Þann 23. september næstkomandi stendur Dr. Joe Dispenza fyrir Hugleiðslugöngu fyrir Heiminn um allan heim. Gangan sem ég hef tekið að mér að skipuleggja verður á Víðistaðatúni og hefst kl. 14:00. Gott er að mæta upp úr kl. 13:30 ef einhver þarfnast aðstoðar við að hlaða niður hugleiðslunni.
Ég er ein af þeim sem ákvað að kynna gönguna hér á landi og sækja um leyfi fyrir henni á Víðistaðatúni. Nú þegar hafa verið myndaðir 3.300 hópar í 158 löndum heims, þar sem fólk ætlar að koma saman og ganga og þannig vinna að breytingum með hugarorkunni, en gefum Dr. Joe Dispenza orðið:
„Þegar ég sendi fyrst út boð um þátttöku í Hugleiðslugöngu fyrir Heiminn ( á ensku Walk for the World), taldi ég upp margar ástæður fyrir því að við erum að ganga. Við erum að ganga fyrir samfélagið. Fyrir gjafmildi, kærleika og frið. Fyrir einingu og heilun.
Líkt og með einstaklingana sem taka þátt í svona starfi, þá er eitt afl sameiginlegt með öllum sem ætla að sameinast sem heild. Það afl er umbreyting.
Ég hef oft sagt um þá sem fá heilun með svona starfi, að þeir öðlist hana vegna þess að þeir uppgötva að iðkun þeirra snýst ekki um heilun, heldur um breytingar. Þeir sleppa tökum á því að samsama sig við eitthvað utan við sig sjálfa og vinna í sínum eigin innri heimi hugsana og tilfinninga. Slík innri vinna leiðir til nýrrar hegðunar; þar sem sýnt er fram á breytingar. Þegar þeir breyta sér sjálfum, byrja breytingar að eiga sér stað í heiminum.
Þessi orka umbreytingar er ástæða þess að þörf er á Hugleiðslugöngu fyrir Heiminn einmitt núna. Ef nægilega margir eru tilbúnir til að skuldbinda sig til að breyta sjálfum sér, koma saman sem heild í gjafmildi, kærleika, friði, einingu og heilun, þá getum við sannarlega breytt heiminum.
SKÖPUM BREYTINGAR – OG UMFÖÐMUM NÝJA FRAMTÍÐ
Til hvers er ég að vísa með „orku breytinga“? Þið hafið væntanlega farið í gegnum eitthvað slíkt einhvern tímann í lífi ykkar. Ef þið hafið á einhverju afdrifaríku augnabliki ákveðið að gera eitthvað allt annað; til að breyta einhverju í fari ykkar sjálfra; hafið þið fundið þessa orku.
Hún finnst á því augnabliki þegar þið gerðuð ykkur grein fyrir að ekkert í lífi ykkar myndi breytast... nema þið breyttust. Og það er tengt auknum skilningi og meðvitund um nýja leið. Um möguleika á einhverju stærra og meira en sá einstaklingur sem þú ert einmitt núna, eða það líf sem þú lifir.
Þegar við tökum ásetning og sameinum hann þeirri orku eða tilfinningu sem þarf til að skapa breytingar, sigrumst við á líkamanum, umhverfinu og tímanum. Við förum út fyrir svið þriðju víddarinnar og öðlumst aðgang að hinum magnaða og umbreytingarsama krafti fimmtu víddarinnar sem er á sviði ótakmarkaðra möguleika. Við sigrumst á hinni þekktu fortíð og fyrirsjáanlegu framtíð... og allt í einu er möguleiki fyrir algerlega nýja framtíð að mótast. Það snýst um að vita að möguleikinn getur orðið að veruleika, vegna þess að okkur finnst að það sé hægt. Með tímanum verður það að langtíma minningu... minningu um nýja framtíð.
Það er orka umbreytinga. Og hún er sterkari en nokkur önnur tilfinning sem við skynjum; sterkari en nokkur hugsun sem við hugsum. Því meira sem við tileinkum okkur orkuna á bak við ákvörðun okkar um breytingar, þeim mun auðveldara er fyrir okkur að yfirstíga fastmótuð forrit í heila okkar og tilfinningum, sem hafa verið að skilyrða líkamann.
Flestir muna hvar þeir vorum, með hverjum þeir voru og hvað þeir voru að gera þegar þeir tóku ákvörðun um að breyta einhverju. Það er kristallað augnablik í tíma og rúmi – og gaf heila okkar og líkama smá innsýn í hvaða nýju framtíð við eigum möguleika á.
VERÐANDI MEÐVITUND HEILDARINNAR
Ímyndið ykkur hvað væri mögulegt ef við myndum gera þetta sem ein heild – ekki bara vinna að markmiðum okkar sem einstaklingar, heldur að breytingum í heiminum. Ímyndið ykkur hvað gæti gerst ef við gerðum okkur grein fyrir að við erum hluti af heildinni – og að þegar við breytum okkur sjálfum, breytum við heiminum.
Ef nægilega margir eru tilbúnir til að gera breytingar og tengjast sem ein eining, gætum við í raun og veru breytt því ferli sem heimurinn er í núna. Með því að sameinast í orku umbreytinga, gætum við – getum við – skapað nýja framtíð.
Á námskeiðum mínum víða um heim, sjáum við hvað er mögulegt þegar fólk kemur saman, með sameiginlega sýn tilbúið til að gera breytingar. Þá verða til margföldunaráhrif; og mögnun orkunnar. Því samhæfðari sem hugar og heilar fólks eru, þeim mun samhæfðari verður meðvitund heildarinnar.
Ef þið hafið einhvern tímann séð stóran hóp fugla eða fiska hreyfa sig á samhæfðan hátt, hafið þið séð þessa samhæfðu meðvitund. Hundruðir eða þúsundir einstaklinga sem sameinast sem ein verund; ein samhangandi heild; sem vinnur saman að því besta fyrir alla.
Hugleiðsluganga fyrir Heiminn er tækifæri fyrir okkur að sameinast sem heildarmeðvitund – og skapa glæsilega nýja framtíð.
HEIMURINN ÞARFNAST OKKAR – HEIMURINN ÞARFNAST ÞÍN
Við hreyfum okkur sem samfélag í einingu; í samvinnu og sem ein heild – í stað þess að vera í samkeppni. Við tengjumst í kærleika; í þakklæti; í umhyggjusemi; í góðvild og gleði. Í frelsi og innblæstri.
Allt hefst það í skapandi kjarnanum – í hjartanu. Við tengjumst á dýpri hátt, á hærri orkutíðni og hærra meðvitundarsviði, þegar við höldum okkur öll í hjartanu. Það hjálpar okkur að leysa vandamál þessa heims – vandamál sem urðu til á lægra meðvitundarsviði.
Það er þetta sem heimurinn þarfnast núna, meira en nokkru sinni fyrr. Við þurfum að mæta með opinn huga, afslappað hjarta og meðvitaðan heila. Við þurfum að sýna hvernig heimurinn gæti verið – með því að verða það.
Þegar við gerum það – veitum við öðrum tækifæri til að gera slíkt hið sama.
Ef þið hafið einhvern tímann velt fyrir ykkur hvort þið gætuð skipt einhverju máli... ef þið hafið einhvern tímann haldið aftur af ykkur... ef þið hafið einhvern tímann hugsað, „Ég er bara ein manneskja; hvað get ég gert?“ ... þá er Hugleiðsluganga fyrir Heiminn tækifæri ykkar til að verða hluti af einhverju stærra; til að verða hluti af heildinni. Til að sameinast í orku umbreytinganna – og koma fram sem hluti af heildarmeðvitundinni.
Heimurinn þarfnast okkar. Heimurinn þarfnast þín.
Breyttu þér; breyttu heiminum. Bjóddu fjölskyldu, vinum, nágrönnum, samstarfsmönnum og þeim sem þú þekkir að taka þátt í Hugleiðslugöngu fyrir Heiminn með þér laugardaginn 23. september á Víðistaðatúni í Hafnarfirði.“
UNDIRBÚNINGUR FYRIR GÖNGUNA
Til að hjálpa þér að undirbúa þig fyrir Hugleiðslugönguna fyrir heiminn eða Walk for the World er HÉR hlekkur inn á kynningu Dr. Joe á því hvernig hugleitt er gangandi. Allir eru hvattir til – sérstaklega þeir sem hafa aldrei stundað standandi eða gangandi hugleiðslu – að hlaða niður þessari kynningu og hlusta á Dr Joe leiða okkur í gegnum „hvað“ og „af hverju,“ og „hvernig“, svo hin eiginlega hugleiðsluganga þann 23. september verði auðveldari.
Fimmtudaginn 21. september kemur síðan gönguhugleiðslan sjálf. Hún gefur öllum tíma til að kynna sér hana - og ganga úr skugga um að búið sé að hlaða henni niður og að allt sé tilbúið - fyrir gönguna. Niðurhal á báðum upptökum er ókeypis.