c

Pistlar:

22. desember 2020 kl. 9:01

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

13 DAGAR JÓLA

Jóladagarnir eru þrettán hér á landi frá Aðfangadegi og fram á Þrettándann. Ég ákvað því að setja niður þrettán ráð sem gott er nýta sér um þessa jólahátíð. Þau eru ekki endilega ætluð fyrir hvern dag fyrir sig – því flest þeirra er gott að nýta alla daga.

1-EINFALDLEIKINN

Það er gott að draga aðeins úr kröfum um fullkomnleika þessi jólin og beina frekar sjónum að því að hafa það kósý og þægilegt. Þar sem minna er um jólaboð er hægt að draga úr sparifatnaðinum og njóta þess frekar að vera í þægilegum fötum.

2-GERÐU MINNA EN NJÓTTU MEIRA

Það er gott að hafa röð og reglu á heimilinu, en það þarf ekki að umturna öllu til að þrífa eða mála rétt fyrir jól. Það eru aðrir árstímar sem henta betur til þess. Njóttu þess að horfa á jólamyndir, spila við börn eða fullorðna, leggja púslu eða lesa góða bók.

3-UNDIRBÚÐU MATINN FYRIRFRAM

Ef þú ert með fæðuóþol er nauðsynlegt að skipuleggja sig aðeins fram í tímann, til að mæta eigin þörfum, hvort sem þú borðar heima eða ferð í mat til annarra. Hafðu samband við gestgjafann ef þú ferð í boð og fáðu upplýsingar um hvað sé á matseðlinum og taktu með þér nesti, ef þar er ekkert sem þú borðar vegna óþols. 

4-TAKTU BÆTIEFNI

Ekki hætta að taka bætiefni yfir jólahátíðina. Þá gerum við yfirleitt mestar breytingar á stuttum tíma á matarvali okkar og borðum oft fæðutegundir, sem við borðum ekki á öðrum árstíma. Taktu inn Sink og C- og D-3 vítamín til að halda ónæmiskerfinu öflugu. Eins er gott að taka inn fjölvítamín eins og EVE eða ADAM og Omega-3. Þeir sem eiga erfitt með að fara í gegnum dimmasta tíma ársins ættu líka að taka inn Rhodiola frá NOW, en það er styrkjandi fyrir geðheilsuna.

5-MUNDU EFTIR MELTINGARENSÍMINU

Þegar við eldumst minnkar almennt framleiðsla á meltingarensímum hjá okkur. Því er gott að taka inn 1 hylki af Digest Ultimate frá NOW eða öðru góðu meltingarensími fyrir hverja máltíð, til að hjálpa líkamanum að brjóta niður fæðuna sem borðuð er. Þetta á einkum við þegar við erum að borða fæðu, sem við almennt borðum ekki, eins og oft er gert yfir jólahátíðina, þegar hátíðamatur er snæddur dag eftir dag. Góðgerlar eða Probiotics eru svo nauðsynlegir til að halda meltingarveginum í góðu lagi.

6-HREYFÐU ÞIG DAGLEGA

Haltu líkamanum í formi með því að hreyfa þig daglega. Finndu þér æfingar á YouTube eða Facebook til að fylgja, gerðu teygjuæfingar eða taktu nokkrar ferðir upp og niður stigana ef þú býrð í fjölbýlishúsi. Svo er 30 mínútna gönguferð í nágrenni við heimili þitt kærkomin hreyfing fyrir líkamann og veitir þér tækifæri til að dást að skreytingum nágrannanna.

7-DRAGÐU ÚR ÁHORFI Á FRÉTTIR OG HASARMYNDIR

Líkaminn gerir ekki greinarmun á því að horfa á eitthvað eða upplifa það í eigin persónu. Ef þú ert að horfa á eitthvað myndefni sem veldur innri kvíða eða streitu er gott að hvíla líkamann á slíku yfir jólahátíðina. Hugljúft myndefni hefur mun betri áhrif á taugakerfið. 

8-GERÐU ÞAKKLÆTISLISTA

Milli jóla og nýárs er frábært að setjast niður og gera lista yfir 100 atriði sem þú ert þakklát/-ur fyrir á árinu sem er að kveðja. Þú þarft ekki að skrifa öll hundrað atriðin niður í einu heldur geturðu fyllt listann úr smátt og smátt. Á gamlársdag eða gamlárskvöld er svo gott að lesa listann upphátt og líta til baka yfir þann árangur sem þú náðir á árinu, það úthald sem þú sýndir, það góða sem þú fékkst að njóta og litlu hlutina sem veittu þér gleði og hamingju.

9-ÁFENGISLAUS JÓL

Ef þú vilt njóta áfengislausra jóla en samt ekki drekka dísæta gosdrykki eða kranavatn, er flott að blanda trönuberjasafa saman við sódavatn og skreyta glasið með límónusneið eða fá sér Kombucha í fallegu vínglasi.

10-HALTU SAMBANDI VIÐ AÐRA

Haltu sambandi við þá sem þú getur ekki heimsótt í gegnum myndbandssamtöl á Messenger, Zoom eða Skype. Horfðu á tónleika eða hlustaðu á jólamessuna í gegnum streymisveitur. Hringdu í þá sem þér þykir vænt um, jafnvel á hverjum degi á þessum árstíma. Samskipti við aðra eru alltaf svo mikilvæg – jafnvel þegar það eru fjarsamskipti.

11-HLUSTAÐU Á GÓÐA TÓNLIST

Tónlist býr yfir heilandi eiginleikum. Hlustaði á uppáhalds róandi tónlistina þína, sem vekur hjá þér gleði og innri ró. Ef um jólalög er að ræða, syngdu þá með og virkjaðu þannig Vagus taugina og sendu merki um heilandi orku til líffæranna þinna.

12-HUGLEIDDU

Við erum að fara í gegnum miklar orkuumbreytingar í heiminum núna. Því er gott að kyrra hugann og efla innri ró með því að hugleiða daglega, þótt ekki sé nema í 15 mínútur eða svo. Eins er frábært að lesa jákvæðar staðfestingar því það eykur bjartsýni og styrkir það innra LJÓS sem þessi árstími stendur fyrir. Við Vetrarsólstöður endurfæðist nefnilega LJÓSIÐ með sólinni sem fer að skína lengur dag hvern.

13-HLÆÐU EÐA BROSTU DAGLEGA

Finndu leið til að hlægja eða brosa daglega af ásettu ráði. Hugsaðu um eitthvað sem vekur hjá þér gleði og brostu eða hlæðu upphátt að því. Finndu fyndið efni á samfélagsmiðlum eða horfðu á gamanmynd. Hlátur virkjar Vagus taugina, dregur úr kvíða, lækkar blóðþrýsting og örvar meltingarkerfið.

Og svo er hér eitt aukaráð. Á þessum árstíma er Tunglið í Krabbamerkinu. Því fylgir oft mikil tilfinningasemi og sterk tilfinningaleg viðbrögð. Gættu þess að lenda ekki í deilum við neinn þessa þrettán daga jóla og ef deilur eru í uppsiglingu, dragðu þig þá út úr þeim.

Bestu óskir um gleðilega jólahátíð, frið og ró í hjarta og spennandi nýtt ár!

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún ruddi brautina þegar hún hóf að halda sjálfsræktarnámskeið árið 1990. Síðan þá hefur hún haldið fjölda námskeiða tengt heilsu og sjálfseflingu, aðallega kvenna, þótt karlmenn hafi líka slæðst með. Að auki hefur hún haldið fyrirlestra, bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur einnig skrifað tuttugu bækur og fjölda greina, bæði á eigin vefsíðu - gudrunbergmann.is - og í blöð og tímarit. Nokkrar bóka hennar hafa verið gefnar út erlendis, bæði í Bandaríkjunum, Noregi, Austurríki og Þýskalandi. Þú finnur hana líka á YouTube og á Instagram.

Meira