c

Pistlar:

12. júlí 2024 kl. 12:56

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

ÞRENNT SEM BREYTIR LÍFINU

Eins og svo margir aðrir heillaðist ég af Louise L. Hay, þegar bókin hennar Heal Your Life (íslenska heitið varð Hjálpaðu sjálfum þér) kom út. Hún varð að nokkurs konar handbók hjá mér sem ég nýti mér reglulega enn þann dag í dag. Ég hef gjarnan vísað til hennar sem einföldustu og bestu sjálfshjálparbókar allra tíma. Louise var nefnilega ekki að flækja hlutina.

„ÞETTA ER BARA HUGSUN OG HUGSUN ER HÆGT AÐ BREYTA“

Þessi tilvitnun í orð Louise er kannski einhver sú allra mikilvægasta. Þegar við gerum okkur grein fyrir að við ráðum yfir hugsunum okkar og að þeim er hægt að breyta, breytist svo margt í lífi okkar. Þessi einfaldi sannleikur er svo öflugur vegna þess að þegar við skiljum kjarnann í honum, vitum við að við getum alltaf gert líf okkar betra bara með því að breyta því hvernig við hugsum.

Svo mörg af þeim vandamálum sem við höldum að við séum að takst á við eru í raun sköpuð af okkar eigin hugsunum. Á hverjum degi þjóta um það bil 10.000 hugsanir í gegnum huga okkar. Margar þeirra eru neikvæðar, bæði þær sem snúa að okkur sjálfum og aðstæðum okkar – en eru í raun og veru alls ekki sannar.

EF ÞÚ BREYTIR ÞVÍ....

Einn af vinum Louise var rithöfundurinn Wayne Dyer. Hans ráð var svipað og tilvitnunin í orð Louise hér að ofan. Hann sagði gjarnan: „EF ÞÚ BREYTIR ÞVÍ HVERNIG ÞÚ LÍTUR Á HLUTINA, ÞÁ BREYTAST HLUTIRNIR SEM ÞÚ HORFIR Á“.

Ég get staðfest að þessi tilvitnun í orð hans breytti því hvernig ég horfði á hárið mitt. Mig dreymdi á yngri árum um að vera með rennislétt fíngert hár og fann því alltaf eitthvað að mínu þykka og sjálfliðaða hári og gerði allt sem ég gat til að slétta það.

Þegar ég hins vegar ákvað að það væri flott og fallegt þótt það væri krullað, breyttist allt. Ég sætti mig loks við það eins og það var og þá fór það að verða fallegt í huga mínum. Í fyrsta skipti sem ég bað hárgreiðslukonuna mína um að leyfa krullunum að njóta sín eftir klippingu, spurði maðurinn minn heitinn þegar hann kom heim úr vinnunni: „Erum við að fara eitthvað? Hárið á þér er svo fínt.“ Það var því ekki bara ég sem sá hárið í nýju ljósi þegar það fékk að njóta sín eins og það var.

GERÐU ÞAÐ SEM ÞÚ ELSKAR...

Ég hef alltaf undrað mig á því þegar fólk nær því sem kallast eftirlaunaaldur og hættir að vinna og segist „ætla að fara að lifa lífinu“. Hvað hefur það þá verið að gera þangað til? Við erum alltaf að lifa lífinu, sama á hvaða aldri við erum og getum svo sannarlega gert það eins skemmtilegt og okkur langar til með vali okkar og viðhorfi.

Ég hef löngu tileinkað mér það og ákveðið að ég ætli aldrei að hætta að vinna. Ég ætla bara að halda áfram að GERA ÞAÐ SEM ÉG ELSKA OG KALLA ÞAÐ VINNU. Það er margir sem hafa tileinkað sér þessi orð, en það má líka vísa í texta í kántrílaginu „Buy Dirt“ eftir Jordan Davis, en þar koma þessi orð einmitt fram:  „Gerðu það sem þú elskar en kallaðu það vinnu."

ÆFÐU ÞIG...

Viðhorf okkar til allra hluta ræðst af því hvernig við hugsum um þá eða sjáum þá fyrir okkur. Því er mikilvægt að breyta hugsunum okkar ef við erum að hugsa neikvætt um hlutina, að breyta því hvernig við lítum á eitthvað sem við köllum „ljótt“ og að elska alla daga það sem við gerum – hvað sem það er. Þá verður lífið svo miklu léttara.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún ruddi brautina þegar hún hóf að halda sjálfsræktarnámskeið árið 1990. Síðan þá hefur hún haldið fjölda námskeiða tengt heilsu og sjálfseflingu, aðallega kvenna, þótt karlmenn hafi líka slæðst með. Að auki hefur hún haldið fyrirlestra, bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur einnig skrifað tuttugu bækur og fjölda greina, bæði á eigin vefsíðu - gudrunbergmann.is - og í blöð og tímarit. Nokkrar bóka hennar hafa verið gefnar út erlendis, bæði í Bandaríkjunum, Noregi, Austurríki og Þýskalandi. Þú finnur hana líka á YouTube og á Instagram.

Meira