Í byrjun janúar á þessu ári hélt ég námskeið undir heitinu MARKMIÐ 2021, þar sem ég fór í gegnum nýjar leiðir til að vinna að markmiðum og markmiðasetningu. Tíðni orkunnar í heiminum hefur breyst svo mikið frá því á Vetrarsólstöðum þann 21. desember 2020, að við þurfum að beita nýjum aðferðum á svo mörgum sviðum, meðal annars við að ná árangri með markmið okkar.
Eitt af því sem ég deildi með þátttakendum var listi með hvatningum frá bandaríska leiðtogaþjálfaranum Robin Sharma, en á honum voru 17 atriði, hvert og eitt stutt, en með þann tilgang að hvetja til frekar þroska og árangurs, ef þeim væri fylgt út þetta ár.
Ég ætla ekki að deila þeim öllum með ykkur, en eitt af þessum atriðum hefur hvað eftir annað komið upp í huga minn allt þetta ár.
ATRIÐI NÚMER 8 Á LISTANUM
ÞJÁLFAÐU ÞIG Í AÐ GERA ERFIÐA HLUTI var atriði númer 8 á listanum hjá Robin. Þótt ég hafi væntanlega á hverju ári ævi minnar gert ýmsa erfiða hluti, hef ég aldrei verið jafn meðvituð um þetta atriði á listanum og í ár.
Minn skilningur er sá að margir forðist almennt að gera erfiða hluti. Þeir forðast að takast á við deilumál innan fjölskyldna – og þá leysast þau aldrei. Þeir forðast að leysa samskiptamál við eigin maka – og þá leysast þau aldrei. Þeir forðast að taka á erfiðum samskiptum við börnin sín – og þá leysast þau aldrei. Þeir forðast að takast á við andleg og tilfinningaleg áföll – og fela þau á bak við ýmis konar ofneyslu. Það er svo ótal margt sem við forðumst af því að okkur finnst það erfitt – og það þekki ég af eigin raun.
HANDLÓÐIN
Á þessu ári hef ég oft minnt sjálfa mig á atriði númer 8 á listanum. Það hefur meðal annars komið upp í huga minn þegar ég hef verið löt við að æfa með handlóðum, ekki ætlað að klára allt æfingaprógrammið eða verið treg til að þyngja lóðin og haldið mig á þægindasvæðinu sem ég ræð svo vel við.
Þá hefur þessi hvatning frá Robin komið upp í kollinn á mér og ég tekið ákvörðun um að ÞJÁLFA MIG Í AÐ GERA ERFIÐA HLUTI. Það hefur alltaf skilað mér aukinni innri vellíðan og betri líkamlegum árangri.
ATRIÐI NÚMER 4 Á LISTANUM
Að mínu mati voru nokkrir aðrir gullmolar á listanum, svona eins og atriði númer 4 sem er: FYRIRGEFÐU HIÐ ÓFYRIRGEFANLEGA.
Ég held að enginn komist í gegnum lífið án þess að verða fyrir einhverjum áföllum – en þegar okkur tekst að fyrirgefa hið ófyrirgefanlega – öðlumst við ótrúlega mikið frelsi.
Við erum ekki lengur föst í vef þeirra atburða sem lituðu líf okkar, náum að aftengja okkur frá þeim og föttum um leið að við erum ekki það sem gert var við okkur eða höfnunin sem okkur var sýnd.
Þegar við fyrirgefum þeim sem hafa skaðað okkur – og það þýðir ekki að við séum sátt við gjörðir þeirra – við fyrirgefum bara, er eins og létt sé af manni bagga sem hefur allt of lengi heft för í lífinu. FYRIRGEFÐU HIÐ ÓFYRIRGEFANLEGA er því að mínu mati frábær hvatning.
ATRIÐI NÚMER 10 Á LISTANUM
Annar gullmoli á listanum hans Robins er atriði númer 10. Það er eiginlega gullvæg regla: HAFÐU EKKI ÁHYGGJUR AF SMÁATRIÐUM.
Móðir mín og systur hennar voru vanar að segja í tíma og ótíma: „Ég hef svo miklar áhyggjur...“ – og ég fór sjálf að nota þessa setningu þegar ég varð eldri.
Þegar ég hóf hins vegar að vinna úr mínum eigin áföllum fyrir rúmum þrjátíu árum síðan og nota þá reynslu og þekkingu sem ég aflaði mér í kringum það ferli til að hjálpa öðrum, bæði á námskeiðum og í einkavinnu, hætti ég að nota hana. Mínar áhyggjur breyttu nefnilega engu, en höfðu oft fram að þeim tíma leitt til óþarfa kvíðahnútar í maganum.
Áhyggjutalið hélt áfram í kringum mig og ég sagði stundum í gríni að þessar yndislegu konur væru með „svart belti“ í áhyggjum. Ég losnaði hins vegar við áhugann á að öðlast slíkt belti um miðja ævina og hef því lagt mig fram um að hafa ekki áhyggjur af smáatriðum.
Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum.