c

Pistlar:

1. mars 2021 kl. 9:26

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Hver dagur er einstakur

Stundum er gott að vera minntur á að við erum einstök hvert og eitt okkar og það er svo sannarlega frábært þegar við lærum að elska okkur sjálf.

Kærleikur í eigin garð á ekkert skylt við sjálfselskar og eigingjarnar tilfinningar, heldur þá virðingu og þá ást sem við sýnum okkur sjálfum, meðal annars með því hvernig við komum fram gagnvart eigin líkama, útliti okkar og umhverfi.

FYRIR SÉRSTAKT TÆKIFÆRI 

Foreldrar mínir voru ekki með mikið fé milli handanna þegar þau voru að byggja sér hús og við áttum bara eitt sett af diskum. Þegar húsið var fullbyggt mátti bara borða inni í borðstofu á jólum og páskum – og stöku öðrum hátíðisdögum og sparistellið þegar það var loks keypt, var líka bara notað við sérstök tækifæri.

Margir hafa lent í því að kaupa sér fatnað sem átti að nota spari, en svo aldrei fundið tækifærið sem var það rétta fyrir fatnaðinn – og þegar hann hefur hangið lengi inni í skáp, er hann gjarnan kominn út tísku þegar á að draga hann fram.

HVERJU MYNDI ÞAÐ BREYTA?

Hverju myndi það breyta fyrir okkur sjálf ef við myndum leyfa okkur að ganga í fallegustu fötunum okkar og borða af sparistellinu dagsdaglega? Eða borða alltaf í borðstofunni, í stað þess að sitja í eldhúsinu? Værum við ekki með því að senda okkur sjálfum falleg skilaboð um að hver dagur sé einstakur, að honum beri að fagna og að við séum þess virði að njóta hans.

Það felst ákveðin upplyfting í því að leyfa sér að njóta reglulega þess besta sem maður á. Viðmót okkar breytist þegar við klæðum okkur uppá eða leggjum fallega á borð fyrir okkur sjálf og fjölskylduna. Við verðum meðvitaðri um fegurðina og glæsileikann sem felst í raun í hverjum einasta degi.

GEYMT INNI Í SKÁP

Ef þú átt eitthvað inn í skáp, sem þú hefur planað að geyma fyrir sérstakt tækifæri – flösku af einhverju eðalvíni, fallega skó, blússu eða skyrtu sem þú hefur aldrei farið í eða fallegan borðdúk sem ekki hefur verið notaður lengi – gæti verið vel þess virði að draga þetta „eitthvað“ fram og taka það í notkun í kvöld, jafnvel þótt það sér bara mánudagur.

NÚNA er nefnilega alltaf besti tíminn til að sýna sjálfum sér ást og virðingu og að njóta þess besta sem við eigum.

www.gudrunbergmann.is 

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún ruddi brautina þegar hún hóf að halda sjálfsræktarnámskeið árið 1990. Síðan þá hefur hún haldið fjölda námskeiða tengt heilsu og sjálfseflingu, aðallega kvenna, þótt karlmenn hafi líka slæðst með. Að auki hefur hún haldið fyrirlestra, bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur einnig skrifað tuttugu bækur og fjölda greina, bæði á eigin vefsíðu - gudrunbergmann.is - og í blöð og tímarit. Nokkrar bóka hennar hafa verið gefnar út erlendis, bæði í Bandaríkjunum, Noregi, Austurríki og Þýskalandi. Þú finnur hana líka á YouTube og á Instagram.

Meira