppleysanlegt efni, getur líkamsfita safnað því saman og þess vegna þurfa þeir sem eru yfir kjörþyngd á stærri D-vítamín skammti að halda, en þeir sem grennri eru, svo og þeir sem eru með mikinn vöðvamassa.

D-VÍTAMÍNNÆMIR SJÚKDÓMAR

Þeir D-vítamínnæmu sjúkdómar sem tengjast í dag helmingi dauðsfalla í heiminum eru hjarta- og æðasjúkdómar, krabbamein, sýkingar í öndunarvegi, öndunarvegssjúkdómar, berklar og sykursýki. Hér áður fyrr voru sólböð einmitt notuð til að lækna berkla.

Sjúkdómar eins og  Alzheimer’s, heilahimnubólga, Parkinson’s, meðgöngueitrun, meðgöngukrampi og MS, eru einnig mjög D-vítamínnæmir.

D-VÍTAMÍN EYKUR LÍFALDUR

Í rannsókn sem gerð var árið 2011, var skoðað hvort það myndi hafa áhrif á lífslíkur fólks, ef gildi þeirra af 25(OH)D (D-vítamíni) hækkaði úr 54 og upp í 110 nmol/l. Niðurstaðan sýndi að hækkun á þessum D-vítamíngildum myndi lækka dánartíðni um 20%.

Jafnframt kom í ljós að lífaldur gæti lengst um tvö ár ef hærri gildi af D-vítamíni væru í líkamanum. Það er því óhætt að taka allt að 6.000 IU af D-vítamíni á dag, til að stuðla að betri heilsu.

D-VÍTAMÍNSKORTUR OG VEFJAGIGT

Virtir skólar eins og Læknaháskólinn í Boston hafa birt greinar og niðurstöður rannsókna sem fjalla um það hversu mikilvægt D-vítamín sé líkamanum. Í þeim kemur fram að skortur á því geti leitt til aukinnar hættu á sjúkdómum eins og ýmsum tegundum krabbameina, sykursýki týpu 1, æðasjúkdómum og beinþynningu.

Jafnframt benda faraldursfræðilegar rannsóknir til þess að sólböð, sem auka framleiðslu D-vítamíns í húð, séu mikilvæg til að koma í veg fyrir þessa sömu sjúkdóma og ýmsa aðra króníska sjúkdóma.

Sumir vilja reyndar halda því fram að mikill D-vítamínskortur sé ástæðan fyrir mörgum krónískum hrörnunarsjúkdómum.

Það sem er þó einkar athyglisvert við þessa rannsókn er að læknar telja að einstaklingar sem þjást af D-vítamíniskorti séu oft ranglega greindir og taldir vera með vefjagigt.

Því gæti verið rétt fyrir þá sem hafa verið greindir með vefjagigt að taka inn D-vítamín til að kanna hvort það bæti líðanina.

Heimildir: Medical News TodayMercola.comPatient.co.ukAjcn.orgSuite101.com

 

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún ruddi brautina þegar hún hóf að halda sjálfsræktarnámskeið árið 1990. Síðan þá hefur hún haldið fjölda námskeiða tengt heilsu og sjálfseflingu, aðallega kvenna, þótt karlmenn hafi líka slæðst með. Að auki hefur hún haldið fyrirlestra, bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur einnig skrifað tuttugu bækur og fjölda greina, bæði á eigin vefsíðu - gudrunbergmann.is - og í blöð og tímarit. Nokkrar bóka hennar hafa verið gefnar út erlendis, bæði í Bandaríkjunum, Noregi, Austurríki og Þýskalandi. Þú finnur hana líka á YouTube og á Instagram.

Meira