c

Pistlar:

6. október 2020 kl. 16:24

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Vírus sem kann að telja

Mér finnst afar áhugavert að fylgjast með áhrifum frá orku plánetanna í kringum Jörðina á líf okkar. Í þýðingu minni á skýringum stjörnuspekingsins Pam Gregory (www.pamgregory.com) á orkunni í kringum fullt tungl fimmtudaginn 1. október, sem hlusta má á HÉR kom fram að Plútó myndi fara beint áfram sunnudaginn 4. október.

Pam sagði að öðru hvoru megin við þann dag gætum við átt von á því að plútónísk málefni myndu magnast. Þau snúast um völd og alla þá sem hafa vald yfir þér. Vert er að benda á að sóttvarnarlæknir fundaði með ríkisstjórninni síðastliðinn föstudag vegna aukinna Covid smita og í dag tóku gildi nýjar og hertar reglur til að koma „böndum á“ vírusinn.

SMÁ BRESKUR HÚMOR

Vinur minn Colin Porter sendi mér skemmtilega sýn á allt þetta regluverk frá breskum vini sínum, sem ég deili hér. Þótt tölurnar eigi bið Bretland gætu þær eins átt við hér, nema hér á landi eru aðeins aðrar áherslur en hjá Bretunum:

„Þessi vírus er mjög snjall. Hann smitar ekki fólk í brúðkaupum... nema þar séu fleiri en fimmtán gestir. Hann smitar heldur engan við jarðarfarir, svo framarlega sem þar eru ekki fleiri en þrjátíu manns. Vírusinn kann því ekki bara að telja, heldur getur hann gert greinarmun á brúðkaupum og jarðarförum. Hann dreifir sér ekki á pöbbum, fyrr en eftir klukkan tíu. Hann smitar líka bara ef þú ert í hópum sem í eru fleiri en sex manns... en þó greinilega ekki í brúðkaupum og við jarðarfarir.

Grímur verja þig og þess vegna er fólk sektað ef það er ekki með þær... en þó ekki á pöbbum, eins og þegar hefur komið fram, þar sem vírusinn smitar ekki þá sem á pöbbinn mæta fyrr en eftir klukkan tíu á kvöldin. Kvikmyndahús og heilsuræktarstöðvar eru ónæmar fyrir vírusnum, því vírusinn hefur hvorki efni á bíómiðum, né korti í líkamsræktarstöðvar.

Skólar þar sem börn koma saman í stórum hópum eru líka ónæmir þar sem vírusinn nennir ekki að læra... en þessir sömu hópar barna geta ekki hist utan skólatíma, því þá mun vírusinn ná þeim, því hann bíður utan skólalóðarinnar.

Þeir sem eldri eru ættu að vera einangraðir til að vernda þá fyrir vírusnum... nema ef þörf er á því að þeir passi barnabörnin. Afar og ömmur geta því ekki hitt barnabörnin að vild þar sem það telst ekki öruggt, en geta passað þau því vírusinn þekkir muninn á milli þess að vilja hitta barnabörnin vegna þess að þú elskar þau og saknar þeirra (sem vírusinn hatar) og þess að verða af skyldurækni að mæta til að passa þau (sem vírusinn hefur ekkert á móti).

Vírusinn smitar þig líka pottþétt ef þú hittir ættingja og vini heima hjá þér í öruggu umhverfi, en ekki á pöbbinum þar sem þú getur hitt þessa sömu ættingja og vini í umhverfi sem þú hefur enga stjórn á innan um marga ókunnuga... eða að minnsta kosti ekki fram til klukkan 10 á kvöldin.

Vírusinn heldur sig líka við ákveðin póstnúmer, sem þýðir að í sumum þeirra eru stífari reglur en í öðrum. Ó, og hvað varðar skógarhænsnaveiðar, þá er í lagi að stórir hópar stundi þær án nokkrra takmarkana. ALGJÖRT RUGL!“

SMÁ BRESKUR ALVARLEIKI

Breski læknirinn Dr. Aseem Malhotra, sem meðal annars hélt erindi á FOODLOOSE ráðstefnunni sem haldin var hér á landi fyrir fjórum árum síðan hefur nýverið gefið út bókina „The 21 Day Immunity Plan“. Hann var einnig verið virkur í átakinu „Action against Sugar“ í Bretlandi og segir meðal annars í viðtali við bandaríksa lækninn Dr. Mercola:

Hinn eiginlegi faraldur er léleg efnaskipti eða ósveigjanleiki í efnaskiptum,“ segir Malhotra. „Ég var búin að koma auga á það strax í mars, þegar við vorum að fá upplýsingar frá Kína og Ítalíu, að það voru skýr tengsl milli of mikillar líkamsfitu, sem einfaldlega má skilgreina sem léleg efnaskipti og verri útkomu vegna Covid-19.

Við erum að tala um ástand eins og sykursýki týpu 2, háan blóðþrýsting, hjartavandamál og að sjálfsögðu ofþyngd. Þessar upplýsingar komu aftur og aftur fram, svo skýrar að þetta var ekki gripið úr lausu lofti.

Ég hef stundað lækningar í næstum tvo áratugi og við vitum að fólk sem er með slæm efnaskipti kemur yfirleitt verr út út hvaða sýkingu sem er, en Covid-19 hefur beint frekari sjónum okkar að því og fengið okkur til að hugsa meira um það.

Við erum að tala um að þeim sem fá sýkingar í brjótshol, eða sjúkrahúsinnlagnir vegna lungnabólgu eða sykursýki týpu 2 vegnar mun verr. Ég fór yfir upplýsingarnar og komst að raun um að það skorti eitthvað í umfjöllunina. Það var mikið talað um Covid en enginn var að tala um lífsstílinn og áhrif hans á viðbrögð við veirunni.

Í allri umfjöllun hefði átt að koma fram, „Það er enginn betri tími en nú til að hugsa um hað hvernig þú getur virkilega bætt heilsu þína og skoða hvað þú ert að borða, stunda hóflega líkamsrækt, huga að svefninu og öðru slíku,“ segir Malhotra. „En það var ekki gert!“

Til að bæta úr þessum upplýsingaskorti fór Malhorta að skrifa. Fyrst skrifaði hann röð af greinum í bresk dagblöð, en svo fékk hann tækifæri til að tala um þetta á Sky News.

„Ég var ekki að draga neitt undan og sagði að það væri möguleiki á að við myndum á einhverjum tíma öll smitast af þessum vírus, en að við ættum að vinna að því að tryggja að við værum í besta líkamlega ástandi til að takast á við hann, svo við yrðum ekki of veik þegar það gerðist. Ég held ég hafi verið eini læknirinn, sem komst að í stórum fjölmiðli, sennilega í heiminum, og sagði það sem enginn hafði minnst á.“ 

LÉLEG OG ÓSVEIGJANLEG EFNASKIPTI

Greinaskrif Dr. Malhotra urðu að bók en megináhersla Dr. Malhotra í henni er að við séum að takast á við faraldur í ósveigjanlegum efnaskiptum eða lélegum efnaskiptum. Það eru fimm aðalbreytur sem gefa til kynna léleg efnaskipti en þær eru:

  1. Mikið (stórt) mittismál
  2. Forstig að eða týpu 2 sykursýki
  3. Hækkandi eða of hár blóðþrýstingur
  4. Há þríglyseríð í blóði
  5. Lágt HDL kólesteról

Ef allar þessar fimm breytur eru innan eðlilegra marka, ertu með góð efnaskipti. Ef þrjár af þessum breytum eru utan eðlilegra marka gefur það til kynna efnaskiptaheilkenni eða – sjúkdómsmynd. Samkvæmt skilgreiningu Dr. Malhotra er ósveigjanlegum efnaskiptum líka skipt í tvo undirflokka:

1-Insulin viðnám (eða næmi), sem er yfirliett merki um háan blóðþrýsting, há þríglyseríð, hátt kólesteról, ofþyngd eða aðrar breytur tengdar því.

2-D-vítamín skort.

Samantektin hér að ofan er bara brot af mun lengra viðtali við Dr. Malhotra sem lesa má HÉR. Dr. Aseem Malhotra er á Instragram sem @lifestylemedicinedoctor

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún ruddi brautina þegar hún hóf að halda sjálfsræktarnámskeið árið 1990. Síðan þá hefur hún haldið fjölda námskeiða tengt heilsu og sjálfseflingu, aðallega kvenna, þótt karlmenn hafi líka slæðst með. Að auki hefur hún haldið fyrirlestra, bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur einnig skrifað tuttugu bækur og fjölda greina, bæði á eigin vefsíðu - gudrunbergmann.is - og í blöð og tímarit. Nokkrar bóka hennar hafa verið gefnar út erlendis, bæði í Bandaríkjunum, Noregi, Austurríki og Þýskalandi. Þú finnur hana líka á YouTube og á Instagram.

Meira