c

Pistlar:

28. september 2024 kl. 21:15

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Verður kannabis verkjastillandi efni framtíðarinnar?

Miklar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum kannabis eða afurða úr hamplöntunni í Ísrael. Fari aðrar þjóðir eftir niðurstöðum rannsókna þeirra eru allar líkur á að kannabislyf geti komið í stað sterkra ópíóðalyfja og annarra slævandi verkjalyfja í framtíðinni og gefið eldra fólki betra og verkjaminna líf á þessu æviskeiði.

Þar í landi er áætlað að um 100.000 einstaklingar hafi heimild til að nota lyfseðilsskyld kannabislyf til að draga úr krónískum verkjum. Rannsóknir hafa sýnt að verulega hefur dregið úr verkjum hjá þeim sem notuðu kannabis tinktúrur, auk þess sem notkun þeirra sömu á ópíóðum minnkaði um helming.

65 ÁRA OG ELDRI

Flestir þeir sem rannsóknirnar í Ísrael beinast að eru 65 ára og eldri, en þær hafa sýnt að verulega dró úr verkjum við notkun á kannabislyfjum, auk þess sem lífsgæði fólks jukust og aukaverkanir voru nánast engar. Hjá einstaka bar á svima og þurrki í munni, en með leiðréttingu á skömmtum hurfu þau einkenni. Það fólk sem fékk kannabislyf var meðhöndlað vegna krabbameinsverkja, Parkinson’s veiki, áfallastreituröskunar, ristilbólgu, Crohn’s sjúkdómnum og MS eða heila og mænusiggi.

CBD OLÍUR OG JÓNUR

Í einni rannsókn sem gerð var á 2.736 Ísraelum á aldrinum 65 ára og eldri fengu þátttakendur kannabislyf frá fyrirtækinu Tikun Olam, en það er stærsti framleiðandi lyfseðilsskyldra kannabislyfja í landinu. Einn þriðji hluti notaði kannabisolíur (CBD), einn fjórði reykti “jónur” og sex prósent veipuðu. Níutíu og þrjú prósent þátttakenda í rannsókninni greindu frá því að á sex mánaða tímibili hefðu verkir þeirra minnkað úr átta niður í fjóra á tíu punkta skala.

RÚLLAR AMMA SÉR JÓNUR?

Eins og allir vita sækjast þeir sem reykja sígarettur í að reykja með einhverjum öðrum – en hið sama gerist á hjúkrunarheimilum í Ísrael. Þar hittist fólk til að reykja sínar “jónur” með öðrum, þótt kannski sé bara um tvö til þrjú púff að ræða. Rannsóknir í Ísrael sýna því að notkun á kannabislyfjunum hefur einnig dregið úr einmanaleika og þunglyndi hjá fólki, því það hittist meira og spjallar við aðra.

BÆTIR HEGÐUN HEILABILAÐRA

Hegðunartruflanir hjá þeim sem þjást af heilabilun er bæði algengar og oft erfitt að meðhöndla þær. Geðlyf hafa ekki verið að skila sérlega góðum árangri hjá þessum hópi, auk þess sem þeim fylgja oft alvarlegar aukaverkanir. Rannsóknir hafa sýnt að kannabislyf hafa róandi áhrif á sjúklinga með heilabilun, auk þess sem þau virðast bæta ástand þeirra. Þeir sem hafa til dæmis verið hættir að tjá sig við fjölskyldu sína, fara aftur að gera það eftir kannabismeðferð.

BÆTIR LYSTINA HJÁ SJÚKLINGUM

Þegar hefur verið sýnt fram á að kannabislyf hafa aukið matarlyst hjá þeim sem eru með krabbamein eða eyðni. Léleg matarlyst er einnig vandamál hjá þeim sem þurfa á himnuskiljun (dialysis) að halda og venjulegar aðferðir hafa ekki virkað vel á þann hóp. Því er nú verið að gera rannsóknir á því hvort kannabislyf geti auki matarlyst hjá þeim sem í þessum hópi eru.

HAMPUR (KANNABIS) FYRIR FRAMTÍÐINA

Dagana 11. og 12. október stendur Hampfélagið fyrir ráðstefnunni HEMP FOR THE FUTURE í Salnum í Kópavogi. Einn af fyrirlesurunum þar er Dr. Lumír Ondrej Hanus, sem stundað hefur rannsóknir á kannabis plöntunni í mörg ár við Hebrew háskólann í Jerúsalem. Margverðlaunaðar rannsóknir hans eru grunnur að öllu því helsta sem vitað er um plöntuna og nýtingargildi hennar í dag.

Annar fyrirlesari er Magnús Þórsson, prófessor við Johnson & Wales háskólann í Rhode Island í Bandaríkjunum, en hann hefur meðal annars unnið að fræðslu og framleiðslu á kannabisvörum fyrir 55 ára og eldri, með vellíðan í huga fyrir fólk í þessum aldurshópi.

HÉR ER hlekkur inn á síðu ráðstefnunnar

HÉR ER hlekkur inn á viðtal við Magnús Þórsson

HÉR ER hlekkur inn á YouTube rásina mína

Heimildir:

https://norml.org/news/2023/10/19/study-cannabis-products-reduce-pain-depression-in-elderly-patients/

https://www.forbes.com/sites/abbierosner/2019/03/04/new-medical-cannabis-research-from-israel-older-adults-dementia-and-dialysis/

https://www.israel21c.org/medical-cannabis-safely-reduces-pain-in-seniors/

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún ruddi brautina þegar hún hóf að halda sjálfsræktarnámskeið árið 1990. Síðan þá hefur hún haldið fjölda námskeiða tengt heilsu og sjálfseflingu, aðallega kvenna, þótt karlmenn hafi líka slæðst með. Að auki hefur hún haldið fyrirlestra, bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur einnig skrifað tuttugu bækur og fjölda greina, bæði á eigin vefsíðu - gudrunbergmann.is - og í blöð og tímarit. Nokkrar bóka hennar hafa verið gefnar út erlendis, bæði í Bandaríkjunum, Noregi, Austurríki og Þýskalandi. Þú finnur hana líka á YouTube og á Instagram.

Meira