c

Pistlar:

24. febrúar 2021 kl. 16:38

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Hjartaheilsa kvenna

Ég var að lesa svo áhugaverða grein eftir bandaríska lækninn Dr. Christiane Northrup, en auk starfa sinna sem læknir hefur hún meðal annars skrifað bækurnar Women‘s Bodies, Women‘s Wisdom og Goddesses Never Age. Ég ákvað því að deila efni þessarar greinar hennar með ykkur, þar sem hún fjallar um hjartaheilsu kvenna.

HJARTAVANDAMÁL KARLA OG KVENNA EKKI EINS

Dr. Northrup segir að hjartasjúkdómar séu ein helsta dánarorsök kvenna fimmtíu ára og eldri í Bandaríkjunum. Hún segir jafnframt að konur séu tvisvar sinnum líklegri en karlar til að deyja ef þær fá hjartaáfall. Ein ástæða þess er að æðar kvenna eru yfirleitt minni en karla og að kerfi þeirra er öðruvísi en karla.

Hún segir það meðal annars vera ástæðu þess að kransæðahjáveituaðgerðir takist ekki jafn vel hjá konum og körlum og að fleiri konur deyji eftir slíkar aðgerðir en karlar. Hún segir það líka ástæðu þess að fleiri konur en karlar með svokallaðar eðlilegar kransæðar, fái hjartaáfall, hjartaöng og hjartablóðþurrð. Og hún bætir við að konur geti líka komið vel út úr æðaskoðun, en samt verið með hjartavandamál.

ÞUNGLYNDI ER ÁHÆTTUÞÁTTUR

Dr. Northrup segir í grein sinni að þunglyndi sé einn af áhættuþáttum hjartavandamála hjá konum. Margar konur fara einmitt í gegnum þunglyndistímabil í kringum tíðahvörfin. Skortur á næringarefnum er líka ein skýringin á því, en þunglyndi er oft tengt skorti á D-vítamíni.

Þunglyndiseinkenni geta líka verið tengd litlu magni af taugaboðefnum eins og serótóníni og dópamíni. Stærstur hluti serótónínframleiðslu líkamans fer fram í þörmunum og því er góð heilsa í meltingarveginum ákaflega mikilvæg, bæði fyrir almenna líðan, svo og fyrir geð- og hjartaheilsuna. 

EINFALT EN GEFUR GÓÐA RAUN

Í bók sinni The Secret Pleasures of Menopause fjallar Dr. Northrup um níturoxíð (nitric oxide) sem mikilvægt efni fyrir hjartaheilsuna. Taugakerfi líkamans, svo og önnur kerfi hans, losa um mikið af níturoxíði þegar við njótum ásta og munúðar. Framleiðslan á sér líka stað þegar við hugsum jákvæðar og ánægjulegar hugsanir. Vandinn er hins vegar sá að jafnvel þótt við séum heilbrigðar, dregur úr framleiðslu á níturoxíði í líkamanum þegar við eldumst.

Hins vegar má bæta úr þeim skorti með því að taka inn bætiefni sem örva framleiðslu líkamans á níturoxíði.

HVAR ER ÞAU AÐ FINNA?

Eitt af þeim bætiefnum sem eykur níturoxíðframleiðslu líkamans er amínósýran L-arginine. L-arginine ásamt öðrum amínósýrum örvar líkamann til að framleiða sitt eigið níturoxíð í næstu tólf tíma eftir inntöku á því.

Níturoxíð er líka að finna í rauðrófudufti eins og Beet Root Powder, en það er meðal annars ráðlagt fyrir íþróttamenn fyrir æfingar.

Nokkur önnur bætiefni eru einnig mikilvæg fyrir hjartaheilsuna og má þar nefna B-100, sem er blanda af B-vítamínum. D-3 er alltaf mikilvægt bæði fyrir hjartaheilsuna og ölfugt ónæmiskerfi, svo og Astaxanthin sem er öflugt andoxunarefni og túrmerik sem slær á bólgur í kerfum líkamans.

Magnesíum er einnig mjög mikilvægt fyrir hjartaheilsuna, því samkvæmt Dr. Carolyn Dean, sem einna mest hefur rannsakað áhrif magnesíums á líkamann, geymir líkaminn mestar birgðir þess í hjartanu. Og ekki má gleyma CoQ10, en það er einstaklega gott bætiefni fyrir hjartaheilsuna.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún ruddi brautina þegar hún hóf að halda sjálfsræktarnámskeið árið 1990. Síðan þá hefur hún haldið fjölda námskeiða tengt heilsu og sjálfseflingu, aðallega kvenna, þótt karlmenn hafi líka slæðst með. Að auki hefur hún haldið fyrirlestra, bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur einnig skrifað tuttugu bækur og fjölda greina, bæði á eigin vefsíðu - gudrunbergmann.is - og í blöð og tímarit. Nokkrar bóka hennar hafa verið gefnar út erlendis, bæði í Bandaríkjunum, Noregi, Austurríki og Þýskalandi. Þú finnur hana líka á YouTube og á Instagram.

Meira